„Takk fyrir ad halda framhja mer sæta“

AFP

Ungur karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa birt fimm nektarmyndir af fyrrverandi unnustu sinni á Facebook. Myndunum fylgdi textinn: „Takk fyrir ad halda framhja mer sæta“, ásamt fullu nafni stúlkunnar sem var 17 ára gömul.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Austurlands í síðustu viku og var manninum, sem nú er 19 ára, en var 18 ára þegar hann birti myndirnar, gert að greiða stúlkunni 250 þúsund krónur í miskabætur og að greiða sakarkostnað upp á rúmlega 600 þúsund krónur.

Maðurinn var dæmdur fyrir  brot gegn blygðunarsemi og barnaverndarlögum. Hann á sér engan sakaferil og hefur frá upphafi játað háttsemina og skýrt hreinskilnislega frá atvikum. Horfir það og ungur aldur hans til mildunar við ákvörðun refsingar hans.

Á hinn bóginn var við ákvörðun refsingar litið til ungs aldurs stúlkunnar og alvarleika brotsins með hliðsjón af myndunum sjálfum. Maðurinn  birti myndirnar rafrænt á samskiptasíðu sinni og fullt nafn hennar. Þegar refsingin yfir manninum var ákveðin var meðal annars horft til þess og hversu auðvelt það er að dreifa myndunum áfram en hann hafði innan fárra mínútna fjarlægt myndirnar af samskiptasíðu sinni.

Myndirnar hafði stúlkan sent manninum á meðan þau voru par en um nærmyndir af bakhluta og kynfærum konu var að ræða. 

Fram kemur í dómnum að atvik málsins eru að áliti dómsins sambærileg við þau atvik sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar í öðru hefndarklámsmáli og var sá dómur talinn hafa fordæmisgildi í þessu máli. Óumdeilt sé að birting myndanna fór fram í algjöru heimildarleysi stúlkunnar sem hafði sent manninum þær í trúnaði meðan á kynferðislegu sambandi þeirra stóð.

Ekkert hafi komið sem bendir til annars en að sú háttsemi mannsins að birta umræddar myndir af nöktum bakhluta og kynfærum fyrrum unnustu sinnar hafi verið af kynferðislegum toga. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert