Sagan Ísland Viðtöl Með eigin orðum Samstarfið |
„Tel mig ekki hafa betra verk unnið“ Bjarni Benediktsson taldi Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, merkasta stjórnmálamanninn sem hann kynntist á ferli sínum. Í samtölum við Matthías Johannessen fjallaði hann m.a. um kynni sín af Acheson og þýðingu aðildarinnar að NATO fyrir Íslendinga. BJARNI Benediktsson var í fararbroddi þeirra manna sem mestan þátt áttu í því að Íslendingar gengu í Atlantshafsbandalagið. Hann undirritaði Atlantshafssáttmálann fyrir Íslands hönd í Washington 4. apríl 1949 og 20 árum síðar er stofnunar bandalagsins var minnzt í höfuðborg Bandaríkjanna var hann sá eini í hópi þeirra er staðfestu sáttmálann sem enn gegndi einni æðstu pólitískri ábyrgðarstöðu í landi sínu. Bjarni Benediktsson hafði því einstök kynni af ráðamönnum þeim sem mótuðu þetta samstarf lýðræðisríkjanna. Í máli Bjarna Benediktssonar kom oft fram að hann hafði mestar mætur á Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna frá 1949-1953, af þeim erlendu stjórnmálamönnum sem hann kynntist á ferli sínum. Hann greindi Matthíasi Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins, frá kynnum sínum af Acheson auk þess sem hann gerði honum m.a. grein fyrir hvernig staðið hefði verið að stofnun Atlantshafsbandalagsins. Í bókinni úFélagi orð“ rifjaði Matthías Johannessen síðar upp frásögn Bjarna Benediktssonar og byggði á tveimur samtalsgreinum, sem birtust í Morgunblaðinu 1967 og 1969 auk minningarbrota frá árinu 1974. Þá greindi Matthías einnig frá samtali þeirra tveggja um Atlantshafsbandalagið í bókinni úBjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna“ sem gefin var út árið 1983. Kaflar úr þessum bókum fara hér á eftir: „Þú áttir manna mestan þátt í því að við gengum í NATO, hvað um framtíð þess?“ úÉg tel, að Íslendingar hafi stigið mikið heillaspor, þegar þeir gerðust aðilar að NATO. Með því sköpuðust möguleikar til að gæta hagsmuna landsins á miklu heillaríkari hátt en ella, eins og m.a. kom í ljós við lausn landhelgisdeilunnar. En aðalþýðingin fyrir okkur af aðild að Atlantshafsbandalaginu er auðvitað fólgin í því öryggi sem landið öðlaðist með vörnum Íslands. Atburðir síðustu daga sýna, hversu fráleit sú fullyrðing er, að ófriðarhættan sé liðin hjá. Og er raunar ljóst, að ef ekki væri nú valdajafnvægi í þessum hluta heims, þá væri miklu meiri hætta á heimsstyrjöld heldur en jafnvel er. Sem sjálfstæð þjóð verða Íslendingar, bæði sjálfra sín vegna og annarra að gera sitt til að haldið sé uppi friðargæzlu. Á meðan varnir Íslands stuðla að henni, væri fullkomið glapræði að hætta á að leggja varnarstarfið niður. Þá er líka auðséð, að ef NATO legðist niður, þannig að varnarkerfi Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna rofnaði, mundi Ísland fyrst lenda í verulegri hættu og geta haft úrslitaþýðingu. Íslendingar ráða að vísu litlu um það, hvort samstarfið innan NATO helzt, en framtíð okkar og öryggi krefst þess að við stuðlum að því, að svo megi verða.“ Á morgun, 4. apríl, eru 20 ár liðin frá því að Atlantshafssáttmálinn var undirritaður við virðulega athöfn í Washington. Með undirritun samningsins var nýtt spor stigið í þá átt að varðveita frelsi vestrænna þjóða og lýðræði og stöðva útþenslustefnu Stalíns, sem hafði lagt hvert Austur-Evrópulandið á fætur öðru undir sig. Í tilefni þessa merka afmælis sneri ég mér til Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, og bað hann skýra lesendum Morgunblaðsins frá aðdragandanum að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og undirritun sáttmálans. Bjarni Benediktsson var eins og kunnugt er, utanríkisráðherra, þegar sáttmálinn var undirritaður, og átti manna mestan þátt í að Ísland gerðist aðili að NATO. En fyrst skulum við líta á Morgunblaðið frá þessum tíma. Þriðjudaginn 5. apríl 1949 segir í fimmdálka fyrirsögn á forsíðu blaðsins, að sáttmálinn hafi verið undirritaður í Washington og úmilljónir manna um heim allan fylgdust með athöfninni, sem útvarpað var á 50 tungumálum“. Og blaðið segir ennfremur: „Meiri viðbúnaður hafði verið í sambandi við þessa athöfn en nokkurn annan atburð veraldarsögunnar. Útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar tryggðu það að fleira fólk gat fylgzt með athöfninni en nokkru sinni áður hefur orðið vitni að sögulegum atburði, en henni var útvarpað á um 50 mismunandi tungumálum, um brezkar, bandarískar, hollenzkar og kanadískar útvarpsstöðvar.“ Þá segir Morgunblaðið frá því, að utanríkisráðherrarnir 12, sem undirrituðu sáttmálann, hafi verið fulltrúar 332 milljóna manna er byggja Atlantshafsríkin. „Ráðherrunum var fagnað ákaflega, er þeir gengu inn í salinn, með Ernest Bevin í broddi fylkingar, og tóku sér sæti undir fánum hinna 12 þjóða,“ segir blaðið og heldur áfram: „Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, bauð hina 11 starfsbræður sína velkomna með stuttri ræðu og sagði m.a.: úÞessi sáttmáli er aðvörun til þeirra, sem hafa í hyggju að leggja út á hina hættulegu braut árásarstyrjaldar.““ Og hann bætti við: „Atlantshafssáttmálinn er árangur af margra alda sameiginlegri hugsun - sprottinn af blóði þúsunda hugrakkra karla og kvenna, sem úthellt hefur verið. Þjóðir hins nýja Atlantshafsbandalags munu ekki einasta öðlast aukinn styrk og aukið þrek með undirskrift sáttmálans, heldur allar þjóðir heims, sesm vilja frelsi og frið sjálfum sér og öðrum þjóðum til handa. Sá atburður, sem nú er að gerast, mun hafa jákvæðar afleiðingar fyrir allar þjóðir og í æ ríkara mæli eftir því sem tímar líða.“
„Þjóðir þær, sem nú eru að ganga í þetta nýja bræðralag, eru að mörgu leyti ólíkar hver annarri. Sumar þeirra eru hinar mestu og voldugustu í heimi, aðrar eru smáar og lítils megandi. Engin er þó minni né má sín minna en þjóð mín - íslenzka þjóðin. Íslendingar eru vopnlausir og hafa verið vopnlausir síðan á dögum víkinganna, forfeðra okkar. Við höfum engan her og getum ekki haft. Ísland hefur aldrei farið með hernaði gegn nokkru landi, og sem vopnlaust land hvorki getum við né munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, svo sem við lýstum yfir, er við gerðumst ein af Sameinuðu þjóðunum. Staðreynd er, að við getum alls ekki varið okkur gegn neinni erlendri vopnaðri árás. Við vorum þess vegna í vafa um hvort við gætum gerzt aðilar þessa varnarbandalags, en svo getur staðið á að Ísland hafi úrslitaþýðingu um öryggi landanna við Norður-Atlantshaf. Í síðasta stríði tók Bretland að sér varnir Íslands, og síðan gerðum við samning við stjórn Bandaríkjanna um hervarnir Íslands meðan á stríðinu stóð. Aðild okkar að Norður-Atlantshafssamningnum sýnir að bæði sjálfra okkar vegna og annarra viljum við svipaða skipan og þá á vörnum landsins, ef ný styrjöld brýzt út, sem við vonum og biðjum að ekki verði. En það er ekki aðeins þessi ástæða, sem ráðið hefur afstöðu okkar. Við viljum einnig láta það koma alveg ótvírætt fram, að við tilheyrum og viljum heyra til því frjálsa samfélagi frjálsra þjóða, sem nú er formlega verið að stofna. Að vísu er það rétt, sem ég sagði áðan, að aðilar þessa samnings eru ólíkir um margt. En það er einnig margt sem sameinar okkur traustum böndum. Sama hættan ógnar okkur öllum í þeim heimi sem við lifum þar sem fjarlægðirnar eru horfnar, er það áreiðanlegt að annaðhvort njóta allir friðar - eða enginn. Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Allsstaðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að við viljum spilla honum. Þegar samningur þessi var ræddur á Alþingi Íslendinga, reyndu þessi öfl með valdi að hindra hina fornhelgu stofnun í starfi sínu. Slíkt ofbeldi hefur aldrei fyrr verið reynt gegn hinu þúsund ára gamla Alþingi Íslendinga. Sá afvegaleiddi hópur, sem þetta reyndi, þóttist með köllum sínum vera að hrópa á frið. Þetta framferði, að kasta grjóti með höndunum, en hrópa á frið með vörunum, er hvorki í samræmi við arfleifð Íslendinga né vestræna menningu. Allir vitum við, hvar slíkir hættir eiga upptök sín. Heiminum stafar sannarlega ekki meiri hætta nú af öðru en þessu hugarfari. En það er ekki aðeins þessi ógnun við heimsfriðinn og velferð mannkynsins, sem sameinar okkur. Það er heldur ekki einungis það, að lönd okkar eru öll í sama heimshluta. Sterkari bönd tengja okkur saman. Allir tilheyrum við sömu menningunni, allir mundum við fremur kjósa að missa lífið en frelsið, hvort heldur frelsi sjálfra okkar eða þjóða okkar. Allir trúum við á vinsamlega samvinnu þjóða í milli - allir óskum við heiminum friðar og mannkyninu velferðar. Þess vegna hittumst við hér í dag með góðar vonir í brjósti til að tengjast tryggðaböndum með undirskrift þessa samnings.“ Ég bað Bjarna Benediktsson að skýra tildrögin að sáttmálanum og hvernig andrúmsloftið hefði verið í röðum lýðræðissinna, þegar málið var í deiglunni, og loks lýsa undirskrift sáttmálans og þeim, sem þar komu helzt við sögu. Forsætisráðherra sagði: „Segja má að legið hafi í loftinu um veturinn að Íslandi yrði boðin þátttaka í þessu samstarfi, og þess vegna m.a. kynntu menn sér viðhorf forystumanna í nágrannalöndunum, Danmörku, Noregi og Englandi. Þær fregnir, sem við fengum frá þessum löndum, urðu til þess að glæða áhuga okkar á málinu. Ég tel, að þátttaka Dana og Norðmanna hafi haft mikla þýðingu fyrir skoðanamyndun hér á landi. Ef þessi lönd hefðu ekki gerzt aðilar að Atlantshafsbandalaginu, er næstum því víst að við hefðum ekki gert það heldur. Má segja að afstaða Norðmanna hafi haft úrslitaáhrif á það, að við tækjum þátt í þessu samstarfi. Margir voru í fyrstu hikandi. Innan flokkanna fóru fram mjög ítarlegar umræður, í þingflokki sjálfstæðismanna urðu allir sammála, en misjafnlega áhugasamir eins og gengur. Um sjálfan mig get ég sagt, að ég hefi fylgzt mjög náið með öryggismálunum allt frá upphafi, því að ég tók þátt í undirbúningi þeirrar ákvörðunar um skipan mála, er tekin var hér strax eftir hernám Danmerkur. Þá vonuðum við, að sú ákvörðun, sem tekin var 10. apríl, 1940, yrði til þess að tryggja hlutleysi Íslands. - Það reyndust þó algjörar falsvonir, því að Bretar hernámu landið réttum mánuði síðar, eins og allir vita. Því hernámi var að vísu mótmælt, en mótmælin voru með öllu þýðingarlaus. Rúmu ári síðar var gerður herverndarsamningur við Bandaríkin. Sá samningur var gerður af mikilli skyndingu, en með honum má segja, að nýtt tímabil hefjist í afstöðu Íslendinga til annarra landa, því að samningurinn sýndi, að vaknaður var skilningur á nauðsyn þess að tryggja öryggi landsins með virkum ákvörðunum. Menn höfðu áttað sig á að hjáseta ein og innantómar yfirlýsingar um hlutleysi stoðuðu lítt. Eftir styrjöldina var það von manna, að stofnun Sameinuðu þjóðanna og aðild okkar að þeim, mundi veita okkur nægilega tryggingu, en atburðarásin sýndi að svo var ekki. Með öllum þessum atburðum hafði ég fylgzt náið, og átt meiri og minni þátt í undirbúningi þeirra ákvarðana sem teknar voru. Á mig hafði það ennfremur mikil áhrif, að ég var þátttakandi í fundi utanríkisráðherra Norðurlanda, þegar endanlega slitnaði upp úr samningaviðræðum um stofnun norræns varnarbandalags, og kynntist af eigin raun því hugarfari sem þar ríkti. Þá var ég einnig staddur í Osló um það leyti sem kommúnistar frömdu valdaránið í Tékkóslóvakíu 1948 og átti þá ítarlegt samtal við þáverandi sendiherra Tékkóslóvakíu í Noregi og á Íslandi, Emil Walter, sem vel var að sér í íslenzkum fornbókmenntum og þýddi sumt af þeim á móðurmál sitt. Ég hef aldrei séð mann í meiri sálarneyð en hann, þegar hann skýrði okkur frá atburðunum í heimalandi sínu. Þvílík atvik ráða auðvitað ekki úrslitum, en því er ekki að neita að þetta samtal hafði djúp áhrif á mig. Eins og ég sagði, var þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sammála um málið, en nokkur ágreiningur var innan hinna stjórnarflokkanna, bæði Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins. Til frekari könnunar allra málavaxta varð úr, að við færum þrír ráðherrar vestur um haf, Emil Jónsson, Eysteinn Jónsson og ég, ásamt Hans G. Andersen, og ættum könnunarviðræður við fulltrúa Bandaríkjastjórnar. Thor Thors sendiherra var þá í Washington og veitti okkur allan þann atbeina, er hann mátti. Dean Acheson var þá nýtekinn við utanríkisráðherraembættinu í ráðuneyti Trumans og er hann að mínu mati einna tilkomumestur þeirra stjórnmálamanna, sem ég hef kynnzt. Við Finnur heitinn Jónsson höfðum hitt hann í Washington 1946 og þótti mér þá þegar mikið til hans koma. Acheson tók okkur mjög vel, þegar við heimsóttum hann í utanríkisráðuneytinu 1949. Við ræddum málið almennt við hann. Við óskuðum honum til hamingju með hans nýja embætti, og sagðist hann þá brosandi vera kominn í þá stöðu, að þeir sem þvílíkan vanda tækju að sér yrðu að búast við því úað vera hengdir, ef þeim heppnast ekki í starfi sínu“. Meðan við fjórmenningarnir vorum í Washington, áttum við ítarlegar viðræður um einstök atriði við undirmenn Achesons og hygg ég að Bohlen, sem þá var á léttasta skeiði, verði okkur minnisstæðastur. Síðan skipaði hann sumar vandasömustu sendiherrastöður Bandaríkjanna, var bæði sendiherra þeirra í Moskvu og París. Þegar hann hætti störfum nú í vetur var hann almennt talinn færasti údiplomat“ Bandaríkjanna. Árangurinn af för okkar til Bandaríkjanna varð sá, að við komum fram þeim skilyrðum, er við töldum nauðsynleg, og urðum einhuga um að mæla með aðild Íslands. Alþingi samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða aðildina að Atlantshafsbandalaginu og fylgdi meginhluti sjálfstæðismanna þingflokknum að málum, þó að efasemdir hafi að sjálfsögðu verið í hugum sumra. Eftir samþykktina 30. marz varð að ráði, að ég skyldi fara þegar í stað til Washington og fá fyrirvara okkar í allra áheyrn viðurkenndan með þeim hætti, að ég lýsti þeim efnislega í ræðu minni við undirskriftina, án þess að nokkur athugasemd yrði gerð við. Nokkurt þóf varð um það, í hvaða formi það skyldi gert og varð raunin sú, að ekki veitti af þeim dögum, sem til ráðstöfunar voru, til að koma okkar málum fram, en þar var að sjálfsögðu ekki um neinn efniságreining að ræða. Í þeim viðræðum var Hickerson, yfirmaður Evrópudeildar bandaríska utanríkisráðuneytisins, síðar sendiherra í Finnlandi og e.t.v. víðar, aðalfulltrúi Bandaríkjanna. Þess má geta að viðræður okkar voru á þessu stigi eingöngu við fulltrúa Bandaríkjastjórnar og hygg ég að það þóf, sem varð þessa daga í Washington, hafi einmitt stafað af því, að þeir hafi þá þurft að bera saman bækur sínar við fulltrúa hinna aðildarríkjanna. Enda lá það í hlutarins eðli, að sumum þótti mjög dregið úr skuldbindingum Íslands miðað við aðra, með þeim fyrirvörum, sem á voru hafðir í ræðu minni og töldu sig setta í vanda með þeim. Undirskriftin fór svo fram með hátíðlegum hætti, þar sem allir utanríkisráðherrarnir héldu ræðu, en sendiherrar landanna í Washington undirrituðu sáttmálann ásamt ráðherrunum. Vegna óeirðanna, sem hér höfðu orðið og myndir höfðu birzt af um þetta leyti í bandarískum blöðum, vakti ræða mín e.t.v. meiri athygli en ella. Norðmennirnir létu t.d. í ljós sérstaka ánægju með hana. Hér heima mæltist hún aftur á móti misjafnlega fyrir, e.t.v. vegna þess að ég taldi óhjákvæmilegt að minnast á aðfarir andstæðinganna, þegar umræður fóru fram um málið á Alþingi. Meðal þeirra, sem undirskrifuðu samninginn, voru margir ágætismenn. Gustav Rassmussen og Halvard Lange þekkti ég áður. Truman var þá forseti Bandaríkjanna. Hann var ekki mikill fyrir mann að sjá, en reyndist, eins og kunnugt er, mjög farsæll forseti. Dean Acheson var honum miklu skörulegri. Hann hafði á sínum tíma verið handgenginn Harold Laski, hinum kunna sósíalista við London School of Economics, og heyrði Sveinn bróðir minn Laski segja 1931, að Dean Acheson mundi enda í forsetaembætti Bandaríkjanna. Ég minntist á þessi ummæli Laskis við konu Achesons, en frúin aftók það með öllu, að hann mundi nokkru sinni verða forseti Bandaríkjanna. Hún sagði að til þess væri maður sinn alltof umdeildur, sem og reyndist. Talið var að Acheson væri of harður í horn að taka í umgengni, enda var sagt, að við hann ætti brezka orðtakið, að hann kynni ekki úto suffer a fool gladly“ (væri óþolinmóður við bjána!). Acheson hefur sem sagt ætíð verið umdeildur maður, einnig í heimalandi sínu, en þegar hann fór frá nokkrum árum síðar, sagði ég við kunningja mína hér, að Bandaríkin hlytu að vera ríkt land, ef þau ættu marga menn sem jöfnuðust á við hann. Hafði ég þá fylgzt með honum á allmörgum fundum í Atlantshafsráðinu og af þeim kynnum okkar hafði virðing mín fyrir honum enn vaxið. Af öðrum, sem þarna voru, þótti mér mest koma til þeirra Bevins, utanríkisráðherra Bretlands, og Roberts Schumans, utanríkisráðherra Frakklands, sem varð einn af höfundum stál- og kolasamvinnu Vestur-Evrópulanda og síðar Evrópuráðsins. Ég hitti þá báða alloft síðar, og er ýkjulaust, að mér hafi virzt Schuman, sem var mjög hæglátur maður, einna göfugmannlegastur þeirra, sem ég hef kynnzt. Spaak, utanríkisráðherra Belgíu, var tilkomumikill og svo bráðmælskur, að jafnvel ég skildi sitthvað af hans frönsku ræðu. Þá vakti Stikker, utanríkisráðherra Hollands, einnig athygli mína. Hann varð síðar sendiherra í Englandi og hér á Íslandi, og enn síðar framkvæmdastjóri NATO. Hann kom alloft til Íslands og reyndist Íslendingum ætíð hinn vinsamlegasti. Eftir á tel ég mig ekki hafa betra verk unnið en eiga þátt í aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu,“ sagði Bjarni Benediktsson að lokum. „Svo fór raunar, að við töldum okkur henta að fá erlent varnarlið til landsins, og var um það samið í herverndarsamningnum 1951. Sá samningur er innan ramma Atlantshafssáttmálans. En við getum, eins og oft hefur verið tekið fram, sagt honum upp og haldið aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, ef við teljum öryggi landsins nógu tryggt með því móti. Ég tel að það sé ekki nógu tryggt meðan jafn ófriðvænlega horfir í heiminum og raun ber vitni.“ (Úr „Félagi orð“.)
Hann tók þá ákvörðun að halda áfram út kjörtímabilið og hætta svo, enda prédikaði hann alltaf að menn ættu að hætta áður en þeir væru orðnir gamlir og vitlausir, eins og hann komst að orði. Síðustu árin hugðist hann nota til að skrifa um þá menn sem honum þótti eftirminnilegastir þeirra sem hann hafði kynnzt. Honum auðnaðist aðeins að skrifa um Ólaf Thors. En Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var einnig ofarlega á blaði. Hann mat hann öðrum mönnum fremur. Hann sagði að Dean Acheson hefði sagt frá því á fundi í Kanada að hann hefði setið hjá Johnson forseta og hafi forsetinn þá spurt mæðulega upp úr eins manns hljóði: úÉg skil þetta ekki - hvers vegna geðjast fólki ekki að mér?“ Acheson svaraði: úMaby you are not a likeable person!“ Þá féll forsetinn gersamlega saman. Acheson hafði svör á hraðbergi og var ljósari og skýrari í hugsun en aðrir menn. Acheson sagði alltaf það sem honum fannst, það þótti Bjarna mikill kostur. Og þá ekki síður hitt að hann údid not suffer fools gladly“ (þoldi illa bjálfa) - og úbjálfarnir“ gátu verið diplómatar sem voru á annarri skoðun en utanríkisráðherrann. Bjarni sagði að Acheson hefði líklega verið skarpgáfaðasti maður sem hann kynntist um dagana. Og svo sjálfstæður var hann í skoðunum og einarður og afdráttarlaus í yfirlýsingum að sagt var í Bandaríkjunum að það hefði verið vonlaust fyrir hann að fara í framboð - hann hefði fallið í öllum kosningum. En hann hefur verið kallaður úJóhannes skírari Marshall-áætlunarinnar“, einn helzti arkitekt utanríkisstefnu Bandaríkjanna eftir 1945 - og faðir NATO. Það er mikil eftirsjá að því að Bjarna Benediktssyni skyldi ekki endast aldur til að skrifa um Dean Acheson - og önnur stórmenni þessarar aldar sem hann kynntist persónulega. En sú blinda náttúra sem stjórnaði harmleiknum á Þingvöllum 10. júlí 1970 spyr ekki um slíkt. Ég fór til Bjarna Benediktssonar 25. febr. 1968 og talaði lengi við hann. Hann lá eitthvað lasinn í rúminu þennan dag og við höfðum því nægan tíma til að spjalla saman. „Það var gott í honum hljóðið,“ sé ég að stendur á minnismiða hjá mér... Svo fór hann að tala um Atlantshafsbandalagið og Norðurlandaráðsfundinn og sagðist hafa leitað eftir því í sambandi við fundinn úhvort - ef Svíar tækju að sér að ábyrgjast Noreg og Danmörk - þeir gætu einnig ábyrgzt Ísland. En þeir sögðu ákveðið nei. Ísland væri fyrir utan úþeirra svæði“.“ Og hann bætti því við að við yrðum úauðvitað að halda okkur við NATO - og vonandi að Norðmenn og Danir geri það einnig.“ Og þá er ekki úr vegi að minnast þess einnig hér að Bjarni sagði mér að þau Sigríður hefðu heimsótt foreldra hans, Guðrúnu Pétursdóttur og Benedikt Sveinsson, kvöldið áður en þau héldu til Bandaríkjanna þar sem Bjarni átti að skrifa undir Atlantshafssamninginn 1949, og hafði þá Benedikt Sveinsson, þessi gamla og virta sjálfstæðiskempa, kvatt son sinn með þessum orðum: úNú ferð þú til að gjöra það sem ég vildi helzt gjört hafa.“ Þau orð af vörum Benedikts Sveinssonar voru syni hans ekki amalegt veganesti. (Úr úMeð vinum“, kafla er birtist í bókinni úBjarni Benediktsson í augum samtíðarmanna“.) Morgunblaðið |
NATO |