Buffon kvaddi og hugsaði til ítölsku þjóðarinnar

Gianluigi Buffon, einn besti markvörður síðari tíma í knattspyrnunni, lék sinn síðasta landsleik fyrir Ítalíu í kvöld þegar þjóðinni mistókst að tryggja sér sæti á HM í Rússlandi eftir tap fyrir Svíum í einvígi í umspili.

„Ég er mjög svekktur, ekki svo mikið fyrir mig heldur fyrir ítölsku þjóðina. En framtíðin er björt fyrir ítalska knattspyrnu. Við erum stoltir, höfum hæfileika og metnað sem þarf og erum vanir að koma sterkir til baka eftir vonbrigði,“ sagði Buffon eftir leik. Hann staðfesti jafnframt brotthvarf sitt úr landsliðinu, sem hann hefði viljað gera á HM.

„Ég skil við hæfileikaríkt lið og ég vil þakka strákunum fyrir. Við gáfum allt okkar en það var ekki nóg í þessu einvígi. Í fótboltanum þá vinnurðu sem lið og þú tapar sem lið. Við deilum gleðinni og sorginni. Það á líka við um þjálfarann, enda einnig hluti af liðinu,“ sagði Buffon og beindi orðum sínum að landsliðsþjálfaranum Giampiero Ventura sem mun þurfa að þola mikla gagnrýni eftir þetta.

Buffon, sem er 39 ára gamall, spilaði 175 landsleiki fyrir Ítalíu á 20 ára tímabili.

Gianluigi Buffon í leiknum í kvöld.
Gianluigi Buffon í leiknum í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert