Herdís heimsmeistari í tölti U21 og Jón í fjórgangi

Hér má sjá þá Jón Ársæl og Frá eftir verðlaunaafhendingu …
Hér má sjá þá Jón Ársæl og Frá eftir verðlaunaafhendingu í fjórgangi, en einbeitingin skín enn úr augum þeirra enda áttu þeir þarna eftir að ríða úrslit í tölti. Ljósmynd/Jón Björnsson

Herdís Björg Jóhannsdóttir og Kvarði frá Pulu eru heimsmeistarar í tölti í ungmennaflokki eftir daginn í dag, með einkunnina 7,22.

Þau áttu frábæran sprett á greiða töltinu, sem tryggði þeim sigurinn.  Jón Ársæll Bergmann og Frár frá Sandhól komu efstir inn í úrslitin og fór sýningin vel af stað hjá þeim en þegar kom að greiða töltinu lentu þeir í vandræðum og varð það til þess að meðaleinkunnin dróst verulega niður og þeir enduðu í 5. sæti með 6,67.

Jón Ársæll þarf þó ekki að hengja haus enda sigruðu þeir félagar fjórganginn og eru því þar með orðnir tvöfaldir heimsmeistarar, annars vegar í fjórgangi og hins vegar í samanlögðum fjórgangsgreinum. 

Úrslit í fimmgangi ungmenna fóru fram í gær en Glódís Rún Sigurðardóttir og Salka frá Efri-Brú báru þar sigur úr býtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert