Sópa til sín titlum og fljúga inn í úrslit

Jón Ársæll og Frár frá Sandhól tóku sig vel út …
Jón Ársæll og Frár frá Sandhól tóku sig vel út í dag. Ljósmynd/Jón Björnsson

Íslenska landsliðið heldur áfram að gera vel á HM sem fram fer í Hollandi um þessar mundir. Fjórir nýir heimsmeistarar bættust í hópinn í gærkvöldi og er íslenska liðið þar með búið að hreppa 6 titla á þessum fyrstu þremur dögum. Þá komust allir íslensku keppendurnir í fjórgangi í A-úrslit eftir forkeppnina.

Jón Ársæll og Frár frá Sandhól lang-efstir

Jóhanna Margét Snorradóttir og Bárður frá Melabergi skiluðu snyrtilegri sýningu í forkeppni í fjórgangi á þriðja degi HM íslenska hestsins sem fram fer í Hollandi um þessar mundir. Þau hlutu 7,77 í einkunn og koma því inn í A-úrslit í þriðja til fjórða sæti. Bárður hefur átt orkumeiri sýningar og á parið því þó nokkuð inni fyrir úrslitin. Danska parið Frauke Schenzel og Jódís frá Kronshof er efst eftir forkeppnina, með einkunnina 8,08.

Viðar Ingólfsson og Þór frá Stóra-Hofi áttu stórgóða sýningu, en þeir hlutu einkunnina 7,53 sem skilaði þeim í 5. sæti eftir forkeppnina. Ísland mun því eiga tvo fulltrúa í A-úrslitum um helgina. Viðar og Þór hafa lítið keppt í fjórgangi þar sem þeirra sterkasta grein er tölt og er þetta því eftirtektaverður árangur.

Jón Ársæll Bergmann og Frár frá Sandhól báru af meðal ungmenna, en þeir eru langefstir í ungmennaflokki með einkunnina 7,34. Sú einkunn hefði dugað þeim í B-úrslit í fullorðinsflokki.

Fjórir nýir heimsmeistarar

Yfirlitssýning í flokki 5 og 6 vetra mera og stóðhesta fór fram í gærkvöldi.  Fyrir yfirlitið voru allir íslensku hestarnir efstir í sínum flokk. Það var greinilegt að  hugur var í knöpunum sem voru búnir að fínpússa atriðin sín og komu af feiknakrafti inn í yfirlitið.

Ársól frá Sauðanesi, sýnd af Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur varð efst fimm vetra hryssna og þar með heimsmeistari með aðaleinkunnina 8,48. Höfði frá Bergi, sýndur af Þorgeiri Ólafssyni var krýndur heimsmeistari í flokki fimm vetra stóðfesta með aðaleinkunnina 8,39.

Hrönn frá Fákshólum, sýnd af Jakobi Svavari Sigurðssyni var efst sex vetra hryssna og þar með heimsmeistari með aðaleinkunnina 8,68 og loks sýndi Árni Björn Pálsson stóðhestinn Geisla frá Árbæ. Geisli var fyrir yfirlitið jafn Hraða frá Skovhuset en tók vel fram úr honum í dag og endaði efstur sex vetra stóðhesta og þar með heimsmeistari með aðaleinkunnina 8,60.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert