Tvöfaldur heimsmeistari eftir kvöldið

Ekki einn, heldur tveir heimsmeistaratitlar komnir hjá Elvar sem hér …
Ekki einn, heldur tveir heimsmeistaratitlar komnir hjá Elvar sem hér er tolleraður af stuðningsmönnum. Ljósmynd/Patty van der Kaaj

Elvar Þormarsson og Fjalladís frá Fornusöndum unnu 250 metra skeiðið í kvöld og eru þar með orðin tvöfaldir heimsmeistarar. Daníel Gunnarsson og Eining frá Einhamri enduðu í öðru sæti eftir æsispennandi einvígissprett milli íslensku paranna. 

Þykir þetta sérstaklega mikið afrek þar sem Fjalladís hefur aldrei áður farið í bás, á borð við þá sem hrossin eru lokuð í áður en þeim er hleypt út samtímis og tímataka hefst í skeiðkappreiðum. Elvar og Fjalladís hafa lagt áherslu á gæðingaskeiðið, sem er tæknilegra, en sýndu heiminum í kvöld að þau geta líka farið hratt. 

Í tilkynningu frá Landsambandi hestamanna er atburðarásinni lýst svo: „Næst síðasti sprettur kvöldsins var geysi spennandi en þegar í ljós kom að Natalie Fischer á Ímni frá Egeskov kæmist ekki nær okkar mönnum var ljóst að heimsmeistaratitilinn færi til Íslands. En spretturinn sem þá tók við þar sem Elvar og Fjalladís og Daníel og Eining öttu kappi verður lengi í minnum hafður. Þvílíkur sprettur, Elvar og Fjalladís leiddu til að byrja með en Daníel og Eining sóttu fast og voru þau allt að því jöfn þegar komið var að endamörkum, en það var enginn önnur en Fjalladís frá Fornusöndum sem var fljótari og bætti tímann sinn í 22,15 sek.“

Á morgun er annar stór dagur og sá lengsti hingað til. Morgundagurinn hefst á keppni í slaktaumatölti. Þar eigum við eitt par, þau Benedikt Ólafsson og Leiru-Björk.

Þar á eftir er svo komið að tölti sem hefst klukkan 14.30, þar á íslenska liðið 6 fulltrúa.

Hér sést Fjalladís stinga af á lokametrunum.
Hér sést Fjalladís stinga af á lokametrunum. Ljósmynd/Jón Björnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert