Sex marka veisla á Spáni

Lucas Paquetá fagnar dramatísku jöfnunarmarki sínu í gærkvöldi.
Lucas Paquetá fagnar dramatísku jöfnunarmarki sínu í gærkvöldi. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Spánn og Brasilía skildu jöfn, 3:3, í stórskemmtilegum vináttulandsleik í knattspyrnu karla á Santiago Bernabéu-leikvanginum í Madríd í gærkvöldi.

Spánverjar komust tveimur mörkum yfir með mörkum frá Rodri, miðjumanni Manchester City, úr vítaspyrnu og Dani Olmo, kantmanni RB Leipzig.

Áður en flautað var til leikhlés minnkaði Rodrygo muninn fyrir Brasilíu á heimavelli sínum, en hann er sóknarmaður Real Madríd.

Staðan var því 2:1 í hálfleik.

Skoraði á tilvonandi heimavelli

Hinn 17 ára gamli Endrick, sem gengur til liðs við Real Madríd frá Palmeiras í sumar, jafnaði svo metin fyrir Brasilíu í upphafi síðari hálfleiks.

Var þetta annað landsliðsmark hans í fjórða A-landsleiknum.

Rodri kom Spánverjum í forystu að nýju með öðru marki sínu úr vítaspyrnu þremur mínútum fyrir leikslok.

Lucas Paquetá, sóknartengiliður West Ham United, átti hins vegar síðasta orðið á sjöundu mínútu uppbótartíma er hann jafnaði metin fyrir Brasilíu í 3:3 með marki úr vítaspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert