Lögreglumaður sakaður um alvarleg brot

Þekktur norskur lögreglumaður, Eirik Jensen, er sakaður um spillingu í starfi og aðild að fíkniefnasmygli. Talið er að hann hafi aðstoðað þekktan fíkniefnasala og félaga í skipulögðum glæpasamtökum, Gjermund Cappelen, við innflutning á 13,9 tonnum af hassi. Fyrir það hafi hann þegið 2,1 milljón norskra króna, rúmlega 30 milljónir króna, í reiðufé og og fleiru. 

Jensen, sem er einn helsti sérfræðingur norsku lögreglunnar í málefnum vélhjólagengja,  hefur ávalt neitað sök og segist vera með allt uppi á borðinu varðandi samskipti sín og Cappelen sem ná áratugi aftur í tímann.

Upphaf rannsóknarinnar má rekja til eftirlits sænsku lögreglunnar við Eyrarsundsbrúna árið 2013. Lögreglan varð vör við tvær bifreiðar sem hafði verið lagt hlið við hlið á bílastæði Svíþjóðarmegin við brúna. Þegar lögreglan ræddi við bílstjóra bifreiðanna fundu lögreglumennirnir kannabisþef og ákváðu að rannsaka bifreiðarnar frekar. Í skotti Ford Focus bifreiðar fundust 186 kg af hassi vandlega falin í æfingatöskum. 

Hassið var á leið til Noregs og átti að afhendast í Skøyen. Rannsóknin beindist fljótt að Bandidos vélhjólasamtökunum og í Kaupmannahöfn fannst vöruhús með miklu magni af kannabisi. Sænska lögreglan handtók þrjá í tengslum við rannsóknina en norska lögreglan náði höfuðpaurnum, Gjermund Cappelen.

Ákveðið hefur verið að gera sjónvarpsþáttaröð eftir bók Jenens, Historien om mitt politiliv, og segir framleiðandi þáttaraðarinnar að ásakanirnar komi ekki í veg fyrir gerð þáttanna. 

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins hefur Cappelen sagt að Jensen hafi þegið peninga og muni gegn því að aðstoða við smyglið. Jensen hefur starfað hjá lögreglunni í Ósló frá árinu 1977 og var lengi vel lykilmaður í málum tengdum skipulagðri glæpastarfsemi.

Frétt Aftenposten

Frétt Dagbladet

Frétt NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert