Allir Íslendingar í úrslit: „Algjörlega óæft“

Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki frá Oddhóli stóðu sig með prýði.
Sara Sigurbjörnsdóttir og Flóki frá Oddhóli stóðu sig með prýði. Ljósmynd/Jón Björnsson

Allir keppendur íslenska landsliðsins náðu í úrslit eftir forkeppni í fimmgangi sem fór fram í dag á heimsleikum íslenska hestsins í Hollandi. 

Sara og Flóki voru fyrst inn á völlinn og settu tóninn með glæsilegri sýningu upp á 7,37 og enduðu í 3. sæti og eru í 2. sæti inn í A-úrslit fullorðinna. Strax á eftir Söru í rásröðinni voru svo þær Glódís og Salka. Þær áttu frábæra sýningu og náðu sínum besta árangri hingað til og leiða keppnina í U21 með 7,4 og eru með aðra hæstu einkunn dagsins af öllum keppendum í fimmgangi.

Þriðja íslenska parið í braut í fimmgangi voru engin önnur en nýkrýndir heimsmeistarar ungmenna í gæðingaskeiði, Benedikt og Leira-Björk. Þau hafa lítið sem ekkert keppt í fimmgangi, en síðasta keppni þeirra saman í þeirri grein var árið 2019 – þá fengu þau 6,33. Árangur dagsins er því sannarlega glæsilegur hjá þessu flotta pari, en í dag fengu þau hvorki meira né minna en 6,5. Þau eru eftir daginn þriðju stigahæst ungmenna.

Benjamín Sandur og Þorgeir keppa í B-úrslitum

Fjórðu voru Benjamín Sandur og Júní. Þau áttu gífurlega flotta sýningu. Benjamín og Júní eru glænýtt par, en sýndu heldur betur úr hverju þeir eru gerðir og hlutu 6,97 í einkunn og deila þar með 10. sæti með fimmta og síðasta pari íslenska landsliðsins í braut, þeim Þorgeiri og Goðasteini. Þau slógu botninn í fimmganginn með glæsilegri sýningu líka upp á 6,97. Benjamín og Þorgeir munu því keppa í B-úrslitum.

Algjörlega óæft

Hekla Katharína Kristinsdóttir, landsliðsþjálfari U21, var ákaflega ánægð með daginn.

„Glódís átti frábæra sýningu upp á 7,40 sem var hennar besti árangur og Benedikt var að toppa sig í fimmgangi, algjörlega óæft því við höfum bara lagt áherslu á gæðingaskeiðið og hann hefur fengið þau fyrirmæli að æfa þetta bara í reiðtúrum og það hefur greinilega gengið mjög vel. Svo eru kappreiðarnar í kvöld, fyrstu tveir sprettirnir, en það væri gaman að stimpla sig strax inn þar.

Uppleggið var að halda fókus og passa að hestarnir fari ferskir inn á völlinn. Þá verðum við þjálfararnir að vera vel á tánum á upphitunarsvæðinu og passa að knaparnir fari ekki fram úr sér þar því hestarnir þurfa að vera með mestu orkuna inna á vellinum.“

Benedikt og Leira-Björk héldu áfram að gera gott mót.
Benedikt og Leira-Björk héldu áfram að gera gott mót. Ljósmynd/Jón Björnsson

Mótssvæðið blautt

Mótssvæðið var heldur blautt í morgun og upphitunarvöllurinn var raunar eitt svað. Hekla segir það hafa verið vont að sjá, en farið var af stað í að leysa málið. 

„Það fannst frábær lausn á því máli. Við sem sagt færðum safnhringinn yfir á æfingavöllinn og það voru allir sáttir við það og það hefur gengið ofboðslega vel flæðið hér inn á völlinn.  Þetta var leyst í sameiningu mótshaldara, dómara og var mjög góð lausn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert