Ákært vegna pókerklúbbs í Skeifunni

Spilavíti. Ekki þó pókerklúbburinn P&P, eða Poker and play.
Spilavíti. Ekki þó pókerklúbburinn P&P, eða Poker and play. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur tveimur karlmönnum og konu vegna reksturs pókerklúbbs í Skeifunni. Málið tengist umfangsmiklum lögregluaðgerðum og húsleit sem gerð var í pókerklúbbnum í desember 2012. Það verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í þessari viku.

Poker and play hét pókerklúbburinn í Skeifunni sem lögregla lokaði eftir umfangsmiklar aðgerðir og voru forsvarsmenn klúbbsins einnig handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Lögregla hafði áður fengið staðfestar upplýsingar um að staðurinn hefði verið opinn flesta daga vikunnar og spilað væri frá kvöldi og langt fram undir næsta morgun. Einnig hafði lögreglu upplýsingar um að töluverðar fjárhæðir hefðu verið í umferð á spilaborðinu hverju sinni. Einn sakborninga upplýsti lögreglu um það í skýrslutökum að allt að 500 manns hafi verið meðlimir í Poker and play áhugamannafélagi, sem rak pókerklúbbinn.

Fundu peninga í frystikistu og loftskammbyssu

Við húsleit fannst á botni frystikistu talsvert magn peningaseðla sem vafðir voru saman, alls 526.500 krónur. Í litlum peningaskáp á skrifstofu fundust 25.000 krónur til viðbótar og loftskammbyssa. 

Þá lagði lögregla hald á tölvur og tölvubúnað, þar á meðal tölvu sem tók upp efni úr eftirlitsmyndavélum sem voru á staðnum, sem og bókhaldsgögn og posa. Lagt var hald á fimm spilaborð ásamt miklu magni af spilastokkum og spilapeningum.

Einnig fannst mjög mikið magn af áfengi í eldhúsi Poker and play eða 48 flöskur af sterku áfengi, 11 flöskur af ætluðu heimabruggi, 294 flöskur og dósir af bjór, 10 flöskur af líkjör, 3 kassar af léttvínskössum og 35 dósir með erlendu fínkorna munntóbaki.

Varðar allt að 6 ára fangelsisrefsingu

Málið var rannsakað af lögreglu með hliðsjón af 181. gr., 183. gr.,184. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þar sem ríkissaksóknara hefur ekki borist staðfesting á að öllum sakborningum hafi verið birt ákæran fæst hins vegar ekki uppgefið fyrir hvaða háttsemi er nákvæmlega ákært né hvaða upptökukröfur saksóknari gerir.

Þegar gæsluvarðhaldskrafa var sett fram í desember 2012 sagði lögregla að rökstuddur grunur væri um að ábyrgðaraðilar staðarins hefðu aflað sér ávinnings með ólögmætum hætti og tækju sér fé út úr rekstrinum. Jafnframt taldi lögregla rökstudda ástæðu til að ætla að á staðnum og í starfseminni hefði farið fram sala áfengis og annarra veitinga.

Til stuðnings kröfunni sagði lögregla að kominn væri fram rökstuddur grunur um að fólkið hefði framið verknað sem varði allt að 6 ára fangelsisrefsingu.

Sambærilegt mál árið 2004

Hæstiréttur dæmdi í sambærilegu máli í desember 2004 en þá hlaut karlmaður sem ákærður var fyrir að hafa staðið fyrir rekstri fjárhættuspils og veðmálastarfsemi í húsnæði sem hann hafði á leigu fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og 500 þúsund króna sekt.

Í ákæru kom fram að maðurinn hefði á tímabilinu frá desember 2001 til 28. september 2002 rekið fjárhættuspil („black Jack”, rúllettur og póker) í atvinnuskyni og sér til ávinnings. Auk þess að vera dæmdur til sektargreiðslu og í skilorðsbundið fangelsi voru gerð upptæk til ríkissjóðs fimm spilaborð, spilapeningar, spilastokkar og rúmlega fimm milljónir króna.

Fréttir mbl.is af spilavítinu:

Spila­víti lokað og 8 hand­tekn­ir

Fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald

Vissu ekki um ólöglega starfsemi

Spilavítisfólkið laust úr haldi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert