Sagan Ísland Viðtöl Með eigin orðum Samstarfið |
Trúum á vinsamlega samvinnu þjóðanna Ræðan, sem Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra Íslands, flutti í Washington hinn 4. apríl 1949, er Atlantshafssáttmálinn var undirritaður, fer hér á eftir: „Þjóðir þær, sem nú eru að ganga í þetta nýja bræðralag, eru að mörgu leyti ólíkar hver annarri. Sumar þeirra eru hinar mestu og voldugustu í heimi, aðrar eru smáar og lítils megandi. Engin er þó minni nje má sín minna en þjóð mín - íslenska þjóðin. Íslendingar eru vopnlausir og hafa verið vopnlausir síðan á dögum víkinganna, forfeðra okkar. Við höfum engan her og getum ekki haft. Ísland hefir aldrei farið með hernað gegn nokkru landi, og sem vopnlaust land hvorki getum við nje munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, svo sem við lýstum yfir, er við gerðumst ein af sameinuðu þjóðunum. Staðreynd er að við getum alls ekki varið okkur gegn neinni erlendri, vopnaðri árás. Við vorum þess vegna í vafa um, hvort við gætum gerst aðilar þessa varnarbandalags, en svo getur staðið á, að Ísland hafi úrslitaþýðingu um öryggi landanna við Norður-Atlantshaf. Í síðasta stríði tók Bretland að sjer varnir Íslands, og síðan gerðum við samning við stjórn Bandaríkjanna um hervarnir Íslands meðan á stríðinu stóð. Aðild okkar að Norðuratlantshafssamningnum sýnir, að bæði sjálfra okkar vegna og annarra viljum við svipaða skipan og þá á vörnum landsins, ef ný styrjöld brýtst út, sem við vonum og biðjum að ekki verði. Tilheyrum frjálsu samfjelagi frjálsra þjóða Að vísu er það rjett, sem jeg áðan sagði, að aðilar þessa samnings eru ólíkir um margt. En það er einnig margt sem sameinar okkur traustum böndum. Sama hættan ógnar okkur öllum í þeim heimi sem við lifum, þar sem fjarlægðirnar eru horfnar, er það áreiðanlegt að annaðhvort njóta allir friðar - eða enginn. Alstaðar sömu upplausnaröflin að verki Slíkt ofbeldi hefir aldrei fyrr verið reynt gegn hinu þúsund ára gamla Alþingi Íslendinga. Sá afvegaleiddi hópur, sem þetta reyndi, þóttist með köllum sínum vera að hrópa á frið. Þetta framferði að kasta grjóti með höndunum, en hrópa á frið með vörunum, er hvorki í samræmi við arfleifð Íslendinga nje vestræna menningu. Allir vitum við, hvar slíkir hættir eiga upptök sín. Heiminum stafar sannarlega ekki meiri hætta nú af öðru en þessu hugarfari. Tilheyrum sömu menningu Allir tilheyrum við sömu menningunni, allir mundum við fremur kjósa að missa lífið en frelsið, hvort heldur frelsi sjálfra okkar, eða þjóða okkar. Allir trúum við á vinsamlega samvinnu þjóða í milli - allir óskum við heiminum friðar og mannkyninu velferðar. Þessvegna hittumst við hjer í dag með góðar vonir í brjósti til að tengjast tryggðaböndum með undirskrift þessa samnings.“ Morgunblaðið |
NATO |