Verst að við gengum ekki á lagið

Logi Ólafsson þjálfari Víkinga.
Logi Ólafsson þjálfari Víkinga. mbl.is/Kristinn

„Við vorum hreinlega ekki nógu góðir í dag og þeir voru bara betri,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkinga, eftir 2:1-tap fyrir ÍBV í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar - Borgunarbikarsins - í Fossvoginum í dag.

„Við náðum aldrei upp þeim leik sem hefur einkennt okkur í síðustu leikjum okkar, sýndum það aldrei í dag. Eftir að við skoruðum fannst mér við eiga að geta gert betur og tekið leikinn í okkar hendur en gerðum það ekki og það er jafnvel verst í þessu máli að við skulum ekki ganga á lagið þegar við erum betri og komnir með forystu. Við létum lokka okkur út úr stöðum og þess háttar, það er það sem aflaga fór.“

Víkingar hafa verið á góðu skriði undanfarið, eftir að Logi tók við þjálfarastöðunni. 

„Við jöfnum okkur á þessu og vinnum okkur úr því.  Það er auðvitað slæmt að fara út úr þessari keppni en við einbeitum okkur bara að deildinni í staðinn. Hið klassíska svar þegar svona fer,“ bætti Logi við.

Hélt að við værum að taka völdin

„Við fylgdum ekki því sem lagt var upp með, það er ekkert flóknara en það,“  sagði Róbert Örn Óskarsson, fyrirliði og markvörður Víkinga. 

„Þetta var ekki alveg nógu gott.  Á tímabili í fyrri hálfleik hélt ég að við værum að taka öll völd í leiknum og myndum sigra örugglega en svo uppsker maður bara eins og maður sáir, við vorum ekki góðir og það er ekkert hægt að fela það. Það er fínn andi í liðinu en alltaf sú hætta þegar gengur vel að menn hugsi aðeins um að þetta komi af sjálfu sér. Ég vil taka fram að ég er mjög stoltur af liðinu þrátt fyrir það og óska ÍBV til hamingju með sigurinn í dag. Það er leikur gegn mjög erfiðu liði á Skaganum og trúi ekki öðru en við komum og þrífum upp eftir okkur.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert