Sagan Ísland Viðtöl Með eigin orðum Samstarfið |
Upplýsingamiðlun NATO Víðtæk starfsemi á Íslandi
Samhliða því sem Magnús sinnti störfum sem upplýsingafulltrúi NATO á Íslandi var hann framkvæmdastjóri áhugamannafélaganna tveggja um vestræna samvinnu, Varðbergs og SVS. Var Magnús einn þekktasti málsvari Atlantshafsbandalagsins á Íslandi á sinni tíð. Á vegum Varðbergs og SVS er haldinn fjöldi fyrirlestra á ári hverju og eru jafnan fengnir til þess hæfustu sérfræðingar hérlendir sem erlendir. Atlantshafsbandalagið gefur út á Íslandi NATO-fréttir auk þess sem tímaritið Viðhorf er gefið út á vegum Varðbergs og SVS. Er það einn helsti vettvangur samtímaumræðu um íslensk varnar- og öryggismál. Þá hefur skrifstofan sent menn í skóla landsins og á fundi félagasamtaka til að kynna starfsemi NATO og hugmyndafræðina að baki þess. Á skrifstofunni er og að finna kynningarmyndir og annað fræðsluefni frá bandalaginu. Núverandi starfsmaður upplýsingaskrifstofunnar er Dagný Erna Lárusdóttir. Að sögn hennar hefur mjög færst í vöxt á síðustu árum að ungt fólk sækist eftir upplýsingum um NATO og stór hópur ungs fólks fer á hverju ári á eigin vegum til höfuðstöðva bandalagsins í Brussel til að kynnast starfseminni þar. Einnig eru farnar ferðir á vegum skrifstofunnar með þátttöku m.a. stjórnmálamanna, fréttamanna og kennara. Morgunblaðið |
NATO |