Sigurganga Frakka hófst í Reykjavík

Claude Onesta hefur verið landsliðsþjálfari Frakka í 14 ár.
Claude Onesta hefur verið landsliðsþjálfari Frakka í 14 ár. AFP

Franska landsliðið í handknattleik karla hefur ekki tapað úrslitaleik á stórmóti frá árinu 1993. Sigurganga franska landsliðsins hófst á HM á Íslandi fyrir 20 árum er þeir löðgu Króata í úrslitaleik. Í Laugardalshöllinni hófst sigurganga Frakka í handknattleik sem stendur enn.

Franska landsliðið leikur í dag við Katar í úrslitaleik í Luseil-íþróttahöllinni skammt utan við Doha. Þetta verður í þriðja sinn sem franska landsliðið leikur við landslið gestgjafanna í úrslitaleik á stórmóti. Frakkar unnu Króata í úrslitaleik HM í Króatíu 2009 og danska landsliðið í úrslitaleik EM í Danmörku fyrir ári.

Alþjóðahandknattleikssambandið greiðir sigurliðinu 100.000 bandaríkjadollara í verðlaun fyrir heimsmeistaratitilinn, jafnvirði 13,3 milljóna króna. Það er aðeins lægri upphæð en hver leikmaður landsliðs Katar hefur fengið fyrir hvern sigurleik á heimsmeistaramótinu.

Heimsmeistarinn tryggir sér sæti í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Ríó á næsta ári.

Hver sem niðurstaðan verður í úrslitaleiknum á eftir er eitt öruggt: Frakkar eru öruggir um sæti á HM eftir tvö ár þar sem þeir verða gestgjafar og landslið Katar tekur sæti á HM 2017 sem heimsmeistari, hvort sem það vinnur eða tapar úrslitaleiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert