Eiga ekki afturkvæmt til landsins

Þessi hestur og fleiri eru nú á leið til Hollands …
Þessi hestur og fleiri eru nú á leið til Hollands þar sem heimsmeistaramótið verður haldið. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir geta ekki komið aftur heim og þetta eru svolítið blendnar tilfinningar í dag, þegar fólk er að fara út með hestana sína og horfa á eftir þeim. Ofboðslega stór áfangi að koma hesti inn á heimsmeistaramót en síðan að móti loknu fer hann í hendurnar á öðrum eigendum.“

Þetta segir Jónína Sif Eyþórsdóttir, upplýsingafulltrúi Landssambands hestamannafélaga. Hestar keppenda á mótinu fóru í síðustu dýralæknisskoðun sína í gær fyrir Heimsmeistaramót íslenska hestsins sem fer fram í Hollandi áttunda til þrettánda ágúst.

Að lokinni læknisskoðun héldu hestarnir til Hollands um borð í fraktvél Icelandair ásamt nokkrum knöpum. Jónína segir það mikilvægt að hestar fari í dýralæknisskoðun áður en þeir keppa á mótinu til að athuga hvort þeir séu nægilega hraustir.

Mikilvægt að hestarnir séu öruggir

„Þeir þurfa að vera í toppstandi. Við förum ekki með hesta á mót sem er tvísýnt með heilsufarið á. Hluti af þessu er líka að tryggja að það séu réttir hestar að fara út. Það er lesið á örmerki og borið saman við vegabréfið þeirra,“ segir hún og bætir við að Matvælastofnun gefi út vegabréf fyrir hestana þar sem uppruni, ætterni og eigendasaga hestsins er skráð.

Hún ítrekar jafnframt mikilvægi þess að hestarnir séu öruggir þegar út er komið og segir mikið púður lagt í að viðhalda öllum sóttvörnum. Í Hollandi fara hestarnir í hálfgerða einangrun á meðan á mótinu stendur.

Að móti loknu eiga hestarnir ekki afturkvæmt til landsins og eru eigendur hestanna búnir að selja þá áður en þeir fara úr landi.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert