Hvaða tromp hefur Trump?

Stuðningsmenn Trump fylgja honum í einu og öllu og honum …
Stuðningsmenn Trump fylgja honum í einu og öllu og honum er ávallt vel tekið á kosningafundum sínum. AFP

Allt lítur út fyrir að Donald Trump verði frambjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum sem fram fara í Bandaríkjunum í nóvember seinna á þessu ári. Þegar úrslit forkosninga voru ljós í Indiana á þriðjudagskvöld dró Ted Cruz, eini hugsanlegi keppinautur Traump, framboð sitt til baka. 

Fyrir nokkrum mánuðum hafði enginn, hvorki fjölmiðlar né almenningur, trú á því að framboð Trump væri tilkomið af alvöru. Hvernig í ósköpunum tókst Trump þá að ganga gegn öllum spám?

Byrjaði sem brandari

Frambjóðandi líkt og Trump hefur aldrei tekið þátt í forvali forsetakosninganna. Hann kom inn í baráttuna sem hálfgerður brandari og stjórnaði kosningabaráttu sinni með þeim hætti sem flestir álitu sem algjört grín. Samt sem áður hefur honum tekist að vinna yfirgnæfandi sigra í fjölda ríkja og brjóta þannig niður hvern andstæðinginn á fætur öðrum. 

22 sóttust eftir útnefningu Repúblikanaflokksins í upphafi og óhætt er að fullyrða að það hefur verið magnað að fylgjast með Trump sópa þeim í burtu, einum í einu. Eftir að öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz og John Kasich, ríkisstjóri Ohio, drógu framboð sín til baka stendur Trump nú einn eftir, þvert á spádóma allra stjórnmálaskýrenda.

Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur, er einn þeirra skýrenda. „Ef maður skoðaði fram­boðið hans í upp­hafi og þær mæl­ing­ar sem voru þá að koma fram þá var þetta alls ekki lík­legt. Í kring­um ára­mót­in láku gögn af fundi sem hann hélt fyr­ir ári og lýsti því hvernig hann ætlaði að taka þessa bar­áttu. Það hef­ur staðið,“ sagði Silja Bára í samtali við mbl.is fyrr í vikunni.

Sjá frétt mbl.is: Línurnar farnar að skýrast

Ted Cruz, sem lengst af var líklegasti keppinautur Trump, hefur …
Ted Cruz, sem lengst af var líklegasti keppinautur Trump, hefur dregið framboð sitt til baka. AFP

 

Elskar þá sem eru minna menntaðir

Samkvæmt greiningu Katty Kay, fréttmanni BBC, tókst Trump að nýta sér það sem kjósendur hefðu löngu átt að sjá, en mistókst. Árum saman hefur verkalýðsstéttin í Bandaríkjunum þjáðst af atvinnuskorti og stöðnuðum launum. Hún hefur fylgst með hnattvæðingarferlinu, innflytjendamálum og frjálsi verslun, en upplifir sig ekki sem hluta af ferlinu.

Bandaríska efnahagskerfið upplifði uppgangstíma, en líf verkalýðsstéttarinnar naut ekki góðs af því tímabili, hún fékk lélegan samning í þeim efnum. Þar að auki virðist sem svo að Bandaríkin hafi hrasað á alþjóðasviðinu og þegar forseti sem er við völd sem er að eðlisfari mótfallinn þjóðernisrembingi er Trump færður kjósendum á silfurfati.

Úr þakíbúð sinni í New York virðist hann hafa nægt útsýni til að skilja áhyggjur minna menntaðra Bandaríkjamanna, sér í lagi minna menntaðra karlmanna. Trump sagðist meira að segja elska þá minna menntuðu í einni af framboðsræðum sínum. Hann nýtti sér ótta þeirra um að landið væri að fyllast af íbúum sem hafa spænsku að móðurmáli, en ekki ensku. Þegar hann gaf í skyn að frá landamærum Mexíkó streymdu nauðgarar ýtti hann enn frekar undir þann ótta hjá kjósendum. Þegar hann lagði til bann gegn öllum múslimum í Bandaríkjunum skvetti hann bensíni á eldinn sem ýtir undir islamfóbíu og hefur logað frá 11. september 2001.

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með baráttu Trump með það í huga að maðurinn hefur aldrei tekið þátt í stjórnmálum áður. Fylgjendur hans eru svo hliðhollir honum að þeir trúa ekki að hann geti stigið feilspor. Þegar Trump fullyrti að fyrrum forsetaframbjóðandinn og öldungadeildarþingmaðurinn John McCain, sem barðist fyrir Bandaríkin í Víetnam, væri ekki stríðshetja, jókst fylgi Trump til muna. Þegar hann gaf í skyn að kvenkyns fréttamaður hefði borið upp harðskeytta spurningu vegna þess að hún væri á blæðingum jókst fylgi hans aftur. Þrátt fyrir að Trump hafi kallað helsta mótframbjóðanda sinn „Lyga-Tedda“ þá hafði það jákvæð áhrif á fylgi Trump.

Trump fagnar sigri í New York.
Trump fagnar sigri í New York. AFP


Nýtur ekki stuðnings flokksmanna sinna

Aldrei áður hefur forsetaframbjóðandi repúblikana notið jafn lítillar hylli meðal flokksmanna sinna og Trump. Hægt er að finna langan lista yfir hátt setta flokksmenn, fyrrverandi og núverandi, sem neita að styðja Trump. Þar á meðal er fyrrverandi forsetaframbjóðandinn Mitt Romney. Hluti þeirra hefur sagt opinberlega að frekar muni þeir kjósa Hillary Clinton en Trump.

Þess vegna gleðjast skipuleggjendur forsetaframboðs Clinton yfir sigri Trump í forkosningunum. Þrátt fyrir sigur hans eru óánægjuraddirnar háværar innan flokksins og það hyggjast skipuleggjendur framboðs Clinton ætla að nýta sér.

Þar að auki benda lýðfræðilegar staðreyndir til þess að demókrati muni alltaf falla frekar í kramið hjá kjósendum en repúblikönum, það eru einfaldlega fleiri demókratar en repúblikanar í Bandaríkjunum.

Árið 2016 er virkilega forvitnilegt kosningaár, hin pólitíska regluhandbók hefur verið rifin í tætlur og ljóst er að Trump hatar jafnvel meira að tapa en hann elskar að vinna. Framboðsmaskína Clinton má því ekki fyllast of mikils sjálfstrausts of snemma. Ef það er hægt að draga einhvern lærdóm af þessari klikkuðu kosningabaráttu, þá er það að ekki er hægt að treysta spánum.

Skoðanakannanir sýna Hillary Clinton myndi hafa betur gegn Donald Trump …
Skoðanakannanir sýna Hillary Clinton myndi hafa betur gegn Donald Trump í forsetakjörinu í nóvember. Kosningabaráttan hefur hins vegar sýnt að ekki er hægt að taka öllum spám sem gefnum. AFP

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert