Sagan Ísland Viðtöl Með eigin orðum Samstarfið |
Jón Hákon Magnússon formaður Samtaka um vestræna samvinnu Hlutverki samtakanna hvergi nærri lokið „ÞÓTT kalda stríðinu sé löngu lokið þá er hlutverki samtakanna hvergi nærri lokið, þau eru nú opin og almenn samtök sem taka til umfjöllunar alþjóðamál eins og varnarmál, stjórnmál og umhverfismál og þá einkum í okkar heimshluta, Evrópu og N-Ameríku, en með áherslu á Norður-Atlantshafssvæðið,“ segir Jón Hákon Magnússon, formaður Samtaka um vestræna samvinnu, í samtali við Morgunblaðið í tilefni 50 ára afmælis NATO. Samtök um vestræna samvinnu, SVS, hafa starfað í rúm 40 ár og segir Jón Hákon upphaflegan tilgang þeirra hafa verið að halda uppi baráttu gegn andstæðingum NATO, hernámsandstæðingum, yfirráðastefnu kommúnistastjórnar Sovétríkjanna fyrrverandi og yfirleitt benda á nauðsyn þess að lönd í Norður-Evrópu væru í varnarbandalagi. „Ég hef stundum orðað það svo að munurinn á Samtökum hernámsandstæðinga og Samtökum um vestræna samvinnu sé sá að samtök þeirra hafa nánast liðið undir lok en við lifum áfram þótt kalda stríðinu sé lokið og höfum aðlagað baráttu okkar breyttum aðstæðum og breyttri heimsmynd,“ segir formaðurinn ennfremur. Lokað félag á tímum kalda stríðsins „Samtökin hafa nú verið opnuð og hver sem er getur gerst félagsmaður. Og það koma oft gamlir hernámsandstæðingar og rússneskir diplómatar á fundi hjá okkur, enda eru samtökin þau einu sem fjalla skipulega um alþjóðastjórnmál og varnarmál. Mér finnst líka ánægjulegt að sjá þá breytingu að nú er ungt fólk farið að koma mun meira á fundina en áður og er það til marks um breyttar áherslur og breytt viðfangsefni samtakanna. Áður fyrr var einkum rætt um hernaðarmálefni, svo sem hernaðarmátt stórveldanna, kjarnorkuógnina og varnarmál. Fyrirlesarar voru mikið til úr hópi sérfræðinga NATO-ríkja auk stjórnmálamanna og herforingja. Í dag eru viðfangsefni okkar mun víðtækari því nú hafa umhverfismál bæst við, rætt er um samstarf Evrópulanda á mörgum sviðum, Evrópusambandið, Vestur-Evrópusambandið, stækkun NATO til austurs og hvaða áhrif hún muni hafa, hugsanlega stofnun friðarsamtaka í löndum við Miðjarðarhafið og ýmislegt fleira, sem tengist beint eða óbeint NATO.“ Afmælisráðstefna í næsta mánuði Og Jón Hákon efast ekki um þýðingu starfs Samtaka um vestræna samvinnu þótt kalda stríðinu sé lokið og heimurinn breyttur: úStarf samtakanna verður að halda áfram að vera þróttmikið, það er nauðsynlegur vettvangur umræðu um alþjóðamálin í víðum skilningi. Alþjóðamálin snerta alla og þess vegna er ekki síst mikilvægt að sem flestir kynni sér stefnur og strauma þeirra hverju sinni. Þótt NATO sé nú mikið að horfa í austur og jafnvel að huga að stofnun einhvers konar öryggisbandalags landa sunnan og austan Miðjarðarhafs má ekki gleyma upprunanum, það er bandalag þjóða við Norður-Atlantshaf og hlýtur fyrst og fremst að taka mið af því í starfi sínu. Við Íslendingar eigum og verðum að minna NATO stöðugt á að það sé fyrst og fremst Norður-Atlantshafsbandalag. Vera okkar í NATO hefur tryggt Íslandi öryggi og frelsi í hálfa öld. Svo mun verða áfram. Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg, félag ungs fólks um NATO-málefni, standa á traustum grunni og þau byggja á honum í þeirri breytingu sem orðið hefur í starfinu,“ segir Jón Hákon Magnússon að lokum, en í vor hyggst hann láta af starfi formanns samtakanna, segir kominn tími til að næsti maður taki við. Morgunblaðið |
NATO |