Sögulegar kosningar í Búrma

Þingkosningar eru hafnar í Búrma. Þær marka tímamót þar sem þetta eru fyrstu frjálsu kosningar í landinu í aldarfjórðung, en landið var lengi undir stjórn herforingja.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að USDP-flokkurinn, sem nýtur stuðnings hersins, þyki líklegur til sigurs. 

Flokkur Aung San Suu Kyi, Þjóðarbandalag um lýðræði (NLD), muni fá góða kosningu, en Suu Kyi er hins vegar meinað að fara í forsetaframboð. 

Fjölmenni kom saman í Yangon þegar Suu Kyi mætti á kjörstað til að greiða atkvæði. 

BBC segir að landsmenn hafi almennt fjölmennt á kjörstaði. Víða hafi myndast langar raðir, en margir voru mættir eldsnemma í morgun. 

Alls eru um 30 milljónir íbúa á kjörskrá. Búist er við að endanleg úrslit muni liggja fyrir á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert