„Ætla ég að vera í rugli eða vera alvöru fótboltamaður?“

Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Albert sýndi það hversu langt hann er kominn á sínum ferli,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu.

Arnar, sem er þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings, gerði meðal annars upp landsleik Íslands og Ísraels í undanúrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM 2024 þar sem Ísland fagnaði stórsigri, 4:1, í Búdapest í gær, ásamt því að spá í spilin fyrir komandi úrslitaleik gegn Úkraínu í Wroclaw í Póllandi á þriðjudaginn.

Allt önnur holning

Albert Guðmundsson fór á kostum í 4:1-sigri íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Ísrael í undanúrslitum umspilsins fyrir EM 2024 í Búdapest á fimmtudaginn og skoraði þrennu í leiknum.

„Það var allt önnur holning á honum og hraðabreytingarnar hans voru frábærar,“ sagði Arnar.

„Ítalinn kann greinilega að æfa og hann var taktísk sterkari en hann hefur verið í gegnum tíðina. Hann var í sinni réttu stöðu líka, ekki úti á kanti þar sem hann hefur aðeins þurft að dúsa með landsliðinu í gegnum tíðina,“ sagði Arnar.

Hefur stigið stórt skref

Albert hefur ekki alltaf náð sér á strik með landsliðinu en hann á að baki 36 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað 9 mörk.

„Hann var hálfgerð barnastjarna og mjög hæfileikaríkur í mörg ár. Á einhverjum tímapunkti hlýtur maður að líta í spegil og spyrja sig: Ætla ég að vera í rugli eða vera alvöru fótboltamaður? 

Að vera alvöru fótboltamaður þýðir ekki bara að þú þurfir að vera góður á boltann og getir tekið skæri. Þú þarft að vera taktískt sterkur, varnarlega, og mér finnst hann hafa stigið mjög stórt skref á sínum ferli eftir að hann fór til Ítalíu,“ sagði Arnar meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert