Fjórði póllinn í röð

Lewis Hamilton á leið til ráspólsins í Barein.
Lewis Hamilton á leið til ráspólsins í Barein. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól kappakstursins sem fram fer í Barein á morgun. Er það fjórði póll hans í röð á árinu. Annar varð Sebastian Vettel hjá Ferrari og þriðji Nico Rosberg hjá Mercedes.

Miklar sviptingar voru í lokalotu tímatökunnar en að fyrri tímatilrauninni var Daniel Ricciardo hjá Red Bull í öðru sæti en Hamilton efstur.  Með ný dekk undir í seinni tilrauninni bættu margir tíma sinn og Vettel skaust þá úr sjötta sæti í annað. Liðsfélagi hans Kimi Räikkönen hafnaði í fjórða sæti. 

Williamsbílarnir urðu í næstu sætum og hefja keppni á þriðju rásröð, Valtteri Bottas af fimmta rásstað og Felipe Massa af þeim sjötta. Ricciardo seig niður á við í seinni atlögunni og hefur keppni sjöundi. 

Áttundi varð Nico Hülkenberg á Force India, níundi Carlos Sainz á Toro Rosso og Romain Grosjean á Lotus varð tíundi.

Fernando Alonso kom McLarenbíl í fyrsta sinn í aðra umferð á árinu og gerði aðeins eina atlögu að tíma og varð fjórtándi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert