Játaði að hafa ekið á konuna

Hæstiréttur hefur staðfest áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni sem ók tvívegis á fyrrverandi sambýliskonu sína 6. september síðastliðinn. Maðurinn kannast við að hafa ekið einu sinni á konuna en getur ekki skýrt út hvers vegna.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan vinni nú að rannsókn alvarlegrar líkamsárásar sem tilkynnt hafi verið um klukkan 7.30 þann 6. september.

Þegar lögregla kom á vettvang hitti hún fyrir konuna og dóttur hennar. Konan hafi verið meidd á fæti og hrufluð á hendi. Hún hafi skýrt frá því að maðurinn, fyrrverandi sambýlismaður hennar, hefði kastað skiptilykli í gegnum rúðu á svefnherbergi hennar og í kjölfarið hefði hún farið út. Hafi þá maðurinn ekið á hana á bifreið sinni. Hafi hann svo aftur reynt að aka á hana eftir að hún hafði náð að koma sér undan. Hann hafi því næst ekið burt á miklum hraða.

Við fyrstu skýrslutöku yfir manninum viðurkenndi hann að hafa kastað skiptilyklinum í gegnum rúðuna en neitaði alfarið að hafa ekið á konuna. Eitthvað hefur það breyst því í síðari skýrslutökum hefur maðurinn kannast við að hafa ekið í eitt skipti á konuna en hann gæti ekki skýrt hvers vegna hann gerði það.

Maðurinn verður í gæsluvarðhaldi til 10. október næstkomandi.

Frétt mbl.is: Neitar að hafa ekið á konuna

Frétt mbl.is: Ökumaður í annarlegu ástandi olli slysi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert