Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Afstaða Rússa til Bandaríkjanna hefur tekið stakkaskiptum

„Nú hafa þeir glatað Rússlandi“

Vladislav Zubok sagnfræðingur telur að Atlantshafsbandalagið hafi ekki leikið lykilhlutverk í að knésetja Sovétríkin og segir framtíðarsýn vera ábótavant í samskiptum þess við Rússa nú. Karl Blöndal ræddi við hann í Washington.

„SAGNFRÆÐINGAR eru litlir spámenn,“ segir Vladislav Zubok, sérfræðingur í kalda stríðinu og annar höfunda bókarinnar „Kalda stríð Kremlar séð innan frá“. Hann reyndist hins vegar sannspár um eitt atriði daginn, sem blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við hann. „Við höfum þó stundum rétt fyrir okkur,“ sagði hann þegar honum var sagt að Jevgení Prímakov, forsætisráðherra Rússlands, hefði ákveðið aflýsa heimsókn sinni til Bandaríkjanna og snúa aftur til Rússlands á miðri leið vegna yfirvofandi árása á Slobodan Milosevic, forseta Serbíu. Zubok sagði að meðferð Bandaríkjamanna á Rússum væri sér áhyggjuefni og setti strik í reikninginn þegar staðan væri metin á 50 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins.

Zubok er rússneskur, en fór frá Rússlandi þegar Sovétríkin liðuðust í sundur. Hann sá fram á að geta ekki lagt stund á fræðin þar vegna skorts á peningum, en í Bandaríkjunum gæti hann framfleytt sér með rannsóknum. Hann stundar um þessar mundir rannsóknir hjá skjalasafni, sem kennt er við þjóðaröryggismál, í Washington og vinnur að nýrri bók um kalda stríðið. Hann var spurður um NATO og sambandið milli vesturs og austurs.

„Fyrsta spurningin er hvers vegna Stalín stofnaði ekki Varsjárbandalagið árið 1949 þegar NATO var stofnað,“ sagði hann. „Ég held að hann hafi ekki séð neina þörf, hvorki pólitíska né hernaðarlega.“

Varsjárbandalagið svar við inngöngu Þjóðverja í NATO
Hann sagði að ákvörðunin um að mynda Varsjárbandalagið hefði verið tekin þegar Sovétmönnum varð ljóst að þeir myndu ekki geta komið í veg fyrir að Vestur-Þýskaland yrði hluti af NATO 1955. Eftir dauða Stalíns hefði hin pólitíska ástæða bæst við vegna breyttra samskipta við leppríkin í Austur-Evrópu. Það hefði ekki þurft á meðan Stalín lifði vegna þess tangarhalds, sem hann hafði, en að honum gengnum hefðu Sovétmenn fundið fyrir þörfinni til að það yrði komið formlegri skipan á veru sovéskra hermanna í Austur-Evrópu. Á Vesturlöndum hefði verið litið á stjórnir þessara ríkja sem leppa Sovétríkjanna, en oft hefðu þau haft sín áhrif á gang mála í Kreml og einingin var ekki alltaf til staðar.

Hryllti við þegar Kúbudeilan kom upp
„Nú eru komin fram gögn sem sýna að leiðtoga bandamanna Sovétmanna í Varsjárbandalaginu hryllti við þegar deilan vegna sovéskra kjarnorkuflauga á Kúbu kom upp,“ sagði hann. „Þegar komið var fram á 1964 höfðu Rúmenar hlaupist undan merkjum í Varsjárbandalaginu og Bresjnev vissi að hann gæti ekki treyst öðrum ríkjum bandalagsins. Þá ákvað hann að reyna að treysta böndin efnahagslega með COMECON. Því fylgdi að Sovétmenn voru farnir að treysta á austur-þýska og tékkneska framleiðslu. Þessi tilraun til að skapa einingu mistókst hins vegar og má þar nefna hluti á borð við tölvutækni. Sovétmenn treystu á það að Austur-Þjóðverjar yrðu Silicon-dalur ráðstjórnarríkjanna en það brást.“

Zubok sagði að Sovétmönnum hefði tekist að halda í horfinu þegar bundinn var endi á vorið í Prag árið 1968, en þegar Samstaða kom á sjónarsviðið í Póllandi árið 1980 hefði staðan verið orðin önnur.

Hefðu ekki skorist í leikinn gegn Samstöðu
„Á yfirborðinu hafði ekkert breyst, en undir niðri voru brestir,“ sagði hann. „Sovétmenn gátu ekki lengur séð Austur-Þýskalandi fyrir olíu. Hráefni var farið að skorta. Þegar árið 1980 hafði verið ákveðið í Kreml að ráðast ekki inn í Pólland þótt Samstaða kæmist til valda. Það er nú komið fram, en Sovétmenn reyndu engu að síður að telja Pólverjum trú um að þeir myndu láta til skarar skríða. Jaruzelsky fékk ekki að vita af þessari ákvörðun og honum var sagt að sjá sjálfur um að bregðast við. Þegar hann ákvað að biðja um aðstoð árið 1981 var honum neitað.“

Hann sagði að enn hefðu átt sér stað breytingar þegar Mikhail Gorbatsjov komst til valda. Hann hefði sagt leiðtogum Varsjárbandalagsins að Sovétmenn myndu ekki skerast í leikinn til að verja þá gegn þjóðfélagshræringum. Varsjárbandalagið hefði tekið hröðum breytingum eftir að Gorbatsjov hefði komist til valda og eftir Reykjavíkurfund Sovétleiðtogans og Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta árið 1986 hefði hernaðarstefnu þess verið breytt. Sumarið 1987 samþykkti Varsjárbandalagið að tilgangur þess væri að snúast til varnar ef herir NATO gerðu árás.

Lykilákvörðun sem fáir veittu athygli
„Þessi ákvörðun var opinber, en fáir veittu henni athygli,“ sagði Zubok. „Upplýsingarnar lágu fyrir, en lítið var úr þessu gert, en hin nýja hernaðarstefna vakti bæði ugg og óeiningu meðal valdhafa í ríkjum Austur-Evrópu. Þegar Sovétmenn ákváðu síðan einhliða að draga tilbaka hálfa milljón hermanna án hernaðarlegra umbóta fór skipan mála að riðlast og Varsjárbandalagið hrundi ásamt sovéska hernum, þótt það hafi ekki verið óhjákvæmilegt.“

Zubok kvaðst vera þeirrar hyggju að Atlantshafsbandalagið hefði átt þátt í því að halda ráðstjórnarríkjunum í skefjum með innilokunarstefnunni, en það væri orðum aukið að segja að bandalagið hefði leitt til þess að austurblokkin hrundi. Menn á borð við George Kennan, sem var frumkvöðull af hinni svokölluðu innilokunarstefnu, hefðu verið þeirrar hyggju að Sovétríkin myndu líta inn á við og umbætur eiga sér stað en í ljósi sögunnar væri það óskhyggja.

„Það þurfti ótrúlegar tilviljanir til,“ sagði Zubok. „Og sovéskir ráðamenn gátu aðeins sjálfum sér um kennt. Þeim mistókst að búa til efnahagslegan grunn til að tryggja viðgang austantjaldsríkjanna. Eins og Gorbatsjov sagði: úVið vorum orðnir þreyttir hver á öðrum, það var best að búa í sitt hvorri íbúðinni um sinn.“ Varsjárbandalagið var fremur orðið byrði en að akkur væri af því.“

Hann sagði að það hefði hins vegar verið rangt af Gorbatsjov að láta Austur-Evrópu svo auðveldlega af hendi. Til staðar hefðu verið mikilvæg viðskipta- og efnahagssambönd og þau hefði verið hægt að varðveita.

Afstaða Rússa breyst frá 1991
Zubok sagði að afstaða Rússa til NATO hefði tekið gagngerum breytingum frá 1991. Þá hefði enginn talið að ógn stafaði af NATO. Nú væri svo komið að Prímakov forsætisráðherra vildi ekki láta bendla sig við gerðir bandalagsins. Hann benti á að Prímakov tilheyrði miðjunni í rússneskum stjórnmálum og bætti við að það væri skynsamlegt af honum að vilja nýta skoðanamun meðal bandamanna og draga úr áhrifum af valdastöðu Bandaríkjanna. Eftir að ákveðið hefði verið að stækka NATO litu Rússar svo á að yfirburðir Bandaríkjamanna væru óæskilegir og Rússar í stöðu undirmálsríkisins. Rússar hugsuðu enn eins og stórveldi, en þarna væri um meira en fortíðarþrá að ræða. Öllu heldur litist þeim ekki á þá framtíðarsýn, sem blasti við. Þeir hefðu áhyggjur af því að þenslunni væri ekki lokið, yfirráðasvæði vestursins myndi teygjast til gömlu Sovétlýðveldanna.

„Bandaríkjamenn halda sínum umtalsverðu áhrifum, en segja að Rússar eigi ekki að hafa nein áhrif,“ sagði hann. „Um leið er smátt og smátt verið að umkringja Rússland með bandarískum leppríkjum, Bandaríkjamenn setja fram kröfur um að Rússar fylgi ákveðinni forskrift, sem til dæmis Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur fram. Menn kenna ekki aðeins Borís Jeltsín forseta um ófarirnar heldur einnig Bandaríkjamönnum. Það er ekki til vottur af sektarkennd vegna gjaldfallina lána, það er litið svo á að kenna megi vestrinu um.“

Nú hafa Bandaríkjamenn glatað Rússlandi
Zubok sagði að einnig væri ljóst að lýðræði í Rússlandi væri skammt á veg komið: úAlmenningur í Rússlandi ræður ekki þrátt fyrir lýðræðislegt yfirborð,“ sagði hann. „Það fer ekkert á milli mála að núverandi stjórn Bandaríkjanna hefur ekki tekist að ná til Rússa. Hún gekk að því sem vísu að allt sem þyrfti væri Jeltsín og ungu bandarísku hagfræðiséníin. Nú hafa þeir glatað Rússlandi. Í upphafi áratugarins voru Bandaríkjamenn eina heimsveldið og það var í tísku að vera Bandaríkjavinur. Nú eru Rússar gagnrýnir og fullir grunsemda. Það er reyndar enn svo að bandarísk poppmenning nýtur vinsælda, en það er komin fram tortryggni. Það er í lagi að horfa á Bruce Willis, en það þarf hemja Bandaríkin.“

Zubok velti fyrir sér spurningunni hvort fara hefði átt öðru vísi að varðandi NATO, hvort til hefði verið þriðja leiðin: úÞað voru tilhneigingar í tvær áttir,“ sagði hann. „Annars vegar að stækka NATO, hins vegar að auka þátttöku Rússa. 1994 var fullyrt að hægt yrði að gera hvort tveggja. En Rússar sættu sig ekki við að vera í hlutverki þar sem þeir hefðu ekkert að segja, sérstaklega að þeir ættu ekki að fá að hafa áhrif á ákvarðanir NATO. Síðan var því verkefni að auka þátttöku Rússa ýtt til hliðar með tali um að þeir yrðu að uppfylla ákveðin lýðræðisleg skilyrði.“

Stækkunin gerir NATO meðfærilegra fyrir Bandaríkjamenn
Zubok sagði að stækkun NATO með þessum hætti kynni að koma sér vel fyrir Bill Clinton Bandaríkjaforseta. Hin nýju aðildarríki myndu styðja Bandaríkin vegna þess að þau gerðu sér ljóst að þau væru lykillinn að þeirri vernd, sem þau væru að falast eftir með aðild að bandalaginu. Þetta myndi gera NATO meðfærilegra fyrir Bandaríkjamenn, en eftir stæði spurningin um það hvað gera ætti við Rússa.

„Þeir hafa enn stórt og mikið hernaðarbákn og getu til hergagnaframleiðslu,“ sagði hann. „Hvar geta þeir fengið peninga fyrir framleiðslu sína? Í ríkjum á borð við Írak og Líbýu. Svo er spurningin um Kína, risann í austri. Ef NATO er óvinurinn munu Rússar verða að líta til Kína.“

Zubok sagði að þrátt fyrir allt væri stjórn Clintons ekki óvinveitt Rússum. Sennilega væri ekki hægt að finna vinveittari kost fyrir Rússa þegar litið væri á pólitíska umræðu í Bandaríkjunum, þannig að kæmi til breytinga í stefnu Bandaríkjamanna gagnvart Rússum eftir næstu kosningar væri erfitt að spá um hvernig færi fyrir samskiptum ríkjanna: úÞað er hefð fyrir því í Rússlandi að reyna að vinna með hverjum þeim, sem situr við stjórnvölinn í Bandaríkjunum. En gamla kynslóðin er að hverfa af sjónarsviðinu og það er ógerningur að vita hvað sú næsta mun gera.“


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO