Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Hið „mjúka vald“ knésetti andstæðinginn

Vojtech Mastny segir að fara eigi með gát þegar 50 ára afmæli NATO verður fagnað. Það sem áður hafi reynst vel tryggi ekki velgengni í framtíðinni og akillesarhæll herforingja sé sá að þeir séu alltaf að heyja síðustu orrustu. Karl Blöndal ræddi við Mastny um þátt NATO í kalda stríðinu og útkomu þess.

FIMMTÍU ára afmæli Atlantshafsbandalagsins gefur tilefni til hátíðahalda, en menn mega ekki gerast værukærir. Þetta er niðurstaða sagnfræðingsins Vojtechs Mastnys, sem skrifað hefur um kalda stríðið, stundar rannsóknir hjá Woodrow Wilson-stofnuninni í Washington og undirbýr um þessar mundir viðamiklar samhliða rannsóknir á Varsjárbandalaginu og NATO. Hann er þeirrar hyggju að stækkun NATO hafi verið misráðin og heldur fram í grein, sem mun birtast í tímaritinu Foreign Affairs síðar í mánuðinum, að það hafi verið hið „mjúka vald“ bandalagsins, sem knésetti andstæðinginn, auk þess, sem hinn hefðbundni herafli hafi haft meira að segja en kjarnorkuvopnin.

Mastny, sem flúði frá Tékkóslóvakíu til Vesturlanda árið 1962, sendi síðast frá sér bókina „Kalda stríðið og öryggisleysi Sovétmanna“ þar sem hann fjallar um valdatíma Jósefs Stalíns og setur fram þá kenningu að öryggisleysi hafi verið þáttur í eðli hins sovéska kerfis.

Kerfinu var komið á í byltingu minnihlutahóps og öryggisleysi fylgdi valdhöfunum,“ sagði Mastny í samtali við Morgunblaðið í Washington. Þetta átti við bæði inn á við og út á við. Inn á við var það spurningin um hugmyndafræði baráttunnar, út á við fannst Sovétmönnum þeir vera umsetnir og aðþrengdir og þeir sáu til þess að sú varð raunin.“

Rangt stöðumat
Mastny sagði að Sovétmenn hefðu að vissu leyti lesið stöðuna vitlaust. Vestrið hefði ekki verið svo andvígt þeim í heimsstyrjöldinni síðari. Óvild í garð Sovétmanna hefði hins vegar orðið að veruleika eftir að kalda stríðið hófst, einkum vegna þess með hvaða aðferðum Stalín taldi sig þurfa að tryggja öryggi Sovétríkjanna.

Ef til vill var tækifæri til að beina sögunni inn á aðra braut,“ sagði Mastny. Ef Stalín hefði ekki verið Stalín.“

Hann kvaðst ekki hafa rekist á mikið um Ísland í skjölum sínum, en þó vissi hann að Sovétmenn hefðu fyglst grannt með gangi mála þegar vinstri stjórnin komst til valda árið 1956. „Um það leyti voru Sovétmenn að reyna að reka fleyg á milli Norðurlandanna og NATO,“ sagði hann. „Norðurlöndin voru veiki bletturinn í bandalaginu og Sovétmenn reyndu að notfæra sér það.“

Töldu ekki nauðsynlegt að bregðast við NATO
Mastny segir í grein sinni, sem hann góðfúslega gaf leyfi til að vitna í, þótt hún væri óbirt, að þegar litið sé á lykilatriðið við stofnun NATO sýni þau skjöl, sem komin séu fram, að Sovétríkin hafi aldrei ráðgert tilefnislausa árás á Vestur-Evrópu. Þá hafi ráðamenn í Kreml haft rétt fyrir sér þegar þeir komust að þeirri niðurstöðu í upphafi að ekki væri mikið spunnið í NATO sem bandalag. Stalín hefði ekki einu sinni talið nauðsynlegt að bregðast við með því að stofna bandalag gegn NATO, hvað þá að auka framlög til varnarmála.

Hann segir að fyrstu árin eftir að NATO var stofnað hafi Sovétmenn litið svo á að bandalagið væri verkfæri Bandaríkjamanna til að tryggja yfirráð yfir Vestur-Evrópu og koma í veg fyrir hrun kapitalismans, fremur en árásartæki til að knésetja kommúnistakerfið í Austur-Evrópu. Þeir hafi einnig verið vissir um að NATO yrði ekki langvinnt.

Blessun að njósnarar voru í innsta hring
Mastny er þeirrar hyggju að það hafi verið blessun að sovéskir njósnarar voru í innsta hring í NATO, þótt það kunni að hljóma kaldhæðnislega. Stalín hafi vitað allt, sem hann þurfti að vita, um fyrirætlanir NATO og getu. Þótt Stalín hafi ætíð verið tortrygginn og þar af leiðandi ekki reitt sig á að vestrið væri ekki að leggja á ráðin um að blása til aðgerða gat hann verið viss um að sú árás var ekki yfirvofandi: „Það skipti höfuðmáli að þær upplýsingar, sem bárust honum úr helgustu véum NATO, yrðu honum hvatning til að hefja ekki fyrirbyggjandi stríð, þótt það virtist gerlegt, og fresta fremur slíku stríði um ókominn tíma.“

Mastny bendir einnig á að hefðu Sovétmenn gert árás hefði hún orðið mun minni í sniðum, en gert var ráð fyrir í árlegu „Mati á styrk Sovétmanna og getu“, sem NATO gerði á árunum 1950 til 1955. Samkvæmt mati bandalagsins voru Sovétmenn tilbúnir til að gera árás samtímis á Norður-, Vestur- og Suður-Evrópu, Bretland, Norður-Afríku, Mið-Austurlönd, Austurlönd fjær og meira að segja Norður-Ameríku og myndu engu að síður eiga herafla til að verja föðurlandið. „Var vísvitandi búin til ímynduð ógn til að halda bandalaginu saman eins og sumir gagnrýnendur NATO hafa haldið fram?“ spyr hann.

Með NATO var slegið á freistingar
Mastny vill hins vegar ekki ganga svo langt að segja að stofnun NATO hafi verið óþörf og bendir á að með því að stofna NATO megi segja að slegið hafi verið á allar freistingar, þótt Sovétmenn hafi ekki verið búnir að skipuleggja árás. Hann bendir á að Stalín hafi ekki staðist þá freistingu að gefa Kim Il Sung, leiðtoga kommúnista í Norður-Kóreu, grænt ljós til að ráðast inn í Suður-Kóreu, enda hafi ekki verið neitt varnarbandalag í Asíu. Í þokkabót stæði kommúnistastjórnin í Norður-Kóreu enn, rétt eins og kalda stríðinu hefði aldrei lokið.

Afstaða Stalíns til NATO breyttist þegar Kóreustríðið leiddi til uppbyggingar NATO og líklegt varð að Vestur-Þjóðverjar gengju í bandalagið, segir Mastny. Stalín fylltist skelfingu og fannst það að Bandaríkjamenn vildu að Þjóðverjar yrðu þátttakendur í hernaðarskipulagi vestursins allt annað en róandi. Hann segir að Krústsjov hafi tekið aðild Þjóðverja af meiri rósemi, en hins vegar hafi hugmyndir um að þeir fengju aðgang að kjarnorkuvopnum valdið honum áhyggjum, hvað sem yfirlýsingum Bandaríkjamanna leið, og verið meginástæðan til að hann reyndi að bola bandamönnum burt frá Berlín árið 1958. Krústsjov fékk ekki allt sem hann vildi þegar hann kom Berlínardeilunni af stað, en sú staðfesting á skiptingu Þýskalands, sem fylgdi Berlínarmúrnum, leiddi til aukins stöðugleika og á endanum til þess að pólitísk þíða var sett ofar en hernaðaruppbygging.

Höfðu ekki áhyggjur af NATO 1956 og 1968
Mastny segir að gögn um skoðanaskipti í æðsta valdahring Kremlar sýni að þegar innrásin í Ungverjaland var gerð 1956 hafi litlar áhyggjur verið af NATO og bandalagið vart verið nefnt. Engu að síður hafi Dwight Eisenhower, forseti Bandaríkjanna, séð ástæðu til að segja Sovétmönnum að NATO myndi ekkert aðhafast nema sovéski herinn gæfi tilefni til gagnaðgerða. Hann segir að bandalagið hafi heldur ekki haft áhrif á ákvörðunina um að gera innrás í Tékkóslóvakíu 1968, enda hafi helstu embættismenn NATO verið sendir í frí til þess að Sovétmenn gætu ekki notað bandalagið sem yfirskin fyrir innrás. Þegar Sovétmenn ákváðu að fullvissa vesturlönd um að þeir væru ekki að láta til skarar skríða gegn NATO voru boðin send til Lyndons Johnsons Bandaríkjaforseta, en ekki framkvæmdastjóra NATO, sem sýni hver hin raunverulega valdaskipan hafi verið.

Óttuðust pólitískar afleiðingar innrásar í Pólland
Mastny segir að bandalagið hafi skipt meira máli í innrásinni, sem ekki átti sér stað þegar Samstaða lét að sér kveða í Póllandi 1980 til 1981. Ástæðan hafi hins vegar ekki verið sú að ráðamenn í Moskvu óttuðust hernaðarmátt NATO, þeir hafi talið að pólitískur kostnaður af að beita valdi væri of mikill. Þeir hafi ekki viljað fórna þíðunni og óttast afleiðingar efnahagslegra og pólitískra refsiaðgerða af hálfu vestursins.

Mastny sagði í samtalinu við Morgunblaðið að Rússland væri veikt um þessar mundir sama hvaða mælistika væri notuð. Því skipti í raun ekki máli hver afstaða Rússa væri til stækkunar NATO fyrir utan það að kjarnorkuvopn þeirra gætu fallið í rangar hendur.

„Það er því aukaatriði að halda því fram að ekki eigi að stækka NATO vegna Rússa,“ sagði hann. „Hins vegar er spurning hvort stækkun NATO varði tilveru bandalagsins. Eftir því sem bandalagið verður stærra verður erfiðara að knýja fram einingu. Aðalatriðið er það að verið er að beina athyglinni að röngu svæði. Það hefur aldrei verið jafn friðvænlegt fyrir þessi ríki. Hættan er í suðri og það á að einblína á þau svæði, sem skipta máli. Aðild að Evrópusambandinu skiptir þessi ríki meiru en aðild að NATO auk þess sem þau þau þurfa á peningum að halda til annarra hluta en að kaupa vopn.“

Slæmt að friðarsamstarfi NATO var ýtt til hliðar
Mastny er þeirrar hyggju að friðarsamstarf NATO hafi verið tilefni til bjartsýni og gefið von um að það framtak myndi breiða út um Austur-Evrópu og jafnvel til fyrrverandi Sovétlýðvelda í Asíu helsta kost NATO og kenna hvernig eigi að tryggja öryggi með lýðræðislegum hætti.

„Fremur en að fylgja þessu framúrskarandi verkefni eftir leyfði bandalagið hugmyndinni um að fjölga aðildarríkjum að afvegaleiða sig með þeim afleiðingum að friðarsamstarfinu var vikið til hliðar,“ segir hann. „Stækkun hefði verið fagnað ef þar hefði verið átt við útvíkkun til að taka á nýjum ógnunum við öryggi utan hins upprunalega svæðis, sem heyrði undir NATO. Þess í stað hefur verið verið farið út í stækkun með því að hleypa inn nýjum félögum frá sama svæði, svæðinu þar sem kalda stríðið hófst og því lauk og þær ógnir, sem NATO var stofnað til að bregðast við, eru aðeins áberandi vegna þess að þær eru ekki lengur til staðar.“

Mastny sagði að það væri vissulega ástæða til að fagna á 50 ára afmæli NATO, en menn mættu ekki sofna á verðinum.

Máttur hins mjúka valds
„Það má ekki gleyma því að það reyndi aldrei á það hvort NATO réði við það verkefni, sem bandalagið var stofnað til að vinna,“ sagði Mastny. „Það reyndi aldrei á bandalagið í átökum í kalda stríðinu og því munum við aldrei vita hvernig það hefði reynst. Spurningin, sem ég set fram í grein minni, „Sigraði NATO kalda stríðið?“, vísar til nokkurra þátta. Það reyndi aldrei á bandalagið. En NATO náði einnig árangri vegna hins mjúka valds. Þar á ég við fordæmi NATO, sem Varsjárbandalagið reyndi að fara eftir. Litlu ríkin í Varsjárbandalaginu vísuðu til dæmis til NATO til þess að krefjast þess að vera meðhöndluð sem samstarfsaðilar. Það má ekki horfa fram hjá því að í NATO þurfti að sætta sjónarmið allt frá Íslandi til Tyrklands. Hvað hernaðarmáttinn varðar tel ég að kjarnorkuþátturinn hafi ekki haft mikið að segja, sérstaklega ekki langdrægu eldflaugarnar. Hefðbundni þátturinn bar hins vegar árangur. Það er vitað að framfarir í þróun hátæknivopna höfðu áhrif og þau voru komin fram áður en farið var að tala um geimvarnaáætlunina í forsetatíð Ronalds Reagans. Þá má ekki gleyma áherslu Vesturlanda á mannréttindi, sem hafði sín áhrif á austrið.“


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO