Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna

Dean Acheson er gegndi embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna á árunum 1949 til 1953 var sá stjórnmálamaður sem líklega hafði mest áhrif á stofnun Atlantshafsbandalagsins og hefur stundum verið nefndur „Faðir NATO“. Í endurminningum sínum, „Present at the Creation“, rekur hann m.a. lokakafla samningaviðræðna um Atlantshafssáttmálann.

Dean Acheson (t.v.) sver embættiseið utanríkisráðherra Bandaríkjanna 21. janúar 1949.

DEAN Acheson fæddist í Connecticut árið 1893 og nam lögfræði við Yale og Harvard-háskóla. Eftir að hafa starfað við lögfræðistörf um skeið og verið aðstoðarmaður hæstaréttardómarans Louis Brandeis tók hann við embætti aðstoðarráðherra í fjármálaráðuneytinu í forsetatíð Franklins Roosevelt árið 1933. Hann hóf störf í utanríkisráðuneytinu árið 1941 og gegndi embætti aðstoðarráðherra á árunum 1945-1947 og bar þá meðal annars ábyrgð á því að tryggja inngöngu Bandaríkjanna í Sameinuðu þjóðirnar. Reynsla hans af samskiptum við Sovétmenn gerði hann að miklum andkommúnista og var hann einn helsti höfundur Truman-kenningarinnar, er leit dagsins ljós árið 1947.

Harry S Truman skipaði Acheson utanríkisráðherra árið 1949 og var hann einn helsti frumkvöðullinn að stofnun Atlantshafsbandalagsins.

Acheson var umdeildur stjórnmálamaður á þessum árum og þrátt fyrir að vera harður andkommúnisti sætti hann gagnrýni hægrimanna fyrir að neita að reka undirmenn er lent höfðu í klóm Josephs McCarthys. Þá varð hann að há margar pólitískar orrustur í kringum Kóreustríðið ekki síst eftir að Kínverjar hófu afskipti af deilunni.

Eftir að Acheson lét af embætti sneri hann sér að lögfræðistörfum að nýju en var jafnframt sérlegur ráðgjafi Bandaríkjaforseta í utanríkismálum. Hann ritaði nokkrar bækur og eru endurminningar hans, Present at the Creation, þekktasta rit hans. Hlaut hann Pulitzer-verðlaunin árið 1970 fyrir endurminningarnar en í þeim fjallar hann m.a. um aðdragandann að undirritun Atlantshafssáttmálans.

Stofnun NATO
Stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins fór að taka á sig mynd í byrjun ársins 1949. Harry Truman Bandaríkjaforseti og Dean Acheson utanríkisráðherra áttu reglulega fundi, tvisvar, þrisvar í viku þar sem þróun mála var rædd og þegar líða tók á febrúar hófst undirbúningur að sáttmálanum að nýju. Acheson, ásamt hópi sendiherra, þeim Oliver Franks frá Bretlandi, Hume Wrong frá Kanada, Henri Bonnet frá Frakklandi, Eelco van Kleffens frá Hollandi, Robert Silvercruys frá Belgíu og Hugues Le Gallais frá Lúxemborg. Menn þessir höfðu unnið lengi og náið saman, ríkti vinalegt andrúmsloft í hópnum og ávörpuðu menn hvern annan með fornafni.

Þann 4. mars byrjaði Norðmaðurinn Wilhelm Morgenstierne að taka þátt í fundum hópsins.

Acheson varaði sendiherranna við því, strax á fyrsta fundi þeirra, þann 8. febrúar, að varasamt væri að hraða vinnu við að semja sáttmálann um of, þar sem tryggja yrði samþykki öldungadeildarinnar við hvert skref er tekið væri. Acheson var í stöðugu sambandi við öldungadeildarþingmennina Connally og Vandenberg og var honum fyllilega ljóst að litlu skipti hvað ákveðið væri af sendiherrahópnum ef ekki væri þingmeirihluti fyrir því.

Deilt um umfang sáttmálans
Það voru þrjú atriði sem jafnt sendiherrarnir sem öldungadeildarþingmennirnir veltu mikið fyrir sér. Átti sáttmálinn einungis að ná til hernaðarlegs öryggis eða fleiri þátta? Hvaða ríki áttu að verða stofnaðilar og hvaða skuldbindingar áttu að fylgja aðild. Vildu sendiherrarnir ganga lengra en þingmennirnir.

„Það var því mikilvægt að funda samhliða með báðum aðilum. Ég var í stöðu sirkusmanns er stóð á tveimur hestum. Færi annar fram úr hinum var úr háum söðli að detta.“

Að mati þingmannanna gengu tillögurnar, sem ræddar voru meðal sendiherranna, of langt á öllum sviðum. Þingmennirnir voru alfarið andsnúnir hugmyndum Kanadamanna um aðra grein sáttmálans, en þær gerðu ráð fyrir samvinnu á sviði menningar-, efnahags- og félagsmála. Töldu þeir þessar hugmyndir geta stefnt sáttmálanum í heild í hættu án þess að í raun væri um tillögur er myndu skila miklu næðu þær fram að ganga. Acheson tók að sér að breyta greininni, þannig að allir gætu sætt sig við hana, en segir þó í ævisögu sinni að hún hafi alla tíð verið NATO fjötur um fót og enginn vitað með vissu hvernig ætti að nýta hana.

Upphaflega var stefnt að því af þeim ríkjum sem áttu aðild að samningahópnum að þau myndu ljúka við sáttmálann og ákveða síðan hvaða ríkjum yrði boðin aðild að honum. Áður en lokið var við sáttmálann höfðu hins vegar nokkur ríki látið í ljós áhuga sinn á aðild að honum. Norðmenn voru fyrstir í þeim hópi en fljótlega segir Acheson að Danir og Íslendingar hafi bæst við og loks Ítalir. Halvard Lange, utanríkisráðherra Noregs, kom til Bandaríkjanna í byrjun febrúar og átti viðræður um sáttmálann. „Hann kom hvorki til að sækja um aðild né fara fram á aðstoð heldur til að komast að því hver áform okkar væru og ræða vandamál Norðmanna. Rússar brugðust æfir við heimsókn hans en hann lét það ekki á sig fá. Allt frá fyrsta fundi okkar fannst mér hann vera indæll og áhrifamikill maður,“ segir Acheson.

Lange hafði tekið þátt í störfum norsku andspyrnuhreyfingarinnar en verið handtekinn og dæmdur til dauða. Í lok stríðsins var hann fluttur til Dachau-vinnubúðanna. „Heilsa hans var á þrotum en hugrekki, greind og kímnigáfa hafði ekki beðið hnekki,“ segir Acheson. Í viðræðum þeirra Achesons og Langes sagði norski utanríkisráðherrann að reynsla hans hefði kennt honum að norskt hlutleysi væri tálsýn. Noregur yrði að tryggja öryggi sitt í samvinnu við önnur ríki. Taldi hann hvorki Sameinuðu þjóðirnar né hugmyndir Svía um skandínavískt öryggisbandalag uppfylla þarfir Norðmanna. Lange rakti garnirnar úr Acheson varðandi hinn nýja sáttmála er var í smíðum og fékk þau skilaboð að ef Norðmenn kysu að taka þátt í þessu samstarfi nytu þeir stuðnings Bandaríkjanna. „Ég hafði sterklega á tilfiningunni að jafnt Lange sem Wilhelm Morgenstierne, sendiherra Noregs í Washington, væru hlynntir því að taka þátt og sú staðreynd að ekki var þrýst á þá um þátttöku jók á áhuga þeirra,“ segir Acheson.

Norska stjórnin sótti um aðild í lok febrúar og reyndu Frakkar undir eins að skilyrða aðild þeirra með því að Ítalir myndu þá jafnframt verða teknir inn. Franski sendiherrann í hópnum, Bonnet, sagði „franska almenningsálitið“ ekki myndu skilja hvers vegna Norðmenn ættu að fá aðild á undan Ítalíu. Á sama tíma lagðist de Gaulle hershöfðingi, sem á þessum tíma hafði látið af störfum, gegn hinum fyrirhugaða varnarsáttmála. Bandaríkjaforseti og öldungadeildarþingmennirnir misstu hins vegar þolinmæðina vegna hártogana Frakka og Acheson bar þau skilaboð til samninganefndarinnar á fundi 1. mars að Bandaríkjastjórn stæði heilshugar á bak við beiðni um að Norðmenn skyldu teknir inn í hópinn á fundinum. Jafnframt var komið til móts við Frakka með því að skuldbindingar sáttmálans skyldu einnig ná til Alsír, sem þá tilheyrði Frakklandi.

Næstur til að knýja dyra var Gustav Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur. Acheson sagðist hafa verið sannfærður um að hann myndi að lokum fylgja Norðmönnum. Sú hafi reynst raunin og það sama hefði átt við um Bjarna Benediktsson, utanríkisráðherra Íslands.

Ítalska vandamálið var hins vegar ekki leyst. Ítalía var augljóslega ekki Atlantshafsríki og Acheson segir flesta sérfræðinga, austan hafs sem vestan, hafa verið þeirrar skoðanir að framlag Ítala til varna Vestur-Evrópu yrði hverfandi. Það fælist hins vegar pólitísk hætta í því að skilja Ítali útundan. Tengsl Ítala við önnur ríki væru ekki nægilega stofnanabundin og hætta væri á að þeir myndu þjást af einangrunartilfinningu og jafnvel, í ljósi þess hversu öflugur ítalski kommúnistaflokkurinn var, stíga í vænginn við Austur-Evrópu. Að lokum náðist samkomulag um aðild Ítalíu og einnig náðist samstaða um Portúgal, en aðild þess var talin gífurlega mikilvæg, ekki síst vegna Azor-eyja.

Sendu ríkin átta, sem aðild höfðu átt að samningahópnum út formlegt boð til Ítala, Dana, Íslendinga og Portúgala þann 17. mars. Tyrkir höfðu undir lokin lagt ríka áherslu á að komast inn í hópinn ekki síst eftir að grundvallarreglan um að um Atlantshafsríki skyldi vera að ræða hafði verið brotið með aðild Ítalíu. Þrátt fyrir tilraunir til útskýringa töldu þeir að þeir hefðu verið yfirgefnir og segir Acheson svipuð sjónarmið hafa komið upp í Grikklandi. Tveimur árum síðar var þessum ríkjum veitt aðild.

Fimmta greinin

Acheson undirritar Norður-Atlantshafssáttmálann fyrir hönd Bandaríkjastjórnar 4. apríl 1949. Að baki honum standa þeir Harry Truman Bandaríkjaforseti (t.h.) og varaforseti hans, Alben W. Barkley.

Hörðustu deilurnar stóðu hins vegar um fimmtu greinina, en í henni felst skuldbinding um að árás á eitt ríki jafngildi árás á öll bandalagsríkin. Evrópuríkin lögðu mikið kapp á sameiginlegar skuldbindingar, en Bretar að einhverju leyti og ekki síst Bandaríkin og Kanada voru mjög hikandi við að taka á sig sjálfkrafa skuldbindingu um að verja ríki gegn árás. Þó sýndi hið nýlega dæmi úr síðari heimsstyrjöldinni mikilvægi sameiginlegra skuldbindinga. Þjóðverjar gátu í upphafi átakanna valið út eitt og eitt ríki í einu til innrásar. Acheson segir flesta er tóku þátt í viðræðunum hafa tekið undir þá vafasömu kenningu að hefðu Þjóðverjar vitað að með fyrstu innrásinni væru þeir að kalla yfir sig styrjöld við Breta og jafnvel Bandaríkin hefði heimsstyrjöldin vart átt sér stað.

Að lokum náðist samkomulag er allir gátu sætt sig við, jafnt Bandaríkjamenn sem Evrópuríkin. Þann átjánda mars ákvað samningahópurinn og þingmennirnir að gera sáttmáladrögin opinber til að opna fyrir umræðu áður en þau yrðu endanlega samþykkt af ríkisstjórnum aðildarríkjanna. Í raun segir Acheson markmiðið hins vegar hafa verið að knýja samningsdrögin í gegn. Sáttmálinn var kynntur í öllum ríkjunum tólf og segir Acheson að líklega hafi nýliði aldrei verið kynntur til sögunnar með jafnmiklum látum.

Ráðherrar aðildarríkjanna mættu til Washington 2. apríl til að undirrita sáttmálann þann 4. apríl. Acheson segist hafa tjáð Truman forseta að hann teldi við hæfi að forsetinn undirritaði samninginn. Truman neitaði hins vegar að undirrita sáttmálann. Hann sagðist verða viðstaddur athöfnina og að hann myndi standa við hlið Achesons. Sáttmálinn skyldi hins vegar bera nafn hans.

„Undirritunarathöfnin var virðuleg og litrík og stóðu forseti og varaforseti Bandaríkjanna mér við hlið er ég ritaði undir sáttmálann. Lúðrasveit flotans setti með óvæntum hætti raunsannan svip á þennan atburð á meðan við biðum eftir að athöfnin hæfist. Lék hún tvö lög úr söngleiknum Porgy and Bess, sem var mjög vinsæll um þessar mundir: „I've got Plenty of Nothin'“ og „It Ain't Necessarily So“.


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO