Lætur Trump ekki beita sig þrýstingi

Christopher A. Wray.
Christopher A. Wray. AFP

Christopher A. Wray, sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilnefndi til að taka við starfi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sagðist ekki munu láta undan þrýstingi frá Hvíta húsinu. Hann lagði áherslu á þetta fyrir þingnefnd öldungadeildar bandaríska þingsins í dag. BBC greinir frá. 

Þingnefndin þarf að samþykkja tilnefningu hans í embætti forstjóra FBI. Eftir að Trump rak James Comey tilnefndi hann Wray í embættið.  

Wray sagðist ósammála Trump um rannsókn á aðild Rússa í forsetakosningunum síðasta haust en forsetinn hefur kallað rannsóknina nornaveiðar. Hann segir þó engan úr Hvíta húsinu hafa óskað eftir hollustu hans við forsetann og sjálfur myndi hann segja af sér sem forstjóri alríkislögreglunnar en að láta undan þrýstingi.

„Ég mun aldrei leyfa stofnuninni að starfa með neinum öðrum hætti en eftir lögum og reglu í leitinni að réttvísinni,“ sagði Wray jafnframt.  

Talið er að staðfesting á ráðningu hans í embætti forstjóra alríkislögreglunnar muni tryggja stöðugleika og frið innan stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert