Beið ósigur í breska þinginu

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Ríkisstjórn Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, laut í lægra haldi í atkvæðagreiðslu í breska þinginu á mánudaginn þegar greidd voru atkvæði um þær reglur sem gilda eiga um fyrirhugað þjóðaratkvæði í landinu um veruna í Evrópusambandinu.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að ríkisstjórnin hafi viljað ná fram undanþágum frá þeirri almennu reglu að ráðherrum og öðrum opinverum aðilum sé óheimilt að beita sér í kosningabaráttunni í aðdraganda þjóðaratkvæðis. Komið var í veg fyrir að þær breytingar næðu fram að ganga með 312 atkvæðum þingmanna Verkamannaflokksins, Skoska þjóðarflokksins og nokkurra tuga þingmanna Íhaldsflokks Camerons sem vilja úr ESB gegn 285.

Cameron samþykkti hins vegar breytingatillögu umræddra þingmanna Íhaldsflokksins þess efnis að ríkisstjórnin gæti ekki stytt þann tíma sem kosningabaráttan stæði. Þá hafði hann áður samþykkt að spurt yrði hlutlausari spurningar í þjóðaratkvæðinu en áður stóð til. Frumvarp um að þjóðaratkvæði fari fram um veruna í ESB var hins vegar samþykkt með 316 atkvæðum gegn 53 og fer í framhaldinu til lávarðadeildar breska þingsins til frekari umfjöllunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert