Sagan Ísland Viðtöl Með eigin orðum Samstarfið |
Samvinna í umhverfis- og þjóðfélagsmálum Samstarfsverkefni um geislavirkni í Norðurhöfum NEFND Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem fjallar um viðfangsefni umhverfis- og þjóðfélagsmála var sett á laggirnar árið 1969 til að gefa bandalaginu nýja úsamfélagslega vídd“. Á þeim tíma, sem nú, var samvinna NATO-ríkja talin geta skipt sköpum í þeirri viðleitni að bæta lífsgæði í nútímasamfélagi vestrænna ríkja. Markmið CCMS-nefndarinnar (Committee on the Challenges of Modern Society) hefur verið að kljást, á sameiginlegum grundvelli, við þau vandamál sem steðja að þjóðríkjum, með þá forsendu að leiðarljósi að aðildarríki og samstarfsríki NATO deili sérfræðikunnáttu og tækni og komast þannig að raunhæfum valkostum um úrlausn mála. Nefndin hefur, með svipuðum hætti og vísindanefnd NATO, haft nýjar áherslur að leiðarljósi við val á viðfangsefnum. Að samstarfsríkjum NATO í Mið- og Austur-Evrópu auk Rússlands, hefur steðjað vandi sem NATO-ríkin hafa viljað eiga þátt í að leysa. Er þar helst að nefna samband umhverfisþátta og hermála, s.s. hernaðarmannvirkja og heræfinga, og tengsl þess við þætti sem snúa að almenningi þ.e.a.s. heilbrigðismál, hreinlæti og umhverfisvernd. Með þetta markmið í huga hefur nefndin starfað sem vettvangur þar sem fulltrúar ríkja, tveggja eða fleiri, hafa getað eytt tortryggni, skipst á skoðunum, kortlagt vandamál og lagt fram tillögur um úrlausn mála. Við stofnun CCMS-nefndarinnar ákvað Norður-Atlantshafsráðið að nefndin sjálf myndi ekki vinna að leiðbeinandi rannsóknum heldur kæmu þar að ríki Atlantshafsbandalagsins eða aðildarríki Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins sem leggðu fram tillögur og hrintu þeim í framkvæmd. Alls hafa á á sjöunda tug leiðbeinandi rannsókna verið framkvæmdar undir formerkjum CCMS-nefndarinnar síðan hún hóf störf. Kortlagning á geislavirkni Norðurhafa Verkefnið var tvískipt og stóð fyrri áfanginn yfir árin 1992-1995 en sá seinni 1995-1998. Í fyrri áfanganum var um leiðbeinandi rannsóknir að ræða - kortlagningu á geislavirkni á hafsvæðum með norðurströnd Rússlands og Skandinavíu, Eystrasalti og Svartahafi í suðri. Grunnniðurstöður þeirrar vinnu studdu það sem áður var vitað þ.e. að geislavirkur úrgangur frá herstöðvum, aflóga rússneskum kjarnorkukafbátum og kjarnorkutilraunum í andrúmslofti við Novaya Zemlya, væri orsakavaldur geislamengunar í Barentshafi og Karahafi - í mismiklum mæli þó. Annar stór orsakaþáttur í geislavirkni í Norðurhöfum hefur hins vegar verið mengun frá kjarnorkuendurvinnslustöðvunum í Sellafield og Dounreay á Englandi og La Hague í Frakklandi. En talið er að allt að 20% af losun Sellafield-stöðvarinnar berist í Barentshafið með hafstraumum. Þriðji orsakavaldur geislamengunar í Norðurhöfum var rakinn til ánna Ob og Yenisey sem renna í Karahafið. Viðvarandi mengun vegna framburðar ánna er ekki mikil að jafnaði, en hætturnar eru hins vegar til staðar. Mayak-kjarnorkuvinnslusvæðið nærri Chelyabinsk er um 2000 km inni í landi og er talið að þar sé eitt mesta samansafn af geislvirkum efnum sem til er á jarðríki. Á fimmta og sjötta áratugnum var losað miklu af geislavirkum úrgangi í vatnakerfi árinnar sem barst síðan frá Mið-Asíu til Norðurhafa. Úr þessari mengun hefur dregið stórlega og hafa reglulegar skoðunarferðir til Mayak-svæðisins gefið til kynna að af ánni stafi ekki yfirvofandi hætta fyrir lífríki í Norðurhöfum. Hafa menn hins vegar haft áhyggjur af öllu því geislavirka efni sem þar er geymt og undirstrikað hættuna af því ef til óhapps kæmi. Slíkt gæti haft víðtæk áhrif, langt út fyrir Mayak-svæðið sjálft. Í þessu samhengi hefur það verið nefnt að ef til stórs flóðs kæmi, væri hætta á að stórar bylgjur geislavirkra efna færu út í íshöfin. Raunhæfur möguleiki er því á að svæðið geti orðið upptök geislavirkrar mengunar á heimsskautahafssvæðinu. Rík ástæða fyrir eftirlitskerfi Áhrifa Chernobyl-slyssins, fyrir þrettán árum, gætir enn í Rússlandi og nálægum ríkjum. Geislamengun í Svartahafi var talsverð í kringum 1963-1964, þegar tilraunir Sovétríkjanna á kjarnorkusprengingum í andrúmslofti stóðu sem hæst. Hafði mengun minnkað til muna síðan á sjöunda áratugnum en í kjölfar hnattrænnar geislamengunar vegna bilunarinnar í kjarnaofnum Chernobyl-versins hækkaði tímabundin mengun í Svartahafi, sem er í um 1300 km fjarlægð frá Chernobyl, allt að fjörutíufalt. Meginniðurstöður rannsóknarverkefnisins voru þær að geislamengun í Norðurhöfum var minni en búist var við, en að rík ástæða væri að koma á áhrifaríku eftirlitskerfi og fylgjast þannig með þeim stöðum sem geislavirkum úrgangi hafði verið komið fyrir. Framkvæmdaraðilar verkefnisins í CCMS-nefndinni, sáu því fram á að enn væri þörf á samstarfi undir formerkjum Atlantshafsbandalagsins þrátt fyrir að fjölmargar alþjóðastofnanir, s.s. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) og Eftirlitsstofnun Norðurheimsskautasvæðisins (AMAP), væru að rannsaka svipaða þætti. Var sú ákvörðun tekin að fara ofan í kjölinn á nokkrum tilteknum málum, og var sjónum því beint m.a. að ánum Ob og Yenisey og áhrifa þeirra á geislavirkni Norðurhafa, auk þess að skoða sérstaklega árnar sem renna í Eystrasalt. Var skipulag og vettvangur Atlantshafsbandalagsins notað til skoðanaskipta milli vísindamanna þeirra ríkja sem að samstarfinu stóðu. Hefur þetta fyrirkomulag skilað það góðum árangri að tuttugu þjóðir hafa séð ríka ástæðu til þátttöku í seinni áfanga verkefnisins. Vandi sem þekkir engin landamæri Höfuðvandinn hefur verið að rússnesk stjórnvöld hafa ekki getað veitt fullnægjandi fjármunum í að fyrirbyggja geislamengun. Með tvíhliða samstarfi Rússa - í kjölfar CCMS-verkefnisins - við t.d. Noreg og Bandaríkin, hefur því verið reynt að taka á brýnustu vandamálum geislamengunar. Ætla má að rannsóknarverkefni NATO hafi skapað aðildarríkjum þess vinnuskilyrði og gagnkvæmt traust sem nýst hefur í áframhaldandi samstarfi. Á tímum aukinnar meðvitundar almennings um umhverfismál og aukins skilnings stjórnvalda víðs vegar um heim að líta á umhverfisvá sem öryggismál í víðara samhengi, er fjölþjóðlegt samstarf mikilvægt. Umhverfisvandi - leyndur eða ljós - er einu ríki ofviða. Umhverfismengun þekkir ekki landamæri. Reuters Morgunblaðið |
NATO |