Fannst við aldrei eiga séns

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnismanna.
Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnismanna. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ágúst Gylfason og lærisveinar hans í Fjölni fóru í fýluferð til Vestmannaeyja í dag þar sem liðið tapaði 5:0 gegn frískum Eyjamönnum í Borgunarbikarnum í knattspyrnu. Það virtist margt vera að hjá Fjölnismönnum sem fengu á sig haug af færum og sköpuðu varla færi sjálfir.

Ágúst var ómyrkur í máli eftir leik og var alls ekki ánægður með spilamennsku sinna manna þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum. Þá hafði Ágúst setið lengi inni í klefa með sínum mönnum og rætt málin.

„Þetta var skellur fyrir okkur, við erum dottnir út úr þessari keppni og fórum illa að ráði okkar í dag. Stórt tap og mér fannst við aldrei eiga séns í þessum leik.“

Hvers vegna mæta Fjölnismenn svona leikinn og hvað fór úrskeiðis hjá liðinu?

„Þeir skora fljótlega á okkur, við náum ekki að skapa okkur eitt né neitt. Þeir fá fjögur upphlaup í fyrri hálfleik, skora þrjú og hefðu þess vegna geta skorað úr fjórða líka. Staðan var mjög sanngjörn í hálfleik og við náðum aldrei að koma til baka.“

Andleysi virtist vera ríkjandi í liði Fjölnismanna og t.a.m. labbaði Mikkel Maigaard í gegnum vörn þeirra undir lokin þegar Eyjamenn skoruðu fimmta markið.

„Menn voru búnir að kasta inn handklæðinu og eins og ég segi við duttum út úr þessari keppni ekki eins og við ætluðum að gera, því miður.“

Hvað getur Ágúst sagt við sína menn til að gíra þá upp fyrir næsta leik í Pepsi-deildinni?

„Ég er ekki sú týpa sem gargar á menn og geri það þannig. Við ræddum aðeins um hlutina eftir leikinn og menn voru klárlega tilbúnir að leggja mikið á sig fyrir næsta leik. Þetta er allt í hausnum á mönnum að koma sér í gírinn aftur.“

Fjölnismenn reyndu að skipta um kerfi nokkrum sinnum í leiknum en það virtist ekkert ganga á móti þessu ÍBV-liði.

„ÍBV var ekki að spila neinn stórleik, við vorum bara lélegir. Það er ekkert öðruvísi en það, sama hvernig kerfi við spiluðum, við prófuðum ýmislegt í þessu til að gera eitthvað. Það gekk ekki upp og við erum út úr þessu og verðum að sætta okkur við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert