Lítil von að fleiri finnist á lífi

Enn er mörg hundruð manna saknað eftir að ferja sökk við strendur Suður-Kóreu. Lítil sem engin von er nú talin á því að fleiri finnist á lífi. Skipstjórinn segist „skammast sín mikið“.

Slæmt veður er á því svæði þar sem ferjan sökk og hefur það tafið björgunaraðgerðir. Staðfest er að fjórtán eru látnir en 282 er enn saknað. Slysið er það versta á sjó í Suður-Kóreu í tvo áratugi.

Flestir farþegarnir voru framhaldsskólanemar sem voru á leið í páskafrí. Meðal hinna látnu eru kennslukona, kona úr áhöfn skipsins og þrír menntaskóladrengir. 

Búið er að bjarga 179 manns, m.a. sex ára stúlku. Foreldra hennar er enn saknað.

„Von til þess að finna einhverja á lífi núna er nánast engin,“ hefur AFP-fréttastofan eftir strandgæslumanni á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert