Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Eina öryggistækið sem virkar

Atlantshafsbandalagið er eina tækið sem virkar til að tryggja öryggi á átakasvæðum í Evrópu; Sameinuðu þjóðirnar geta ekki sinnt því hlutverki. Þetta kemur fram í viðtali Kristjáns Jónssonar við Davíð Oddsson forsætisráðherra.

DEILURNAR um Atlantshafsbandalagið og varnarliðið voru lengi hatrammar hérlendis en minna hefur farið fyrir þeim eftir að kalda stríðinu lauk. Enn sjást ummerki þeirra samt víða, meðal annars telja margir þær endurspeglast í vandræðum Samfylkingarinnar með að koma sér saman um stefnu í utanríkis- og varnarmálum. Davíð Oddsson forsætisráðherra var spurður hvort hlutverk Atlantshafsbandalagsins hafi að hans áliti breyst í grundvallaratriðum frá 1949 og hvernig hann teldi framtíðarhorfur þess vera á næstu árum.

„Ég held að meginhlutverk NATO sé enn það sama og þess vegna hafi ríki eins og Tékkland, Ungverjaland og Pólland beðið um að fá að ganga í bandalagið. Þau vildu tryggja öryggi sitt í Evrópu.

Óvinurinn herskái og ógnvekjandi er ekki lengur sá sami, nú er aðalandstæðingurinn óvissa og óöryggi. Það gefur auðvitað ákveðið svigrúm að kommúnisminn er hruninn. Þess vegna hefur NATO farið út í það að styrkja öryggiskenndina með meira samstarfi við fyrri úóvini“ og það hefur breytt eðli bandalagsins.

Í annan stað hefur komið á daginn að Sameinuðu þjóðirnar ráða ekki við að stöðva átök eins og í Bosníu og nú Kosovo. Þess vegna kemur NATO þar til sögunnar og auðvitað mun bandalagið, sem eina tækið í þessum efnum sem virkar í þessum heimshluta, taka að sér víðtækara hlutverk, það er enginn vafi á því.

Ég á ekki von á því að það muni láta til sín taka utan Evrópu enda væri það mjög stórt skref. Að vísu verður að viðurkenna að í Persaflóastríðinu var NATO burðarásinn, herflugvellir þess voru notaðir og skipulag, það var ekki annað skipulag til.“

Breytt framlag Íslands
Íslendingar hafa lagt til land undir herstöð Atlantshafsbandalagsins en lítið annað þar til á allra síðustu árum. Mun framlag okkar til bandalagsins enn aukast í framtíðinni? Verður hér til vísir að her, ef til vill aðeins táknrænum?

„Það er merkilegt að eftir að hlutverk bandalagsins breyttist höfum við komið inn í starfið með öðrum og fjölbreyttari hætti. Þegar bandalagið var nánast eingöngu varnarbandalag sem átti að bregðast við áreiti í garð aðildarríkjanna höfðum við ekki mikið annað fram að færa en góð orð, lýðræðisást og land. Við tryggðum með samningum við Bandaríkjamenn að leiðin yfir hafið væri opin.

En eftir að friðargæsla og þess háttar verkefni eru orðin öflugri þættir á vettvangi NATO höfum við stóraukið þátttökuna á okkar mælikvarða. Þetta höfum við gert bæði með því að senda til friðargæslu fólk úr heilbrigðisstéttum og löggæslumenn, fólk sem starfar í röðum hersveita Dana, Norðmanna og nú síðast Breta en með íslenskan fána á einkennisbúningnum.

Auk þess höfum við staðið fyrir og lánað land undir æfingar hér, m.a. umfangsmikla æfingu vegna náttúruhamfara. Það var árið 1997 og þar tóku meðal annars þátt menn úr sveitum fyrrverandi Varsjárbandalagsríkja, Eystrasaltslanda og Rússlands sem var mikil nýbreytni. Við höfum boðist til að halda aðra, sambærilega æfingu hér árið 2000. Við erum þannig orðin mun virkari en áður í þessu samstarfi.

Fólkið okkar í herjunum sem ég nefndi stundar ekki neinn vopnaburð, það er í hinum friðsama hluta aðgerðanna og það er mikils metið. Ef við eyddum einhverjum hundraðshluta af tekjum okkar í landvarnir myndi það varla skipta miklu máli. Það er því ekki raunhæft að hugsa um íslenskan her en við þurfum auðvitað að hafa hér ákveðinn viðbúnað eins og víkingasveitir lögreglunnar og sæmilega burðuga landhelgisgæslu.

Við erum að stíga viss skref með nýja varðskipinu sem verður útbúið þannig að það uppfyllir þær kröfur og staðla sem Atlantshafsbandalagið gerir um samstarf. Þetta eykur kostnaðinn við skipið um nokkur hundruð milljónir.“

Tekjurnar af varnarliðinu hafa verið miklar en við höfum sloppið við bein útgjöld til hermála. En Davíð segir að alltaf hafi verið lögð áhersla á að við séum ekki í þessu samstarfi vegna teknanna.

„Við höfum aldrei beðið um leigugjöld fyrir afnot af landi fyrir herstöðina eins og gert hefur verið sums staðar. Varnarstöðin er í senn útvörður NATO í norðri, útvörður Bandaríkjanna í austri og vörn fyrir okkur. Tekjurnar skiptu meira máli þegar þjóðartekjurnar voru minni og herstöðin var stærri, umsvifin þar hafa minnkað um 25% á seinni árum. Samt hafa lífskjör hér batnað þannig að tekjurnar af hernum skipta varla miklu máli núna.“

Hvað með Suðurnesin og atvinnuhorfur þar? Hefur herinn haft að einhverju leyti slæm áhrif á atvinnuþróun og efnahagsmál hér?

„Það held ég ekki. Suðurnesin hafa alveg haldið sínum styrk þótt umsvifin minnkuðu um 25%. Dálítill afturkippur varð og atvinnuleysi jókst um skeið. Þá var líka erfið kreppa hér af öðrum ástæðum en Suðurnesin hafa alveg haldið sínum hlut síðan.

Þetta var ekki stærri þáttur í efnahagnum en svo og ég held að það hafi verið af einlægni sagt þegar fullyrt var að efnahagslegi þátturinn réði ekki úrslitum um afstöðu okkar. En ef eitthvað þarf að gera af nauðsynlegum öryggisástæðum þykir mönnum að sjálfsögðu gott að það skili einhverju í þjóðarbúið.

Ákveðnir þættir í starfsemi varnarstöðvarinnar gætu farið héðan ef þetta væri eingöngu þáttur í vörnum Bandaríkjanna. Ég nefni flugsveitirnar og þyrlurnar, það er auðvitað ekki lífsnauðsynlegt fyrir Bandaríkin að þessi hluti búnaðarins sé hér. Viðvörunartíminn vegna átaka er svo langur núna. En það er hins vegar lífsnauðsynlegt fyrir Ísland. Viðurkennt hefur verið í nær 50 ár að stöðin sé hér fyrir varnir beggja landanna og því getur flugflotinn ekki farið héðan. Þetta viðurkenna Bandaríkjamenn einnig.

Þeir sem fullyrða að við séum að halda hér í liðið en Bandaríkjamenn vilji fara hafa ekkert fyrir sér í því. Það sem hins vegar er rétt er að Bandaríkjamenn hafa aðra skoðun á því en við hvort nóg sé að hingað komi herflugvélar á tveggja eða þriggja daga fresti en það gefur augaleið að slík tilhögun uppfyllir ekki öryggiskröfur Íslendinga.

Báðir eru hins vegar alveg sammála um að hafa hér áfram varnarstöð, eftirlit með kafbátaferðum og annan viðbúnað. Ekkert getur komið í staðinn fyrir þennan völl í þeim efnum og hvorki þeir né við gera ráð fyrir að umsvifin minnki frá því sem nú er.“

Áhrif á Madrid-fundi
Ísland er fámennasta aðildarþjóð Atlantshafsbandalagsins, stundum er notað hér orðið dvergþjóð, en höfum við raunveruleg áhrif þar?

„Ég nota aldrei sjálfur þetta orð og hef fundið að því þegar opinberir aðilar hafa gert það. Við erum ekki kallaðir það af öðrum þjóðum og hví ættum við þá að fara að gera það sjálf?

Erlendar þjóðir gera engan mun á okkur og t.d. Dönum eða Norðmönnum í þessu samstarfi, við erum þar jafngildar þjóðir. Þessar þjóðir geta ekki lagt fram mikið meira en við. Þær hafa að vísu her en miðað við átök í nútímanum er það málamyndaher.

Við höfum haft umtalsverð áhrif og haft góða menn á þessum vettvangi. Þegar málin eru rædd fáum við jafnlangan tíma og aðrir. En stærstu þjóðirnar hafa auðvitað meiri áhrif vegna þess að framlag þeirra er meira.“

Á leiðtogafundinum í Madrid árið 1997 var ákveðið að veita þrem þjóðum í Austur-Evrópu, Pólverjum, Tékkum og Ungverjum, aðild að bandalaginu þegar árið 1999. Frakkar og fleiri aðildarþjóðir vildu eindregið að tvær þjóðir að auki fengju aðild, Slóvenar og Rúmenar, en Bandaríkjamönnum fannst það of viðamikið. Fyrst yrði að sjá hvernig gengi að taka áðurnefndar þrjár þjóðir inn. Aðrir bentu auk þess á að með því að taka inn þessar fimm þjóðir væri óbeint verið að senda þau skilaboð að fyrrum sovétlýðveldi eins og Eystrasaltsríkin væru í reynd útilokuð.

„Á þessum fundi kom það mjög greinilega fram að við getum haft áhrif og ég tel að sagan muni sýna fram á það,“ segir Davíð. „Þess hefur oft verið látið getið, t.a.m. af hálfu Bandaríkjamanna og einkum forseta þeirra.

Meðan málin voru þar enn á viðkvæmu stigi og niðurstaðan óljós áttum við sameiginlegan fund, Íslendingar, Norðmenn, Danir og Bretar, og samræmdum stefnu okkar. Þetta var að kvöldi til í garði hallar spænska forsætisráðherrans í Madrid. Ég get ekki rakið ummæli einstakra manna, það er ekki venjan og varla heimilt enn þá en í framhaldinu var ákveðið að Blair færi og skýrði Clinton strax um kvöldið frá afstöðu okkar, þ.e. að Eystrasaltslöndin yrðu nefnd í yfirlýsingunni, dyrunum yrði haldið opnum fyrir þau. Jafnframt að önnur ríki kæmust með engum hætti fram fyrir þau fyrir utan þessi þrjú, Pólland, Tékkland og Ungverjaland, sem þegar var búið að samþykkja. Þessi afstaða okkar Íslendinga til inngöngu nýrra þjóða hafði verið kynnt opinberlega áður en afstaða Bandaríkjamanna lá fyrir.

Það var mikil óvissa um hvað gera bæri, nokkuð sem menn höfðu ekki þurft að takast á við á NATO-fundi áður. Þegar Kohl Þýskalandskanslari eiginlega hjó á hnútinn gagnvart Frökkum og fleiri þjóðum sagði hann að menn yrðu að gera sér grein fyrir því að lengra yrði ekki komist vegna þess að úNorðurlöndin þrjú“ myndu ekki sætta sig við aðra niðurstöðu en þau höfðu kynnt.

Þetta var blokkamyndun, það er rétt. Það var ljóst að fyrir NATO hefði verið mjög slæmt ef Bandaríkin hefðu staðið ein, hugsanlega þó með Bretum, en allar hinar þjóðirnar meira eða minna hinum megin. Það skipti því miklu máli á hvora sveifina Norðurlöndin hölluðu sér. Ég vil halda því fram að það hafi ekki síst verið framganga Íslands á fundum utanríkisráðherranna áður og síðar leiðtogafundum sem hafi átt stóran þátt í því að móta þessa sameiginlegu stefnu ríkjanna þriggja.“

Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og herstöðvasamningurinn við Bandaríkjamenn klauf á sínum tíma þjóðina og þung orð eins og landráð og landsala féllu á báða bóga. Forsætisráðherra er spurður hvort hann telji að þessar deilur séu enn mjög mikilvægar í íslenskum stjórnmálum. Eru sárin nú að gróa?

„Þessi mál virðast ekki skipta eins miklu máli og áður en ég geri ráð fyrir að þeirra sjái enn stað víða í þjóðarsálinni.

Það er hins vegar athyglisvert að þeir sem voru á móti varnarliði hér og verunni í NATO héldu því fram að um sjálfstæðismál væri að ræða, að þjóðernið væri í húfi. Þetta hefði ekkert með afstöðuna til Rússlands eða kommúnismans að gera. En um leið og þessi ríki misstu fótanna hvarf andstaðan. Áfram er her hér, áfram eru þjóðernissjónarmiðin hér en af hverju eru þau ekki lengur jafn gild? Það eina sem hefur horfið eru hagsmunir Rússlands og kommúnismans en með þeim hvarf andstaðan. Þetta segir mér heilmikla sögu.

En hins vegar er ég sannfærður um að hér er og var margt fólk sem var andsnúið hernum og NATO af heiðarlegum ástæðum, með heiðarlegum rökstuðningi og jafnvel af heilbrigðri ættjarðarást. Því fannst þetta vera fjötur og helsi á landinu.

Það eru óheilindi í málatilbúnaðinum. Margrét Frímannsdóttir, talsmaður Samfylkingarinnar, segir nú að óþarft sé að hafa hér her og óþarft að vera í NATO af því að það sé orðið svo friðvænlegt í heiminum. Þetta hljómar ágætlega. En hvernig stóð þá á því að hún var á móti því að hafa hér her og vera í NATO þegar ófriðvænlegt var i heiminum? Rökin eru nú að allt sé orðið svo friðsælt, kommúnisminn hruninn og kalda stríðið búið, hvers vegna var hún þá á móti meðan kalda stríðið geisaði? Það vantar eitthvað inn í þessa röksemdafærslu þeirra, eitthvað hefur tapast á leiðinni.

Ég er hins vegar hlynntur NATO og veru hersins og var það í kalda stríðinu, og gæti því, ólíkt Margréti, sagt að nú sé stríðið búið og þess vegna ætti herinn að fara, án þess að það væri rökleysa af minni hálfu.“

Innrásin '68 dugði flestum
Davíð er svonefndur 68-kynslóðarmaður, af kynslóðinni sem setti spurningarmerki við flest sem eldri kynslóðin fullyrti þá. Hefur hann alltaf verið stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins og hersins?

„Ég hugsaði nú ekkert mikið um þessi mál fyrir tvítugt. En eftir innrás Varsjárbandalagsríkjanna í Tékkóslóvakíu í ágúst 1968 var ég ekki í neinum vafa.

Auk þess man ég að þegar ég var átta ára gamall vakti ég um nóttina með mömmu minni og ömmu þegar Rússar réðust á Ungverjaland 1956. Undir morgun sannfærðu þær mig loks um það að Eisenhower Bandaríkjaforseti myndi senda her og verja Ungverja, sem ekki reyndist nú rétt hjá þeim. En ég fór grátandi í rúmið. Maður skynjaði alltaf þessa hættu.

Löngu seinna las ég svo að bandaríski forsetinn hefði fullvissað Rússa um að hann myndi láta þetta afskiptalaust, þetta væri á þeirra yfirráðasvæði.

Á menntaskólaárum mínum var enginn með viti í vafa eftir ágúst '68. Menn höfðu í nokkur ár talið að það væri að verða friðvænlegra í heiminum en þetta var svo grímulaus árás að hún nægði til að sannfæra menn um að enn væri nauðsynlegt að halda vöku sinni.“

Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra: úEn eftir að friðargæsla og þess háttar verkefni eru orðin öflugri þættir á vettvangi NATO höfum við stóraukið þátttökuna á okkar mælikvarða.“


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO