67-75% sjúkrarýma lokuð á HSU

Sjúkrahús HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum.
Sjúkrahús HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum.

„Það hefur í rauninni gengið ljómandi vel í dag. Ég hef ekki fengið fréttir af því að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Það hefur allt gengið mjög greiðlega við undirbúning verkfallsins, við fengum allar okkar undanþágubeiðnir samþykktar í gærkvöldi fyrir hjúkrunarfræðinga á göngudeild,  fyrir krabbameinssjúklinga í Vestmannaeyjum og blóðskilunarsjúklinga á Selfossi. Það gekk mjög vel að að kalla þá til vinnu sem fengu undanþágu því við fengum svör í gærkvöldi frá nefndinni og urðum því ekki fyrir töfum með nauðsynlega þjónustu fyrir sjúklinga nú í morgun.“

Þetta segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU, aðspurð um hvernig starfsemi stofnunarinnar gangi eftir að verkfall hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti.

Að sögn Herdísar fengu mannauðsstjóri stofnunarinnar og rekstrarstjóri í Vestmannaeyjum jafnframt varanlegar undanþágur. Þeir starfsmenn eru á samningi hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og í lykilstjórnunarteymi stofnunarinnar.

Hafa ekki enn þurft að vísa frá

Herdís segir að ekki hafi enn þurft að vísa sjúklingum frá stofnuninni. „En við undirbjuggum okkur vel um helgina og útskrifuðum alla þá sem höfðu lokið meðferð. Við útskrifuðum engan úr virkri meðferð, þar sem úrræði eru ekki mörg og íbúar háðir þjónustu á starfstöðvum stofnunarinnar í sínu byggðalagi“

Hún segir að þeir sem hafi verið útskrifaðir séu ýmist orðnir nógu hraustir til þess að vera einir eða í umönnun hjá ættingjum.

Gengið til verka eins og sérhvern dag

„En hér heldur fólk ró sinni yfir ástandinu. Hér er gengið til verka eins og sérhvern dag. Við reynum að vinna þetta eins faglega og við getum reyndum að fyrirbyggja allt með góðumeins fyrirvara sem við getum. Svo bregðumst  við við því ástandi sem kemur upp eins og við gerum alla aðra daga,“ segir Herdís.

Um það bil sex hjúkrunarfræðingar á sjúkradeildum og bráðdeildum á Selfossi og í Vestmannaeyjum mættu ekki til vinnu í morgun vegna verkfallsins. Nú eru um 67-75% sjúkrarýma lokuð á þessum tveimur stöðum eða um 15 lokuð rúm á Selfossi og 10 lokuð rúm í Vestmannaeyjum. „Jafnframt eru um 13 hjúkrunarfræðingar sem vantar til starfa á heilsugæslustöðvum á 10 starfstöðvum á Suðurlandi. Það hefur verið fremur rólegt á heilsugæslustöðvunum í dag en þolum það ekki í marga daga í viðbót,“ segir Herdís. 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert