Krefjast fundar í öryggisráðinu

Frönsk stjórnvöld hafa farið fram á að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verði kallað strax saman til að ræða ástandið í Aleppo. Þetta kemur fram í tilkynningu frá franska utanríkisráðuneytinu. Utanríkisráðherra Frakklands, Jean-Marc Ayrault, segir að ástandið hafi aldrei verið jafnskelfilegt og nú í borginni og það verði að tryggja aðgang hjálparsamtaka að íbúum sem verið er að þurrka út. 16 þúsund almennir borgarar hafa flúið hverfi í austurhluta borgarinnar undanfarna daga.

AFP

Sýrlenski stjórnarherinn náði yfirráðum yfir hverfum í norðurhluta Austur-Aleppo í gær og er langt kominn með að ná yfirráðum yfir allri borginni.

Þúsundir örvæntingarfullra íbúa hafa flúið að heiman, einhverjir hafa farið í hverfi sem eru undir yfirráðum stjórnarhersins eða Kúrda. Aðrir hafa reynt að halda til suðurs þar sem einhver hverfi eru enn undir yfirráðum stjórnarandstæðinga.

AFP

„Ástandið er hörmulegt,“ segir Ibrahim Abu Al-Leith, talsmaður Hvítu hjálmanna (White Helmets), björgunarteymisins í Ansari-hverfinu. Hann segir að margir séu að reyna að forða sér en margir séu í ræsinu. Fólk sofi úti á götum og hafi ekkert að borða eða drekka. Ekkert frekar en liðsmenn Hvítu hjálmanna. Austur-Aleppo hefur verið undir yfirráðum stjórnarandstæðinga síðan 2012. Allt frá því að Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi til stuðnings forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, í september í fyrra, hefur stjórnarherinn náð meiri völdum. Mannfallið hefur verið skelfilegt og síðustu tvær vikur hafa hundruð borgara verið drepin í Aleppo.

AFP

Félagar í White Helmets vöruðu við því í gær að þeir ættu ekki lengur eldsneyti á björgunarbíla sína og sjúkrabíla. Hópurinn hvetur öll mannúðarsamtök og lækna til þess að stöðva skelfinguna sem blasi við íbúum Aleppo. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert