Besta staða Íslands frá upphafi

Kolbeinn Sigþórsson og félagar fóru upp um 12 sæti á …
Kolbeinn Sigþórsson og félagar fóru upp um 12 sæti á styrkleikalista FIFA með sigrinum á Tyrkjum. mbl.is/Golli

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu fór upp um 12 sæti á styrkleikalista FIFA en nýr listi var kynntur í dag. Ísland er í 34. sæti og hefur aldrei í sögunni komist ofar.

Ljóst er að 3:0-sigurinn á Tyrklandi á dögunum ræður miklu um það hve hátt Ísland nær en liðið er jafnt Serbíu í 34. sætinu. Áður hafði Ísland hæst náð 37. sæti, í september 1994.

Ef aðeins er horft til Evrópu fór Ísland upp um sex sæti og er í 21.-22. sæti af 53 þjóðum, einu sæti fyrir ofan Tyrkland. Ísland er komið upp fyrir þjóðir eins og Austurríki, Slóvakíu, Slóveníu og Ungverjaland.

Af þjóðunum sem eru með Íslandi í undanriðli fyrir EM er Holland efst, í 2. sæti af Evrópuþjóðunum. Tékkland er í 17. sæti af Evrópuþjóðunum, Ísland 22. sæti, Tyrkland 23. sæti, Lettland í 42. sæti og Kasakstan í 48. sæti.

Á heimslistanum eru heimsmeistarar Þýskalands efstir og Argentína áfram í 2. sæti. Kólumbía komst upp fyrir Holland í 3. sæti en Hollendingar eru í 4. sæti. Evrópumeistarar Spánar eru komnir niður í 8. sæti og Englendingar eru í 18. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert