Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Stjórn Varðbergs, 1961-1962: Jón R. Guðmundsson, Guðmundur H. Garðarsson, Gunnar G. Schram, Bjarni Beinteinsson, Stefnir Helgason, Einar Birnir, Björn Jóhannsson, Heimir Hannesson, Þór Whitehead, Jóhannes Sölvason, Birgir Ísleifur Gunnarsson og Jón Arnþórsson. Á myndina vantar Björgvin Vilmundarson, Hrafnkel Ásgeirsson og Sigurð Guðmundsson.

Guðmundur H. Garðarsson, fyrsti formaður Varðbergs

Varðberg sneri vörn í sókn

VARÐBERG, félag ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, var stofnað 18. júlí 1961. Að félaginu stóðu ungliðar í Alþýðuflokknum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. „Samstarf flokkanna innan Varðbergs átti sinn þátt í að stuðla að þeirri sátt um utanríkisstefnuna sem ríkt hefur með þeim síðan,“ segir Guðmundur H. Garðarsson, fyrrverandi alþingismaður og fyrsti formaður Varðbergs. Núverandi formaður Varðbergs er Birgir Ármannsson.

Guðmundur H. Garðarsson gekk ungur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Árið 1960 var hann í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna þegar boð barst sambandinu um að tilnefna fulltrúa á 2. þing ungra leiðandi stjórnmálamanna innan NATO, en þingið var haldið í Washington 26. maí til 1. júní 1960. „Þáverandi formaður SUS, Þór Vilhjálmsson fyrrverandi hæstaréttardómari, gerði tillögu um að ég færi á þetta þing. Frá Sambandi ungra framsóknarmanna sótti þingið Jón Rafn Guðmundsson og fulltrúi Sambands ungra jafnaðarmanna var Sigurður Guðmundsson, báðir miklir ágætismenn.“

Eftir fundinn í Washington fengu Íslendingar áheyrnarfulltrúa í framkvæmdastjórn heildarsamtaka ungra lýðræðissinnaðra stjórnmálasamtaka innan NATO og skipaði Guðmundur það sæti fyrstu árin. Í Bandaríkjunum hafði hins vegar kviknað sú hugmynd meðal þremenninganna að stofna samstarfsnefnd ungs fólks um málefni NATO eftir að heim væri komið. „Við ræddum þetta við forystumenn flokka okkar eftir að heim kom og niðurstaðan varð sú að stofna félag. Við vönduðum vel til alls undirbúnings og Varðberg var formlega stofnað ári síðar. Samtök um vestræna samvinnu studdu stofnun félagsins af ráðum og dáð, undir forystu Péturs Benediktssonar bankastjóra.“

Gildi lýðræðislegra stjórnarhátta
Í félagslögum Varðbergs segir, að tilgangur félagsins sé að efla skilning meðal ungs fólks á Íslandi á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta, skapa aukinn skilning á mikilvægi samstarfs lýðræðisþjóðanna til verndar friðinum, vinna gegn öfgastefnum og öfgaöflum og mennta og þjálfa unga áhugamenn í stjórnmálastarfsemi, með því að afla glöggra upplýsinga um samstarf og menningu vestrænna þjóða, um markmið og starf Atlantshafsbandalagsins, svo og að aðstoða í þessum efnum samtök og stjórnmálafélög ungs fólks, er starfa á grundvelli lýðræðisreglna.

Guðmundur segir að Varðberg hafi tekið virkan þátt í starfi ungra stjórnmálamanna á vettvangi NATO frá upphafi samtaka þeirra. „Aðildin var ómetanleg í baráttunni við andstæðinga NATO, sem voru mjög háværir og stóryrtir á þessum tíma. Frá því að Varðberg var stofnað hafa þúsundir ungra Íslendinga komið þar við sögu. Varðberg hefur þó aldrei verið mjög fjölmennt félag, enda var tilgangurinn með stofnun þess fyrst og fremst að byggja upp sterkan, samhentan baráttukjarna fyrir málstað frjálsra, vestrænna þjóða. Varðberg heldur því merki enn á lofti og átök í stjórnmálum innanlands hafa ekki komið í veg fyrir að unga fólkið í Varðbergi hafi staðið saman í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar, enda tekið fram í félagslögum að félagið fjalli einungis um utanríkismál.“

Kalda stríðið í algleymingi
Varðbergsfélög voru stofnuð um land allt og félagið hélt fundi og ráðstefnur og gaf út efni um baráttumál sín, m.a. tímaritið Viðhorf í félagi við Samtök um vestræna samvinnu. „Á þessum árum var kalda stríðið í algleymingi og átökin í varnar- og öryggismálum hörð og óvægin,“ segir Guðmundur. „Ég skil ekki enn hvernig nokkur Íslendingur gat ánetjast hugmyndafræði þeirra ofbeldisafla sem kommúnisminn í Sovétríkjunum var frá upphafi og enn síður eftir að illvirki Stalíns urðu lýðum ljós.“

Starf Varðbergs gekk strax vel. „Við snerum vörn í sókn. Fundir okkar víða um land voru fjölsóttir og fyrirlesarar á þeim voru gjarnan innlendir og erlendir forystumenn með sérþekkingu á þessum málum, til dæmis Benedikt Gröndal, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins, og James K. Penfield, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á þessum tíma. Við efndum líka til fjölmennrar ráðstefnu hér á landi um NATO í júní 1962, þar sem mættir voru ungir stjórnmálaleiðtogar frá öllum NATO-ríkjunum. Þá skipulögðum við heimsóknir til aðalstöðva NATO í París og Brussel og til Noregs, Danmerkur og Bandaríkjanna. Varðberg naut frá upphafi stuðnings fjölda aðila, innanlands sem erlendis. Sendiráð NATO-ríkjanna í Reykjavík veittu okkur til dæmis góða liðveislu. Við höfðum ekki úr miklu að spila, en NATO aðstoðaði okkur með því að koma á fót upplýsingaskrifstofu í Reykjavík, sem hinn mæti maður og vinur minn, Magnús heitinn Þórðarson, veitti forstöðu. Skrifstofan var mikill þyrnir í augum kommúnista og Magnús sætti oft svívirðilegum árásum á síðum Þjóðviljans, sem og ýmsir aðrir sem börðust fyrir NATO. Nú vilja flestir þessara árásarmanna gleyma fortíð sinni. Þeir fagna aðild Póllands, Tékklands og Ungverjalands að NATO og lýsa sig reiðubúna að þjóna þeim málstað sem þeir svívirtu sem mest.“

Þegar Guðmundur lítur yfir farinn veg segir hann aðalatriðið vera að sannleikurinn hafi sigrað. „Frelsi og umburðarlyndi og skilningur milli einstaklinga og þjóða í skjóli lýðræðis er það sem mestu máli skiptir í vályndum heimi.“


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO