Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

„VITRINGARNIR þrír“. Frá vinstri: Halvard Lange, utanríkisráðherra Noregs, Gaetano Martino, frá Ítalíu og Lester B. Pearson, starfsbróðir þeirra frá Kanada.

Vísindasamstarf Atlantshafsbandalagsins á tímamótum

Gjöfult samstarf og framþróun eru einkenni starfs vísindanefndarinnar

Á þeim fjörutíu árum sem liðin eru frá stofnun vísindanefndar Atlantshafsbandalagsins (NATO) hefur alþjóðlegt vísindasamstarf á vegum nefndarinnar vaxið og dafnað. Andri Lúthersson kynnti sér tilurð, sögu og nýjar áherslur þessa samstarfs sem Íslendingar hafa tekið þátt í með virkum hætti.

ATLANTSHAFSBANDALAGIÐ er best þekkt sem hernaðarlegt varnarbandalag sem hefur pólitískan stöðugleika að höfuðmarkmiði. Minna hefur farið fyrir öflugu og umfangsmiklu vísindasamstarfi á vegum bandalagsins. Níu árum eftir undirritun Norður-Atlantshafssamningsins í Washington 1949, var vísindanefnd NATO stofnuð, eftir tveggja ára undirbúningstíma. Sú einstaka samvinna aðildarríkja NATO sem hófst með tilkomu ráðsins, hefur - á rúmum fjörutíu árum - vaxið jafnt og þétt að umfangi og skipar nú sérstakan sess í alþjóðlegu vísindasamstarfi.

Strax í upphafi var lögð rík áhersla á að samstarfið skyldi hvorki þjóna sérhagsmunum einstakra ríkja né hafa hernaðarlegan tilgang. Hefði mátt ætla að hin inngrónu átök kalda stríðsins - ógnarjafnvægi austurs og vesturs - hefðu getað breytt þessari stefnu vísindanefndarinnar. Hins vegar hafa áherslurnar haldist og í kjölfar þess hefur þúsundum vísindamanna fjölmargra þjóða, þ.á.m. Íslendinga sem einum af stofnaðilum NATO, verið gert kleift að leggja af mörkum og afla dýrmætrar reynslu.

Það er táknrænt fyrir framtíðarstefnu NATO að nú, áratug eftir fall Berlínarmúrsins, skuli aðaláherslan vera lögð á samskipti vestrænna vísindamanna og starfsbræðra þeirra í fyrrum ríkjum Varsjárbandalagsins. Á tímum örrar hnattvæðingar efnahags, stjórnmála og menningar er mikilvægt að búa vísindasamfélaginu frjóan jarðveg til skoðanaskipta, samvinnu og uppgötvana. Með því er mögulegt að hindra einangrun þjóða og jafnframt að treysta innviði samfélaga. Að baki búa göfug markmið - útbreiðsla lýðræðis og framþróun - sem einu nafni mættu kalla borgaraleg gildi.

„Vitringarnir þrír“
Fyrstu starfsár NATO helguðust af höfuðmarkmiði bandalagsins, sameiginlegum vörnum og viðhaldi friðar og öryggis. Í upphafi sjötta áratugarins urðu menn hins vegar æ meðvitaðri um nauðsyn þess að efla og auka samstarf NATO-ríkjanna á sviðum sem ekki lutu hernaðarlegum þáttum bandalagsins. Var ákveðið að nefnd þriggja utanríkisráðherra NATO-ríkja, þeirra Lesters Pearsons frá Kanada, Gaetano Martinos frá Ítalíu og Norðmannsins Halvard Lange, myndi vera ráðgefandi um kosti og tækifæri þess að hefja aukið samstarf um önnur málefni en hin hernaðarlegu.

Í nefndaráliti „Vitringanna þriggja“, eins og utanríkisráðherrarnir voru kallaðir, sagði að framfarir í tækni og vísindum geti ráðið úrslitum um öryggi ríkja og stöðu þeirra innan alþjóðasamfélagsins. Lögðu þeir mikla áherslu á að hlúa bæri að vísinda- og tækniframförum og að mikilvæg leið til þess væri þjálfun og stuðningur við unga vísindamenn. Skipa yrði vísindasamstarfi sjálfstæðan sess innan stofnana NATO. Upp frá því var sérstakri undirbúningsnefnd komið á laggirnar sem lagði það til við bandalagsríkin að komið yrði á sérstakri deild, vísindanefnd, sem hefði það að markmiði að samhæfa, stjórna og vera stefnumótandi fyrir samstarf á þessu sviði. Unnið var hratt að þessu máli í kjölfar þess að rússneskum vísindamönnum tókst að koma fyrsta geimfari sínu á braut umhverfis jörðu í október 1957.

Pólitískar og vísindalegar afleiðingar geimskotsins urðu til þess að undirbúningsnefndin lagði tillögur sínar fyrir á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í desember 1957. Þar var ákveðið að vísindanefnd NATO skyldi taka til starfa og í það skipaður einn fulltrúi frá hverju aðildarríki. Ráðinu yrði stýrt af vísindalegum ráðgjafa framkvæmdastjóra NATO, embætti sem síðar varð embætti aðstoðarframkvæmdastjóra NATO.

Íslensk rannsóknarverkefni hljóta styrki
Fyrsti fulltrúi Íslands í vísindanefndinni var Snorri Hallgrímsson, prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands. Hafði Snorri snemma milligöngu um styrkveitingar til íslenskra rannsóknarverkefna og má þar nefna að uppbygging veðurathugunarstöðvarinnar á Hveravöllum var að mestu leyti kostuð af styrkfé frá NATO á sjöunda áratugnum. Markaði það viss tímamót þar sem engar veðurathuganir höfðu farið fram á hálendinu að vetri til fram að tilkomu stöðvarinnar á Hveravöllum. Á þeim tíma var stöðin talsvert mikið mannvirki, en til hennar þurfti m.a. að leggja vatnsveitu, því lítið er um kalt vatn á Hveravöllum. Var styrkféð einnig notað til tækja- og áhaldakaupa.

VEÐURATHUGUNARSTÖÐIN á Hveravöllum var að stórum hluta reist fyrir styrkfé frá NATO.

NATO styrkti einnig gróðurrannsóknir á miðhálendi Íslands á árunum 1967-1969. Var féð notað til að kanna gróðurfar og undirbúa gerð gróðurkorts, í þeim tilgangi að kanna beitarþol og koma í veg fyrir gróðureyðingu.

Snemma áttu Íslendingar að auki fulltrúa í sumum af fjölmörgum undirnefndum vísindanefndarinnar. Þar á meðal var Dr. Unnstein Stefánsson haffræðingur sem sæti átti í sérfræðinganefnd um haffræði. Nefndin stóð fyrir viðamiklum, fjölþjóðlegum rannsóknum á Grænlandshafi, þar sem straumrennsli og efnarannsóknir á sjógerð voru kortlagðar. Tillögur um þessar rannsóknir voru upprunanlega frá Unnsteini komnar og voru þær styrktar til margra ára. Voru það aðallega Íslendingar og Norðmenn sem að rannsóknunum unnu. Hafrannsóknarstofnun Íslands var framkvæmdaraðili hér á landi og var unnt, fyrir tilstuðlan styrkfjárins, að kaupa ýmis dýr mælitæki til landsins sem ekki höfðu verið hér áður.

Þá eru ótaldir hinir fjölmörgu styrkir sem íslenskum námsmönnum voru veittir á upphafsárum vísindasamstarfsins. Námsfólk úr fjölmörgum greinum vísinda átti þess kost að stunda framhaldsnám í Bandaríkjunum og öðrum NATO-ríkjum.

Skapar varanleg tengsl milli vísindamanna
Skipulag vísindanefndarinnar hefur haldist nær því óbreytt síðustu fjörutíu ár. Aðaláhersla er nú, sem fyrr, lögð á samvinnu og fjárhagslegan stuðning, rannsóknir í hæsta gæðaflokki sem og getu til að mæta tækninýjungum með skjótum hætti. Starfi nefndarinnar er skipt upp í fjögur meginsvið. Hið fyrsta er styrkveitingar til námsmanna og vísindamanna sem vinna að ákveðnum rannsóknarverkefnum. Er þetta stærsti einstaki útgjaldaliður vísindanefndar NATO og nemur árlegur kostnaður bandalagsins við styrkina um einum þriðja hluta af heildarútgjöldum ráðsins sem eru tæpir tveir milljarðar króna. Er aðildarríkjum NATO í sjálfsvald sett hve hátt hlutfall af heildarstyrkveitingu viðkomandi ríkis renni til styrkþega.

Rannsóknarráð Íslands (RANNÍS) sér um styrkveitingar fyrir hönd Íslands og hafa undanfarin ár verið veittir styrkir til um tíu einstaklinga eða rannsóknarverkefna, að upphæð 200-600.000 krónur hver. Dæmi eru þó um að sum ríki eins og Danmörk greiði aðeins tvo til þrjá styrki, sem hugsaðir eru sem full laun, auk alls kostnaðar við rannsóknarstörf. Um fjórar tegundir styrkja er að ræða, allt frá grunnstyrkjum til handa námsmönnum NATO-ríkja og námsmönnum í samstarfsríkjum bandalagsis, sem hyggja á framhaldsnám, að því að vera styrkir fyrir starfandi vísindamenn og sérfræðinga sem hyggja á rannsóknar- eða fyrirlestraferðir.

Allt frá upphafi vísindasamstarfsins hafa fjölmargir Íslendingar, úr flestum greinum vísinda, nýtt sér þessa styrki til náms og rannsókna á erlendri grund. Stefnuáherslur síðustu ára hafa einnig gert vísindamönnum frá Mið- og Austur-Evrópu auk Rússlands, kleift að koma hingað til lands og stunda rannsóknarstörf í samvinnu við íslenska vísindamenn.

Annar stærsti útgjaldaliður nefndarinnar er samvinna á sviði vísinda og tækni (Cooperative science and technology). Yfirlýst markmið þessarar deildar er að ýta undir samvinnuverkefni og efla þar með varanleg tengsl vísindamanna ólíkra þjóða og skapa þannig grundvöll fyrir langvarandi samstarfi. Aðaláherslan er á fjögur svið vísinda: Líftækni, verkfræði, umhverfis- og jarðvísindi og loks tengsl hernaðarlegra þátta við öryggi almennra borgara. Rannsóknum á síðastnefnda sviðinu er einkum ætlað að beina sjónum að tengslum umsvifa herja, þ.e. hernaðarmannvirki og heræfingar, við umhverfisspjöll sem þau valda, og almennum borgurum stafar hætta af. Útgjöld til þessara sviða hafa numið tæplega þriðjungi heildarútgjalda vísindanefndarinnar eða um 600 milljónum króna.

Áherslan í Mið- og Austur-Evrópu auk Rússlands
Á þriðja meginsviði vísindanefndarinnar er sjónum beint að þeim samstarfsþjóðum NATO í Mið- og Austur-Evrópu sem til skamms tíma bjuggu við alræðisskipulag. Merki þess sáust, m.a. í vísindastarfi sem einkenndist af miðstýrðum rannsóknaráætlunum og ósveigjanlegri stjórnun. Eftir fall Sovétríkjanna merktu menn að ekki væri eingöngu þörf á að koma hjólum efnahagsstarfsemi í gang, heldur væri knýjandi þörf á að hjálpa vísindamönnum þessarra þjóða við að skipuleggja vísindastarf sem skilaði árangri fyrir lönd og þjóðir.

FRÁ leiðtogafundi NATO í desember 1957 þar sem ákveðið var að hefja starfsemi vísindanefndarinnar.

Á vegum NATO var komið á laggirnar vinnuhópum á tveimur sviðum. Annars vegar hefur verið um að ræða uppbyggingarstarf á sviði tölvukerfa og samskiptaneta. Hafa verið veittir styrkir til kaupa á nýjum tölvubúnaði sem miða á að því að efla tölvusamskiptanet innan og milli ríkja. Auk þess hefur vísindanefndin staðið fyrir fyrirlestraröðum um tölvutækni sem og námskeiðum þar sem unnið hefur verið sameiginlega að stefnumótun í tölvu- og samskiptamálum. Þjálfunarbúðir hafa einnig verið starfræktar, sem hafa það að markmiði að skapa vettvang fyrir vísinda- og tæknifólk að miðla reynslu sinni og þekkingu til þeirra er stjórna tölvunetum. Hins vegar hefur þetta starf NATO miðað að því að efla vísindalega og tæknilega þekkingu þeirra sem móta stefnu í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Í því skyni eru embættismönnum samstarfsríkja NATO veittir styrkir til þess að fara til NATO-ríkja og afla sér reynslu sem nýst gæti heimalandi þeirra. Ennfremur starfrækir NATO n.k. ráðgjafarþjónustu sem samstarfsríkin hafa nýtt sér við uppbyggingu tölvukerfa.

Árið 1997 var hafin starfræksla sérstaks sjóðs á vegum vísindasamstarfs NATO. Var það afrakstur nokkurra ára undirbúningsvinnu og almennrar endurskoðunar á vísindasamstarfinu, sem miðaði að aðstoð við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Úthlutun úr þessum sjóði tekur einvörðungu mið af tækni- og vísindalegum þörfum samstarfsríkja NATO - aðildarríkjum „Samstarfs í þágu friðar“. Áætlunin nefnist „Vísindi í þágu friðar“ og er meginmarkmið hennar að styðja við bakið á samstarfsþjóðunum, auk Grikklands og Tyrklands, á leið sinni til markaðsbúskapar og umhverfisvænnar framleiðslu.

Dr. Ágúst Valfells, kjarnorkueðlisfræðingur á sæti í nefndinni fyrir Íslands hönd. Þrátt fyrir að vísindastarfi hafi verið gert hátt undir höfði í ráðstjórnarríkjunum var hagnýting þess í þágu almannahagsmuna á margan hátt ábótavant. Vísindanefndin, sem áður hafði stutt sérstaklega við aðildarríki NATO við Miðjarðarhafið, sá því fljótlega eftir kalda stríðið, ríka þörf á að aðstoða samstarfsríkin við enduruppbyggingu. Í ljósi þess að iðnaðar- og umhverfismál austan megin járntjaldsins sem var, voru víða í algerum ólestri, var áherslan lögð á lausnir aðsteðjandi umhverfis- og iðnaðarvanda, með samstarfi yfirvalda og iðnaðar annars vegar, og vísindamanna og neytenda, hins vegar. Sjóðurinn styrkir vandaðar og vel skilgreindar rannsóknaráætlanir til þriggja til fimm ára. Er ætlast til að styrkféð renni til tölvu- og tækjakaupa við þróun nýrrar tækni innan ríkjanna sjálfra, í stað þess að „flytja inn“ nýjungar.

Fjárhagsáætlun vísindanefndarinnar fyrir 1999, gerir ráð fyrir að um hálfur milljarður ísl. króna renni til „Vísinda í þágu friðar“ og er ætlast til að alla vega eitt samstarfsríki og eitt NATO-ríki eigi þátt í samstarfinu. Segja reglur sjóðsins einnig til um hvernig styrkfé skuli skipt og þar kveðið á um að 85% renni til samstarfsríkjanna en afgangurinn til þess NATO-ríkis sem í hlut á.

Nýjasta afsprengi vísindasamstarfsins er loks tvíhliða samstarf NATO-ríkjanna við Rússland. Ákveðið var á síðasta ári að þar eð hlutur og mikilvægi Rússlands í „Vísindum í þágu friðar“ var harla stór, væri hagkvæmast að koma á fót sérstökum sjóði sem tæki á þeim málum sem brýnust væru í rússnesku vísinda- og tæknisamstarfi. Er sjónum aðallega beint að þremur sviðum: Rannsóknum á plasmeðlisfræði, sérstaklega með stór hernaðarmannvirki í huga; rannsóknum í líftækni, sérstaklega plöntulíffræði; og að síðustu grunnrannsóknum á náttúruhamförum, þar sem reynt verður að segja fyrir um jarðskjálfta, skriðuföll og snjóflóð auk þess sem reynt verður að finna leiðir til að draga úr eyðileggingarmætti slíkra hamfara. Ætti þetta samstarf því að vekja sérstakan áhuga íslenskra vísindamanna.

Samstarfið skilar mestu til minni ríkja NATO
Þórður Jónsson, prófessor hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, sem situr fyrir Íslands hönd í vísindanefnd NATO, segir að samstarfið undanfarin 40 ár hafi skilað gríðarlega miklu til bandalagsríkjanna. Á þetta sérstaklega við um minni ríki bandalagsins, eins og Ísland. Fyrir stærri ríkin, eins og Bandaríkin og Bretland t.d., skiptir þetta minna máli þar eð vísindastarf þeirra þjóð er með miklum blóma án þess að til fjölþjóðlegs samstarfs komi. Dreifing styrkja er t.a.m. hvorki í beinu hlutfalli við þjóðartekjur né mannfjölda sem geri það að verkum að úthlutun er mjög hliðholl ríkjum á útjaðri NATO. Ísland leggur ekki til fé til hernaðarútgjalda NATO, heldur einungis til borgaralegra þátta og eru framlög til vísindanefndarinnar tekin af þeim hluta. Nú eru framlög Íslands til NATO um 30 milljónir króna árlega og þar af rennur um ein milljón í sjóði vísindanefndarinnar.

Með nýjum áherslum vísindasamstarfsins hafa vísinda- og námsmönnum frá fyrrum austantjaldsríkjum opnast möguleikar á að stunda rannsóknarstörf á Vesturlöndum. Virðist straumurinn liggja til Bandaríkjanna, en um 40% af öllum námsmönnum samstarfsríkjanna fóru til Bandaríkjanna, árið 1997. Hins vegar hafa einungis um 6% bandarískra náms- og vísindamanna á NATO-styrkjum sóst eftir að komast til Evrópu, og þar af aðeins tæpt hálft prósent til samstarfsríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu. Sömu sögu er að segja af námsmönnum í evrópsku aðildarríkjum NATO. Aðeins um hálft prósent styrkþega hefur farið til samstarfsríkjanna á meðan tæpur þriðjungur hefur farið frá Mið- og Austur-Evrópu til Vestur-Evrópu. Með breyttum áherslum vísindanefndarinnar hefur þetta þó breyst en tölurnar undirstrika hins vegar hversu bágborin aðstaða vísindamönnum samstarfsríkja NATO hefur verið búin og það hve ásókn þeirra í vísindaumhverfi eins og það gerist best, hefur verið mikil.

NATO hefur tekið á þessu vandamáli sérstaklega og liggja fyrir tillögur um að allt að helmingur náms- og vísindastyrkja á vegum þess verði eyrnamerktir fólki á Vesturlöndum sem hyggst stunda rannsóknir á Austur-Evrópu og öfugt. Er eitt höfuðskilyrði styrkveitinganna að um verði að ræða samstarf við kollega í fyrrum austantjaldsríkjum. Verður þetta að teljast til marks um það hversu alvarlega NATO tekur ástandinu í þessum ríkjum og það hve mikill vilji ríkir á bak við áætlanir um umbætur.


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO