Fjölgun flugumferðarstjóra gengur illa

Á stjórnborði flugumferðarstjóra í flugturninum í Reykjavík.
Á stjórnborði flugumferðarstjóra í flugturninum í Reykjavík. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir að það muni taka langan tíma fyrir flugumferðastjóra að bregðast að fullu við fjölgun ferðamanna hérlendis.

„Næsta sumar verður strembið en ég hef engar stórar áhyggjur. Ef til þarf munum við takmarka umferðina að einhverju leyti og stjórna henni þannig að ekki skapist hætta,“ segir Sigurjón, aðspurður.

Hagfræðideild Landsbankans spáði í síðasta mánuði 25% fjölgun ferðamanna á þessu ári, 10% árið 2018 og 8% árið 2019. Ef spáin gengur eftir munu 2,5 milljónir erlendra ferðamanna sækja landið heim árið 2019.

Frétt mbl.is: Hagvöxtur ferðamönnum að þakka

Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.
Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Ljósmynd/Aðalsteinn Leifsson

Fjórðungur á eftirlaun á næstu 10 árum 

Sigurjón reiknar með því að töluverð yfirvinna verði hjá starfsfólki næsta sumar með tilheyrandi álagi.

Verið er að reyna að fjölga flugumferðarstjórum. Um 20 manns eru í námi í flugumferðarstjórn um þessar mundir en það er sami fjöldi og Sigurjón telur að félagið þurfi á að halda strax í dag ef vel ætti að vera. Hann býst við því að ekki mikið fleiri en þrír muni útskrifast fyrir sumarið.

„Við erum svolítið að elta skottið á okkur í þessu. Umferð er að aukast og einhverjir flugumferðarstjórar eru að komast á eftirlaun,“ segir hann og tekur fram að hátt í fjórðungur af stéttinni muni hætta sökum aldurs á næstu 10 árum.

Mögulegt er þó að hámark verði hækkað á eftirlaunaaldri flugumferðarstjóra, þannig að þeir þurfi ekki að hætta þegar þeir verða sextugir. 

Mannekla er í stétt flugumferðarstjóra.
Mannekla er í stétt flugumferðarstjóra. mbl.is/Rax

Brugðust of seint við

„Það er mannekla í stéttinni. Menn sáu ekki fyrir þessa fjölgun ferðamanna og brugðust við of seint og kannski ekki með réttum hætti,“ segir hann.

Sigurjón nefnir að þegar grunnnám flugumferðarstjóra var fært í flugskólann á sínum tíma hafi brottfallið verið meira en menn reiknuðu með. Isavia tók námið þá aftur í sínar hendur og kennir námið núna sjálft.

Flugumferðarstjórar að störfum í flugturninum í Reykjavík.
Flugumferðarstjórar að störfum í flugturninum í Reykjavík. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Gerist 30 til 50 sinnum á ári

Spurður út í atvikið sem varð á Keflavíkurflugvelli fyrr í vikunni þegar litlu munaði að tvær flugvélar Icelandair væru á flugbrautinni á sama tíma segir hann að atvik sem þessi gerist í um 30 til 50 skipti á ári og að flugumferðarstjóri hafi brugðist hárrétt við. Engin hætta hafi verið á ferðinni.

Frétt mbl.is: Hætti við lendingu vegna annarrar vélar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert