Þjálfa konur í Tansaníu í viðskiptum

Anna Elísabet og Resty.
Anna Elísabet og Resty. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óhætt er að segja að Tansanía hafi hreppt hjarta Önnu Elísabetar, aðstoðarrektors Háskólans á Bifröst, eftir fyrstu heimsókn hennar þangað fyrir um tíu árum. Síðan þá hefur fjölskylda hennar aðstoðað íbúa í litlu þorpi í norðurhluta Tansaníu við að auka lífsgæði þeirra með einum eða öðrum hætti. Næsta verkefni er námskeið sem hefur það að markmiði að styrkja konur og kenna þeim að úthugsa viðskiptatækifæri í nærumhverfi sínu. 

Árið 2005 heimsótti Anna Elísabet Ólafsdóttir, aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst, Tansaníu í Afríku með fjölskyldu sinni. Leið þeirra lá á tind Kilimanjaro. Hins vegar kom á daginn að yngsti sonurinn var of ungur til að ganga fjallið svo eiginmaður Önnu, Viðar Viðarsson, og tveir elstu synir þeirra fóru á toppinn. Anna og yngsti sonurinn ákváðu að heimsækja eyjuna Zanzibar í austurhluta Tansaníu á meðan. „Ég varð yfir mig ástfangin af Tansaníu og mér fannst afskaplega erfitt að kveðja íbúa aðeins með þökkum fyrir að sýna mér landið sitt og dýrin og vona að þau myndu komast sem fyrst út úr fátæktinni,“ segir Anna. „Ég hugsaði með mér að ég yrði að gera eitthvað til að hjálpa til. Þó að ég bjargi ekki heiminum þá get ég örugglega lagt eitthvað af mörkum.“

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum tæpu tíu árum og hefur Anna og fjölskylda hennar lagt sitt af mörkum til þess að bæta líf íbúanna, meðal annars með því að hjálpa íbúum í litlu þorpi í Norður-Tansaníu, Bashay, að miðla vatni. Íslenskir aðilar, m.a. Creditinfo og margir einstaklingar hafa hjálpað þeim að safna fjármagni sem hefur orðið til þess að búið er að byggja leikskóla í þorpinu. „Svo höfum við verið í landbúnaðarverkefni sem er fjármagnað af áströlsku ríkisstjórninni, svo það er sitt lítið af hverju sem við höfum verið að gera,“ segir Anna. Fjölskyldan stofnaði fyrirtæki í Bashay sem rekur bóndabæ og bændagistingu og í apríl mun Háskólinn á Bifröst, undir forystu Önnu, halda námskeiðið Máttur kvenna í þorpinu í tvær vikur. Markmið námskeiðsins er að þjálfa konur í þorpinu að greina viðskiptatækifæri í nærumhverfi sínu sem gæti skapað þeim atvinnu og þar með tekjur til að framfleyta sér og börnum sínum.

„Ég hef gengið með þessa hugmynd í maganum lengi, að geta aðstoðað konur í Tansaníu við að verða sterkari og sjálfstæðari. Nú er sá draumur að rætast og ég, með stuðningi Háskólans á Bifröst, er þá loksins að koma þessu á koppinn.“

Háskólinn á Bifröst hefur kennt námskeiðið Máttur kvenna í tíu ár og hafa hátt í 800 konur sótt námskeiðið. Að sögn Önnu sýna viðhorfskannanir að námskeiðið hefur skilað þátttakendum árangri. „Konur eru sjálfsöruggari, margar hafa viljað mennta sig meira, einhverjar hafa styrkt sig í starfi og enn aðrar hafa farið af stað með nýjar viðskiptahugmyndir. Við ætlum einmitt að byggja á þessum grunni og markmiðið er að auðga hugmyndaflugið.“ Nú er búið að laga námskeiðið að þörfum kvenna í Tansaníu, sem eru vitanlega aðrar en hér heima.

Anna hefur fengið til liðs við sig unga konu frá þorpinu, Restituta Joseph Surumbu, sem er í heimsókn á landinu um þessar mundir. Hún ætlar að vera undir handleiðslu kennara á Bifröst svo hún geti kynnt og undirbúið námskeiðið og fylgt konunum eftir. Restituta, kölluð Resty, hefur komið til Íslands áður en hún var hér í tíu mánuði í fyrra þar sem hún lagði stund á nám og fékk þjálfun undir verndarvæng Önnu og eiginmanns hennar. Hér lærði hún að nota tölvu og internetið og fór á námskeið í upplýsingatækni, bókhaldi og ensku í Versló. Resty mun hjálpa til við að fylgja konunum eftir í gegnum fjarkennslu þangað til að konurnar eru komnar vel af stað.

„Ég þekki Resty vel og hún er núna að fara í gegnum námsefnið sem við erum búin að útbúa. Hún er með viðskiptahugmynd sem gengur út á hunangsframleiðslu og notar hún hugmyndina til að vinna sig í gegnum efnið. Hún er að lesa sér til um það hvernig á að halda úti býflugnabúi og framleiðslu í tengslum við það. Einnig skoðar hún mögulega kaupendur, hvernig hún ætlar að markaðssetja vöruna og fleira því tengt og við leiðum hana í gegnum spurningar sem hún þarf að svara.“

Lestu meira í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Resty ætlar að vera undir handleiðslu kennara á Bifröst svo …
Resty ætlar að vera undir handleiðslu kennara á Bifröst svo hún geti kynnt og undirbúið námskeiðið og fylgt konunum eftir mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert