Fimm létust á breskri baðströnd

AFP

Fimm létust við strönd Bretlands í gær en í gær var heitasti dagur ársins þar í landi og margir gestir á ströndum landsins. Sjö hafa látist við strönd Bretlands síðan á föstudag.

Mennirnir fimm sem létust í gær voru á Camber Sands-baðströndinni í East Sussex en gestur á ströndinni gekk fram á lík tveggja þeirra þegar alda skilaði þeim á land um áttaleytið í gærkvöldi, samkvæmt frétt BBC.

Leit stendur yfir að einum manni til viðbótar sem er saknað af ströndinni í East Sussex. Er bæði leitað á bátum og úr þyrlu við ströndina. Það var um klukkan 14 í gær sem beiðni kom um læknishjálp á ströndinni þar sem þrír menn þyrftu á aðstoð að halda. Ströndinni var lokað fyrir almenningi en mennirnir voru allir látnir.

Ýmsar getgátur hafa verið um hvernig dauða þeirra bar að. Meðal annars að það tengist marglyttum en það hefur verið dregið til baka. Eins að um flóttamenn sé að ræða en það hefur einnig verið útilokað. Það eina sem lögreglan hefur viljað segja hingað til er að um hræðilegt atvik sé að ræða.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert