Mike Pence notaði einkapóst í opinberu starfi

Mike Pence.
Mike Pence. AFP

Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, notaði einkapóstfang sitt í opinberu starfi sem ríkisstjóri Indiana, að því er segir í fréttum bandarískra fjölmiðla en það var dagblaðið Indianapolis Star sem greindi fyrst frá málinu. Blaðið hefur undir höndum afrit af póstum sem sýna að Pence sendi pósta í nafni embættisins úr einkapósthólfi sínu. Samkvæmt frétt blaðsins stálu tölvuþrjótar upplýsingum úr pósthólfi ríkisstjórans síðasta sumar. Meðal þess sem fram kemur í póstunum sem hann sendi úr einkapósthólfi sínu eru viðkvæm mál og mál sem snerta öryggismál ríkisins.

 Star, sem fékk afrit af póstunum á grundvelli upplýsingaskyldu, segir að skrifstofa varaforsetans hafi staðfest að Mike Pence hafi bæði notað opinbert netfang sitt sem og einkanetfang í opinberum erindagjörðum. Þetta sé allt í samræmi við lög Indiana varðandi notkun á tölvupósti og vörslu gagna. Allir tölvupóstar Pence sem skrifaðir eru í nafni ríkisstjóra séu varðveittir á skjalasafni Indianaríkis og allir geti nálgast þá þar.

Í kosningabaráttu Donald Trump í fyrra gagnrýndi Pence andstæðing Trumps, Hillary Clinton fyrir að hafa notað einkapóst sinn fyrir opinber samskipti þegar hún gegndi embætti utanríkisráðherra. 

Blaðamaður Star, Tony Cook, sem vann fréttina segir í samtali við CNN að talsmaður Pence hafi gert lítið úr samanburðinum við Clinton og notkun hennar á einkapósti.

Ekkert í lögum Indiana banni opinberum embættismönnum að nota persónuleg pósthólf sín en yfirleitt er þess krafist að þeim sé haldið til haga vegna upplýsingaskyldu við almenning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert