Sagan Ísland Viðtöl Með eigin orðum Samstarfið |
„Merkið frá Reykjavík“ Ráðherrafundur Atlantshafsbandalgsins, NATO, var í fyrsta sinn haldinn hér á landi 1968 og var þar samþykkt yfirlýsing sem nefnd var úMerkið frá Reykjavík“. Í yfirlýsingunni var austurblokkin hvött til að hefja viðræður um samdrátt í herjum og vopnabúnaði. Kristján Jónsson fjallar um Reykjavíkurfundinn 1968.
Einn af mikilvægustu liðunum í skipulagi Atlantshafsbandalagsins eru fundir utanríkisráðherra aðildarlandanna sem eru haldnir tvisvar á ári til að ræða samskipti Austurs og Vesturs, innra starf og skipulag NATO, öðru hverju jafnvel deilur milli einstakra bandalagsríkja. Sagt er að mikilvægustu viðræður á slíkum fundum fari oft fram á göngum eða á hótelherbergjum. Út á við er fyrst og fremst um að ræða pólitíska stefnumörkun en að sjálfsögðu hefur það einnig mikla þýðingu að ráðherrarnir ná að mynda persónulegt tengsl og kunningskap. Árið 1968 þóttu aðstæður hér verða orðnar nægilega góðar til að hægt væri að halda jafn viðamikinn fund í Reykjavík en þess má geta að alls komu hingað um 300 manns að meðtöldu starfsliði fjölmiðla frá allmörgum ríkjum, m.a. Sovétríkjunum. Hótelrými var orðið nógu mikið, ekki síst eftir að Hótel Saga komst í gagnið en meira máli skiptu líklega umbætur í síma- og fjarskiptamálum auk bættra flugsamgangna. Póstur og sími kom upp miðstöð með símalínum og telexsambandi í Hagaskóla, einnig voru þar vinnustofur fyrir fréttamennina og upplýsingamiðstöð. Heyra mátti í hátölurum þýðingar á ræðum á ensku jafnt sem frönsku. Mótmæli og mannleg ásjóna Í maí hafði frönskum stúdentum nær tekist að velta de Gaulle forseta úr sessi með mótmælum í París og í Bandaríkjunum voru stúdentar í fararbroddi þeirra sem börðust gegn styrjaldarrekstri landsmanna í Víetnam.
Loks má geta þess að um þetta leyti var Alexander Dubcek og samherjar hans að reyna að koma á úkommúnisma með mannlegri ásjónu“ í Tékkóslóvakíu, áður óþekkt tjáningarfrelsi var gernýtt - en í ágúst kæfðu skriðdrekar Varsjárbandalagsins þessa tilraun í fæðingunni. Andlitið varð aftur að steini. En Reykjavíkurfundurinn var haldinn dagana 24.-25. júní og atburðirnir í Prag enn huldir þoku framtíðarinnar. Ef mótmælin eru undanskilin gekk allt snurðulaust hér, meira að segja veðrið var gott og gestirnir kvöddu landsmenn með mikilli hlýju, ekki síst bandaríski ráðherrann. Hann hafði fengið sér göngutúr í miðbænum á þriðjudeginum, seinni dag fundarhaldanna og heilsað upp á endurnar á Tjörninni. Þá var stillt veður en nokkuð kalt. „Dean Rusk líkti Reykjavík við gimstein“ var fyrirsögn á frétt Morgunblaðsins um kveðjustundina á Keflavíkurflugvelli. Reykjavíkurfundurinn varð tvímælalaust til að auka sjálfstraust ráðamanna hérlendis: Við vorum búin að sýna að við gátum þetta. Á Reykjavíkurfundinum gagnrýndu menn hart nýjar viðskiptahindranir sem stjórn Walters Ulbrichts í Austur-Þýskalandi hafði komið á til að draga úr samskiptum Vestur-Berlínar við Vestur-Þýskaland. Pappírstjald Ulbrichts Alls voru aðildarríkin orðin 15 um þetta leyti og aldrei fyrr í sögu landsins höfðu jafn margir voldugir stjórnmálamenn verið hér samtímis. Hér voru staddir 11 utanríkisráðherrar, meðal þeirra sá bandaríski, breski og vestur-þýski; franski ráðherrann komst ekki vegna þingkosninga heima fyrir. Talsmenn fjórveldanna svonefndu í bandalaginu héldu sérstakan ústórveldafund“ um ástandið í Vestur-Berlín og fór hann fram í breska sendiráðinu við Laufásveg. Fjögur ríki sendu aðra háttsetta embættismenn en ráðherra. Þess má geta að tveim árum fyrr höfðu Frakkar dregið sig út úr hernaðarsamstarfi bandalagsins í mótmælaskyni við það sem þeir töldu ofurvald Bandaríkjamanna og Breta innan samtakanna og voru þá höfuðstöðvarnar fluttar til Brussel. Dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra setti fundinn með ræðu í Háskólabíói og sagði að Atlantshafsbandalagið hefði náð því markmiði sínu að tryggja aðildarríkjunum frið. Það merkti þó ekki að bandalagið ætti úað standa að eilífu“ og enn síður að engar breytingar á því kæmu til greina. „En fráleitt væri að leggja það niður eða hverfa úr því nema önnur jafn-trygg skipan komi í staðinn.“ Athyglisvert er hvað hann hafði um lífskjör hér að segja. „Játa verður að ein af orsökunum til þess, að við getum hér haldið uppi sambærilegum lífskjörum við aðra í Vestur-Evrópu, er, að við höfum aldrei lagt fé til hernaðarþarfa, ekki einu sinni til varnar sjálfu landi okkar.“ Bjarni sagði að fjarlægð landsins frá öðrum löndum hefði áður verið talin nógu traust vörn og nú væri mannfæðin hér slík að vegna hennar gætum við aldrei af eigin getu haldið uppi vörnum sem skiptu máli. Manlio Brosio, ítalskur framkvæmdastjóri bandalagsins, sagðist dást að því hve vel Íslendingar hefðu varðveitt menningu sína og tekist að skapa hér frjálst og fullvalda þjóðfélag þar sem fólk lifði við góð kjör. Sér virtist undirbúningur fundarins hafa tekist eins og best yrði á kosið. Lenín var forspár Sjálfur ráðherrafundurinn var haldinn í hátíðasal Háskólans og tóku fulltrúar allra ríkjanna til máls en mest lögðu menn eyrun við þegar Dean Rusk frá risaveldinu, sjálfum Bandaríkjunum, talaði. Belgíski utanríkisráðherrann, Pierre Harmel, hafði nokkru fyrr lagt fram skýrslu um framtíðarverkefni NATO og var hún eins konar undirstaða fundarins. Lagði Harmel fram hugmyndir sem ætlað var að draga úr spennu, stuðla að afvopnun og bæta stöðu samstakanna á Miðjarðarhafi en þar voru Sovétmenn nú farnir að hafa sig nokkuð í frammi. Kúbudeilan árið 1962 hafði opnað augu Kremlverja fyrir því hve hernaðarmáttur þeirra var takmarkaður vegna lítils flota. Höfðu þeir því lagt ofuráherslu á uppbyggingu flotans í nokkur ár og skiptu umsvif Svartahafsflota þeirra á Miðjarðarhafi miklu vegna átakanna á Kýpur og harðra deilna Grikkja og Tyrkja. Báðar síðastnefndu þjóðirnar voru í Atlantshafsbandalaginu og veikti ástandið varnirnar í suðausturhorni álfunnar. Ekki bætti úr skák að herforingjar höfðu nýlega rænt völdum í Grikklandi. Árið 1963 hafði tekist að ná samkomulagi um að banna tilraunir með kjarnorkuvopn annars staðar en neðanjarðar og ofarlega á baugi voru nú hugmyndir um samning sem bannaði frekari útbreiðslu slíkra vopna. Fimm lönd réðu yfir kjarnorkuvopnum, Kínverjar höfðu sprengt í fyrsta sinn 1965 og herskáar yfirlýsingar ráðamanna í Peking urðu til að auka á ótta víða um heim við að til gereyðingarstríðs gæti komið. „Slökun“ var því ofarlega í hugum manna sem vildu bæta samskiptin við Sovétríkin og Vestur-Þjóðverjar voru að feta sig fyrstu skrefin í átt að svonefnri úAusturstefnu“ Willy Brandts utanríkisráðherra. Hann varð kanslari nokkrum árum síðar og tóku þýsku ríkin tvö þá fljótlega upp stjórnmálasamband. Hvatt til afvopnunarviðræðna
Leita yrði friðsamlegra leiða til að leysa deilur stórveldanna, forsenda lausna væri traust og trúnaður og menn yrðu að taka eitt skref í einu. Í lokin sögðust ráðherrarnir sammála um að æskilegt væri að ferli sem leitt gæti til gagnkvæmrar fækkunar og samdráttar í herjum hæfist. Þeir myndu því gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að undirbúa slíkar viðræður við Sovétríkin og önnur Austur-Evrópuríki úog hvetja þau til að taka höndum saman í leitinni að framförum í friðarátt.“ Ekki má gera of mikið úr úMerkinu frá Reykjavík“. En þegar haft er í huga að aðeins liðu fáein ár ár þar til búið var að koma af stað afvopnunarviðræðum sem kenndar eru við SALT, samningum um takmörkun vígbúnaðar, er ekki ofmælt að ein af vörðunum á þeim grýtta vegi hafi verið Reykjavíkurfundurinn 1968. Morgunblaðið |
NATO |