Ferðin hefst í Laugardal

Liðsmenn Inter æfðu á Laugardalsvellinum í gærkvöld.
Liðsmenn Inter æfðu á Laugardalsvellinum í gærkvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilhlökkunin er mikil fyrir leik Stjörnunnar og Inter frá Mílanó á Laugardalsvelli í kvöld. Sjálfum líður mér svolítið eins og það sé stór landsleikur framundan, því miðað við íburðinn, umgjörðina og það að selst hefur upp á leikinn á stuttum tíma þá er margt kannski alveg líkt.

Spenningurinn í Stjörnumönnum leyndi sér heldur ekki á opinni fjölmiðlaæfingu á Laugardalsvellinum í gær. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Garðbæinga, sagði þó frekar tilhlökkun hjá sínum mönnum en að einhver skrekkur væri í þeim.

Stjarnan fer inn í einvígið gegn Inter án þess að hafa tapað einum einasta leik í Evrópukeppni. Fjórir sigrar og tvö jafntefli og markatalan 14:4. Þá er Ólafur Karl Finsen framherji Stjörnunnar í öðru til þriðja sæti yfir markahæstu menn Evrópudeildarinnar á þessari leiktíð með 5 mörk í 6 leikjum.

Spenningurinn hjá Inter er kannski svolítið öðruvísi. Inter lék ekki í neinni Evrópukeppni á síðustu leiktíð en lék í Evrópudeildinni árið á undan þar sem liðið féll úr leik fyrir Tottenham í 16-liða úrslitum.

Í upphitun ítalska dagblaðsins La Gazetta dello Sport um leikinn í kvöld stendur að nú loksins hefjist aftur nýtt Evrópuævintýri Inter. Það hefjist þó ekki á stað eins og Santiago Bernabeu. Nei, Evrópuævintýri Inter hefst á Laugardalsvelli gegn Stjörnunni frá Garðabæ á Íslandi og segir í umfjöllun ítalska dagblaðsins að ráðgert sé að áfangastaður Inter í þessari Evrópuför verði svo vonandi í Varsjá í Póllandi þann 27. maí á næsta ári þar sem úrslitaleikur Evrópudeildarinnar verður leikinn.

Sjá ítarlega umfjöllun um leik Stjörnunnar og Inter í íþróttablaði Moggans í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert