Yfir hundrað látnir í Búrma

Yfir 100 hafa fundist látnir í norðurhluta Búrma eftir að aurskriður féllu þar á laugardag. Bærinn Hpakant, þar sem nánast öll jaði vinnsla heimsins fer fram, er rústir einar.

Björgunarfólk hefur staðið vaktina frá því á laugardagsmorgun er aurskriður féllu á bæinn. Talið er að allir þeir sem létust séu starfsmenn í jaðinámum bæjarins og fjölskyldur þeirra.

Alls hafa 104 lík fundist og samkvæmt fréttum fjölmiðla í Búrma þá er enn margra saknað. Ekki er vitað hversu margir urðu undir skriðunni þar sem ekki eru til upplýsingar um hversu margir eru búsettir á þessum slóðum.

Jaði er nær ein­göngu að finna í Búrma og er það jarðefni sem Kín­verj­ar meta hæst. Íbúar Hpakant kvarta hins veg­ar sár­um vegna námuiðnaðar­ins á svæðinu, m.a. hárri slysatíðni og landupp­töku.

Talið er að tekjur af framleiðslu á jaði í Búrma í fyrra hafi numið 31 milljarði Bandaríkjadala. En það er tíu sinnum hærri fjárhæð heldur en opinberar tölur kveða á um enda er flestum bestu jaðisteinunum smyglað til Kína án aðkomu hins opinbera.

30 látnir eftir skriðufall í Búrma

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert