Sagan Ísland Viðtöl Með eigin orðum Samstarfið |
Árásin á Alþingi Þátttaka Íslands í Atlantshafsbandalaginu klauf á sínum tíma þjóðina. Kristján Jónsson rifjar upp slaginn á Austurvelli 30. mars 1949 og ræðir við nokkra sem þar voru. JEPPI með gjallarhorn, þaðan streyma hvatningar um andstöðu og svívirðingar um „landsölumennina“. Lögreglumenn með svarta stálhjálma og kylfur, táragassprengjur innan seilingar. Á stalli á miðjum vellinum trónir maður úr öðru efni en venjulegt fólk og afreksmaður á sinni tíð, þegar hann var af holdi og blóði. Nú er hann þögull, enginn veit hvað honum finnst um þetta upphlaup, reiðiópin, barsmíðarnar, grjótkastið, eggjasletturnar á hurð Alþingishússins, brotnar rúðurnar. Veður voru öll válynd í heimsmálunum 30. mars 1949 og þytur þeirra barst hingað, þjóðin var ekki lengur einangruð úti í reginhafi. Árið á undan höfðu kommúnistar og leppar þeirra steypt lýðræðislegri ríkisstjórn Tékkóslóvakíu, hún var nú undir járnhæl Stalíns, kommúnistar voru að sigra í Kína. Íslendingar voru ein af þjóðunum tólf sem stofnuðu Atlantshafsbandalagið 4. apríl 1949 en deilurnar um aðildina voru svo heiftúðugar hér að enn eru sumir móðir ef ekki sárir. Í grannlöndunum var lítið um mótmæli ef undan er skilin viðleitni sovéthollra kommúnista og einstaka friðarsinna. Brigslin gengu hér á víxl, ýmist voru menn úhandbendi Stalíns“, úþrælar auðvaldsins“ eða úþjóðníðingar“. Kalda stríðið var nýhafið, íslenskt orðfæri þess var að fæðast en gjarnan vitnað í fornar bókmenntir og nýlegri ættjarðarljóð. Tilfinningarnar voru á suðupunkti. Menn slepptu fram af sér beislinu, jafnvel rólegheitafólk, og í ræðustól Alþingis fóru sumir hamförum. En aðildin var samþykkt með 37 atkvæðum gegn 13 eftir geysiharðar umræður og stóðu þær í nokkra daga, reyndar samfleytt alla nóttina áður en atkvæði voru loks greidd 30. mars. Allir tíu þingmenn Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins voru á móti, einnig tveir þingmenn Alþýðuflokksins, Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson, og einn framsóknarmaður, Páll Zóphoníasson. Tveir framsóknarmenn, Hermann Jónasson og Skúli Guðmundsson, sátu hjá. Atkvæðagreiðslu á Alþingi um aðildartillöguna lauk um kl. 14.30 og var hún samþykkt. Skömmu áður hóf fólk að safnast saman á Austurvelli til að mótmæla en fyrir voru mörg hundruð stuðningsmanna aðildarinnar sem höfðu orðið við hvatningu ráðamanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks til fólks um að verja þinghúsið fyrir árásum kommúnista. Tók fólkið sér stöðu framan við húsið ásamt lögreglumönnum sem þar voru en varalið lögreglu, úr röðum óbreyttra borgara, beið átekta inni í húsinu. Reykjavík var enn lítill bær, Kópavogur varla til, meirihluti þjóðarinnar bjó úti á landsbyggðinni. En allt að 10.000 þúsund manns munu hafa verið á Austurvelli. Flestir viðstaddra voru sennilega á móti inngöngunni og kröfðust margir þjóðaratkvæðis. Var auðvelt fyrir þá grimmustu að kasta grjóti og öðru rusli að þinghúsinu og fela sig í mannþrönginni. Kastað var grjóti að þingmönnum og ráðherrum og mildi að ekki varð manntjón. Nokkrir lögreglumenn og óbreyttir borgarar úr röðum beggja deiluaðila, alls um tuttugu manns, slösuðust en enginn þó alvarlega. Þegar Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ætlaði eftir atkvæðagreiðsluna að setjast inn í bíl með öðrum þingmönnum við Alþingishúsið var kastað steini í bílinn og maður nokkur réðst á ráðherrann og reyndi að draga hann út. „Þarna ertu helvítið þitt, Bjarni Benediktsson,“ sagði maðurinn. Sautján ára gagnfræðaskólastúlka gekk að Stefáni Jóhanni Stefánssyni forsætisráðherra, er var að koma út úr þinghúsinu, og rak honum kinnhest. Henni fannst að ráðherra hefði svikið sig. Þjóðviljinn hóf ungu stúlkuna til skýjanna fyrir þetta úafrek“. Og í Tímariti Máls og menningar í apríl sama ár skrifaði rithöfundur um úungu, háttprúðu skólastúlkuna“ og íslenskt hjarta úsem sló í ungum barmi, þróttmikil hönd sló hart, því að hugir þúsundanna fylgdu högginu eftir“. Efasemdir um aðildina gengu oft þvert á flokksbönd þótt vinstrisinnar væru fremstir í flokki. Hópur menntamanna stofnaði Þjóðvörn gegn inngöngunni í NATO, þar voru meðal frammámanna sr. Sigurbjörn Einarsson, síðar biskup, Jónas Haralz, síðar seðlabankastjóri, og fleiri þjóðþekktir menn. Í menningarlífinu bar mikið á andstæðingum NATO, enda vinstrimenn þar öflugir. Atómstöð Halldórs Laxness kom út skömmu fyrr og þar var óspart slegið á strengi þjóðernis. Hann varaði saklausa eyþjóðina við því að nú ætluðu öfl hins illa að selja nýfengið sjálfstæðið í hendur útlendinga. Ekki má gleyma að landsmenn höfðu hlotið sjálfstæði aðeins fjórum árum fyrr og því hæg heimatökin að höfða til þjóðrækni. Skáldið Jóhannes úr Kötlum hvatti til harðrar baráttu gegn samningnum og afsali þjóðfrelsis - en hann hafði einnig ort: úSovét-Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?“ Þjóðviljinn sagði varalið lögreglunnar hafa verið úvitstola hvítliðaskríl“ eins og það var orðað. „Landráð framin í skjóli ofbeldis og villimannlegra árása á friðsama alþýðu“ var fyrirsögn blaðsins. Morgunblaðið sparaði ekki heldur stóru orðin í fyrirsögnum daginn eftir atburðinn: úOfbeldishótanir kommúnista í framkvæmd: Trylltur skríll ræðst á Alþingi“. Tíminn og Alþýðublaðið fóru einnig hörðum orðum um mótmælendurna. Línurnar í umræðum um öryggis- og varnarmál næstu áratugina höfðu verið lagðar. Morgunblaðið |
NATO |