Fermingarhrossin á heimsmeistaramóti

Það verður sárt að kveðja.
Það verður sárt að kveðja.

Heimsmeistaramót íslenska hestsins hefst næstkomandi þriðjudag, en að þessu sinni fer það fram í Oirschot í Hollandi og stendur yfir til sunnudagsins 13. ágúst.

Íslenska landsliðið er mætt til Hollands ásamt hestunum sem voru sendir út síðastliðinn mánudag. Liðið er ekki af verri endanum í ár og á það ekki síður við um ungmennaliðið sem samanstendur af fimm þaulreyndum knöpum og hestum þeirra.

Meðal þeirra eru Benedikt Ólafsson, sem fór út með merina Leiru-Björk frá Naustum III, og Sigríður Ingibjörg Einarsdóttir, sem er með merina Ylfu frá Miðengi. Bæði eru þau að keppa í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu og einnig í fyrsta skipti á móti erlendis. Þó hafa þau keppt á ótal mótum hér á landi.

Benedikt hefur verið Íslandsmeistari undanfarin þrjú ár í gæðingaskeiði og staðið sig með prýði í 100 metra skeiði og fimmgangi. Sigríður vann 100 metra skeiðið í ár og einnig árið 2021. „Við erum bara mjög bjartsýn fyrir mótið, það þýðir ekkert annað og stefnan er auðvitað að taka liðabikarinn.“

Verðmætari en við kaupin

Þau Benedikt og Sigríður hafa átt merarnar sínar í þó nokkur ár en þau ákváðu bæði að nota fermingarpeninga sína í hrossakaupin.

„Ég keypti merina mína árið 2017 fyrir fermingarpeninginn sem ég fékk árið áður. Síðan þá hefur þetta verið mjög skemmtileg þróun því ég keypti hana ekki alveg með það í huga að hún yrði skeiðmeri en svo var hún bara svo efnileg,“ segir Benedikt og bætir við að Leiru-Björk hafi eflaust síðan þá margfaldast í verði.

Sigríður keypti merina Ylfu árið 2016, sumarið eftir fermingu. „Þá var hún sex vetra og ég ætlaði bara að kaupa hana fyrir hringvallagreinar en svo gekk það ekki alveg upp. Ég prófaði þá að láta hana skeiða, sem gekk mjög vel og hingað erum við komnar í dag á heimsmeistaramót!“

Skilja merarnar eftir

Keppendur á HM í Hollandi þurfa að skilja öll hrossin eftir erlendis af sóttvarnaástæðum. Benedikt segir það geta skekkt samkeppnisstöðu íslensku keppendanna að vera alltaf á nýjum hestum. „Þetta er líka bara átakanlegt, þótt maður sé ekki alveg byrjaður að meðtaka það núna, þar sem við erum bara svo ánægð með að vera mætt hérna á mótið. Ég hugsa samt að sunnudagurinn verði helvíti erfiður, að segja bless við þau.“

Þau hafa bæði þegar útvegað sér hesta sem taka við stöðu Leiru-Bjarkar og Ylfu. Leiru-Björk verður seld til Sviss en óvíst er hvert merin hennar Sigríðar verður seld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert